Túrkmenistan - Yaznur Ovganova.
Túrkmenistan - Yaznur Ovganova.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýningin Allar heimsins konur verður opnuð í Listasafninu á Akureyri í dag og stendur til 9. maí. Á sýningunni verða til sýnis verk eftir 176 konur frá jafnmörgum löndum. Hér er birt grein eftir bandarísku listakonuna CLAUDIU DEMONTE sem er samstarfsaðili safnsins við sýninguna.

Gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á síðustu öld hafa veitt konum tækifæri til sjálfstæðis sem er gleðilegt fyrir konur af minni kynslóð. Ég komst á fullorðinsár í sömu mund og kvennahreyfingin varð til og óx. Sú tilfinning að möguleikarnir væru óendanlegir, ásamt frelsinu til að tjá þá - gegnum internetið, ódýr ferðalög, tafarlaus samskipti, listir, blaðamennsku og stjórnmál - hafa gert konur að afli sem taka þarf tillit til.

Iðja mín sem listakona, gamalreyndur háskólaprófessor, heimshornaflakkari og baráttukona varð til þess að ég lagði altæka spurningu fyrir listakonur um allan heim okkar sem er sífellt að skreppa saman: hvaða ímynd táknar "konu"? Með þetta hugtak að vopni ákvað ég að setja mig í samband við eina listakonu í hverju landi á jörðinni og biðja þær að skapa listaverk sem túlkaði grundvallareiginleika konunnar.

Þetta verkefni var hugsað án tillits til tíma, peninga, erfiðleika, umfangs eða áreynslu. Ég er listakona, ekki sýningarstjóri eða listfræðingur. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég væri að steypa mér út í, bæði hve mikil vinna fælist í því og hvaða afrakstri þetta skilaði mér. Hvert skref fól í sér ákveðna erfiðleika. Ég hafði samband við öll lönd í heiminum og flest svöruðu - sum eftir að eytt hafði verið hundruðum dollara í föx, póst og símtöl. Ég notaði alla samskiptamiðla sem hægt er að hugsa sér: persónuleg sambönd, söfn, sendiráð, Sameinuðu þjóðirnar, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna, bandaríska flotann, þá stofnun í Bandaríkjunum sem sinnir uppbyggingarstarfi í þróunarlöndum (Peace Corps), menningarmiðstöðvar og háskóla. Sum lönd höfðu strax samband, en önnur svöruðu aldrei vegna styrjaldar, hungursneyðar eða fátæktar. Endanlegur listi minn byggðist að meira eða minna leyti á aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.

Á móti hverri ágætri listakonu sem var valin var því miður önnur skilin út undan. Upphaflega ætlaði ég að opna sýninguna öllum sem hefðu áhuga á þátttöku. Eins og vænta mátti leiddi þetta til þess að fjöldi bandarískra myndlistarkvenna lýsti yfir áhuga sínum. En ég var ákveðin í að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn réðu lögum og lofum í heiminum, að minnsta kosti í þetta eina skipti. Það hefði eyðilagt tilganginn með verkefninu ef þúsundir bandarískra kvenna hefðu komið þar við sögu ásamt fáeinum konum frá öðrum löndum sem auðvelt var að ná til. Ég ákvað því að nota jöfnunarkerfi: eitt land, ein listakona.

Með því að leysa eitt vandamál skapaði ég samstundis annað. Hver átti að vera fulltrúi Bandaríkjanna? Vissulega ekki ég sem skipuleggjandi. Engin af þeim mörgu tillögum sem safnstjórar, safnarar og vinir lögðu fyrir mig virtist rétt. Eftir mikla umhugsun valdi ég þann kennara minn sem hafði haft mest áhrif á mig, lærimeistara minn, móður mína í myndlistinni. Þessi kona kenndi mér það sem ég met mest sem listakona, persóna og kennari. Vegna þess að hún er (og vill halda áfram að vera) utan við sviðsljósið hefur hún beðið um að nafns hennar verði ekki getið. Ég hef virt þá ósk hennar. Sumt fólk er þannig að við værum ófullnægð ef við nytum ekki góðs af því í lífinu. Í mínum huga er hún slík manneskja.

Með eiginmanni mínum, myndhöggvaranum Ed McGowin, hef ég ferðast til rúmlega sjötíu og fimm ríkja og skoðað myndlist, hvernig hún er gerð og hver býr hana til. Það var á ferð til hinna afskekktu Himalajasvæða í Bútan og Tíbet sem hugmyndin að þessu verkefni kviknaði. Við vorum að ljúka við rannsóknir fyrir bók sem listakonan Nell Sonnemann ætlaði að skrifa um nútíma-appliqué, þ.e. skraut sem er gert með því að festa eitt efni á annað. Hún hafði beðið okkur um að fara til Bútan og Tíbet til að safna dæmum. Í landslaginu í Tíbet má víða sjá tjöld sem eru ríkulega skreytt með þessum hætti, ævinlega með bláu munstri á hvítum grunni og oft er blandað saman öðrum litum í gríðarmiklum táknmyndamunstrum. Í leit okkar lá leiðin um hliðargötur í gamla bænum í Lhasa til tjaldverksmiðju í Tíbet. Þar fundum við konur sem unnu við þá margbrotnu iðju að búa til appliqué-skreyti við miðaldaaðstæður. Strangar af dúki voru breiddir á köld moldar- eða steingólf í hálfrökkvuðum herbergjum þar sem saumavélar suðuðu og hendur saumuðu hratt og stöðugt. Karlar ráku verksmiðjuna, en konur unnu öll störf. Það var áhrifamikið að koma í ysinn og þysinn á þessum stað.

Við urðum svo hrifin af sköpunarkraftinum, efnismiklum verkunum sem urðu til úr formlausum dúki, að okkur langaði til að vinna þar að okkar eigin hugmyndum. Ásamt tíbesku tjaldsaumakonunum fór ég að búa til ný munstur fyrir appliqué-verk úr myndum af hversdagslegum hlutum sem yfirleitt eru tengdir konum, svo sem háhæluðum skóm, brauðristum og handtöskum. En ég áttaði mig allt í einu á því að myndir af þessum hlutum eru svo bundnar við ákveðna menningu að það var einfaldlega ekki hægt að þýða þær fyrir þessar tíbesku konur. Ég velti þessu fyrir mér í marga mánuði eftir að ég sneri aftur.

Verk mín fjalla, oft á skoplegan hátt, um hlutverk kvenna í nútímasamfélagi. Eftir að ég hafði starfað í menningarheimum sem voru jafnólíkir og Sádi-Arabía og Taíland velti ég því fyrir mér hvaða myndir mundu tákna konuna í augum kvenna í þessum menningarheimum. Það er að segja, mig langaði til að þýða verk mín svo allur heimurinn skildi. Þótt hugtök eins og "þvermenningarlegur" séu orðin klisjur hefur allt líf mitt, frá barnæsku þar til ég tók að starfa sem kennari og listakona, byggst á einmitt slíkum hugtökum.

Ég ólst upp í Astoria í Queenshverfinu í New York-borg, heiminum í hnotskurn með háhýsin á Manhattan sem baksvið. Queens er margbreytilegasta sýsla í Bandaríkjunum að þjóðerni og þar eru mest nýttu bókasöfnin. Þrjátíu tungumál voru töluð í framhaldsskólanum mínum. Í hverfinu mínu lýstum við okkur öll, eins og margir Bandaríkjamenn af fyrstu og annarri kynslóð gerðu á sjötta áratugnum, sem Ítölum, Pólverjum, Grikkjum og svo framvegis. Við nutum matarins hvert hjá öðru, stríddum hvert öðru á bakgrunni okkar og reyndum að glata aldrei þeim hefðum sem voru eini farangurinn sem forfeður og formæður okkar höfðu efni á að taka með sér. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga víðsýna foreldra sem dæmdu fólk aðeins af gjörðum þess og hugarfari. Þessi kynni af Kínverjum, Indverjum, Suður-Ameríkubúum, Ameríkubúum af afrískum uppruna sem fólki sem maður þekkti, virti og blandaði geði við voru gjöf sem fáir gáfu börnum sínum. Foreldrar mínir gáfu hana af einlægni og pökkuðu henni inn með áskriftum að National Geographic. Þau sögðu okkur undursamlegar sögur af rauða brúðarkjólnum sem dóttir kínversks vinar þeirra klæddist og hávaxna, myndarlega sikhanum sem kvæntist stelpunni á efri hæðinni. Foreldrar mínir höfðu ekki tækifæri til að ferðast um heiminn nema í bókum, en þau veittu mér bæði tækifæri til að sjá hann og skilning til að meta hann og þjóðir hans.

Þegar ég lærði í háskólanámi mínu á sjöunda áratugnum um hinar miklu rústir Maya og Asteka sem eru svo nálægt landi okkar varð ég æf yfir því að hafa ekki verið sagt frá þeim fyrr. Hvernig stóð á því að bandarískar kennslubækur fræddu okkur aðeins um egypsku pýramídana fyrst þessar menjar voru rétt handan við landamærin? Í framhaldsskóla naut ég þess að fá kennslu í listasögu hjá konu sem sýndi aldrei litskyggnu af neinu sem hún hafði ekki séð eigin augum. Þetta er aðdáunarvert með tilliti til þess að meðal námskeiða sem hún kenndi voru vestræn, indversk, kínversk og japönsk listasaga. Ég trúði ekki að einhver hefði séð öll þessi fyrirbæri, hefði staðið fyrir framan þau. "Skoðið loftið í San Agnese við Piazza Navona," sagði hún, "en borðið líka súkkulaðibúðing í Tre Scalini." Ágengar lýsingar hennar á framandi stöðum kveiktu hjá mér draum um að ferðast. Líkt og hún sannfærðist ég um að allir ættu að sjá Hallarhótelið við stöðuvatnið í Udaipur áður en þeir dæju.

Frá því snemma á þrítugsaldri hef ég því gripið hvert tækifæri til að ferðast. Mér virðist það jafnlífsnauðsynlegt og matur. Það var ekki til sá staður sem mig langaði ekki að fara til - því fjarlægari, þeim mun gjöfulli. Ellefu árum eftir að ég lauk framhaldsskóla steig ég varlega ofan í valtan trébát á stöðuvatni í Udaipur, fékk hálsfestar úr flauelsjurt að gjöf og var ferjuð að eilífu inn í dýrðir reynslunnar. Ferðalög geta af sér ferðalög. Maður hittir fólk sem býr á öðrum stöðum og er boðið að ferðast meira. Vegna tilviljanakenndra kynna og gæsku ókunnugra hef ég eignast vini fyrir lífstíð.

Á öllum ferðalögum mínum hef ég haft mestan áhuga á stöðum sem eru minnst snortnir af vestrænum áhrifum. Ég býst við að alla ferðalanga langi til að sjá staði áður en þeir eru "eyðilagðir". En ég hef komist að því að vestræn áhrif eru alls staðar. Þegar ég ferðaðist til Irian Jaya á eynni Nýju-Gíneu vestanverðri flaug ég í lítilli skrúfuflugvél fullri af grænmeti og með dauðum hundi sem verið var að flytja heim til greftrunar. Eftir að hafa gengið þrjá daga inn í Dani-hálendið - þar sem búa karlmenn sem eru í reðurslíðrum einum fata og konur sem gefa grísum brjóst - fann ég Coca-Cola í trúboðsstöð. Fyrst varð ég fyrir vonbrigðum, en ég hef komist að því að þegar fyrirbærum úr ólíkum menningarheimum er stillt upp hlið við hlið kvikna nýir sjónarhættir. Sannleikurinn er sá að þótt þessi vestrænu áhrif séu víðtæk gegnsýra þau ekki allt. Við höfum líka orðið fyrir áhrifum.

Það var ætlun mín með þessu verkefni að halda til haga hinum ýmsu stíltegundum og hefðum hvers lands ásamt óhjákvæmilegum áhrifum frá öðrum löndum. Ég lagði ekki mat á verkin út frá einangruðu gildismati í listaheimi Vesturlanda nú á dögum. Ég reyndi heldur ekki að finna frægustu listakonuna í hverju landi. Þótt margar þeirra séu vel kunnar og hafi sýnt á alþjóðavettvangi eru aðrar alls óþekktar. Þær eru einfaldlega listakonur að sinna sínu starfi, af alvöru, án frægðar eða mikillar viðurkenningar. Þessu verkefni var ætlað að vera víðfeðmt, ekki takmarkað. Ég vildi undirstrika hve myndlist er búin til og skoðuð á marga ólíka vegu.

Afraksturinn fór fram úr mínum björtustu vonum, þarna voru verk sem ég hefði aldrei getað séð fyrir. Söfn af hugmyndum og aðferðum virtust koma í ljós, en þau yfirstigu öll landfræðileg mörk. Viðbrögð listakvennanna voru jafnmargbreytileg hvað snertir miðla sem myndmál. Hefðbundið handverk, svo sem útsaumur og "appliqué"-tækni frá Úsbekistan, Kasakstan, Aserbaídsjan, Kanada, Seychelleseyjum og Srí Lanka, ber glöggt vitni varðveislu staðbundinna siðvenja. Á hinn bóginn birtust hvarvetna nýjar tækniframfarir í stafrænni list, allt frá Malasíu til Austurríkis til Argentínu. Einu sinni bjó ég til myndröð úr útklipptum kvenímyndum sem hét Munaður líkamsþjálfunar - aðeins á Vesturlöndum erum við nógu rík og lánsöm til að axla þá "byrði" að stunda líkamsrækt til að halda okkur í formi. Mörg af þeim verkum sem bárust minntu mig á þetta verkefni því að þau sýndu konur bera böggla á höfðinu á þokkafullan hátt, konur við vinnu úti á akri, konur í flóttamannabúðum, konur án réttinda af nokkru tagi.

Einu skorðurnar sem ég setti listakonunum var sú beiðni að verkin sem send yrðu væru 20 sm að flatarmáli. Verkin kæmust þá í stöðluð umslög og auðvelt væri að ljósrita þau á vélritunarblöð í staðlaðri stærð. Það mundi auka á sjónræn áhrif sýningarinnar að hafa öll verkin í sömu stærð. Stærðartakmörkunum mínum var oft ekki fylgt út í æsar. Engu að síður gæddu smávægileg tilbrigði í stærð og lögun verkefnið sérstöku og óvæntu lífi. Það minnti mig á að geta ekki litað innan línanna sem barn!

Þetta verkefni, eins og þessi ritgerð, steyptist út úr hjarta mér. Í því runnu persónuleg reynsla mín og faglegur áhugi saman við reynslu og áhuga kvenna út um allan heim. Þótt þessi hugmynd hafi verið hugarfóstur mitt er sköpunarmáttur hennar sprottinn frá viðkomandi listakonum og þær eiga skilið mestan heiður. Til að sýna þessum konum sóma, sem unnu kauplaust og gáfu af sjálfum sér, er mikilvægt að meta hverja rödd, að vita að hver á sér sögu: einstæða móðirin sem kennir blindum í Sambíu, leiðtogi kvenréttindahreyfingarinnar í Úsbekistan, afganska konan með blæjuna sem syrgir myrtan bróður sinn. Allar þessar konur skapa myndlist, allar eru fúsar að taka þátt og allar leggja fram verk sín til að þau verði boðin upp í góðgerðarskyni öðrum konum til aðstoðar. Ég hef sérstakt samband við hverja þeirra, við hvert land (að ekki sé talað um hið mikla nútímalega frímerkjasafn).

Með þessu verkefni er hvorki verið að kenna landafræði né sýna hvað ég á auðvelt með að mynda tengsl. Það er tjáning á mannsandanum í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar, frá fólki sem sjaldan heyrist í. Nú fær það loks að yrkja sín eigin ljóð.

Claudia DeMonte hefur haldið yfir sextíu einkasýningar og tekið þátt í mörg hundruð samsýningum, bæði innan Bandaríkjanna og utan. Verk DeMonte bera sterkan svip af ferðalögum hennar til yfir 75 landa og áhuga hennar á myndlist utangarðsfólks. Undanfarin 25 ár hefur hún starfað við háskólann í Maryland. Árni Óskarsson þýddi.