— Morgunblaðið/Kristján
Fyrir skemmstu kom út í íslenskri þýðingu bókin Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni eftir þýska heimspekinginn Immanúel Kant. KRISTJÁN G. ARNGRÍMSSON skiptist á tölvuskeytum við þýðandann, Guðmund Heiðar Frímannsson.

Skoski siðfræðingurinn H.J. Paton, sem lengi var prófessor í Oxford á síðustu öld, skrifaði eitt sinn að sennilega væri engin jafn mikilvæg bók í sögu siðfræðinnar jafn hlægilega lítil og Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni eftir Immanúel Kant. Þessi hlægilega litla bók kom út á síðasta ári sem Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, í íslenskri þýðingu Guðmundar Heiðars Frímannssonar, heimspekings og deildarforseta kennaradeildar Háskólans á Akureyri. Þetta er í fyrsta sinn sem út kemur íslensk þýðing á bók eftir Kant.

Guðmundur Heiðar tekur undir það að bókin sé ekki mikil að vöxtum. "Það er rétt að hún er ekki löng en höfundinum tekst á þessum 90 síðum eða svo að koma ótrúlega miklu efni fyrir. Í rauninni tekst honum að setja fram flest aðalatriði kenninga sinna í siðfræði í þessari bók þótt hann rökstyðji þau ekki öll í henni. Nafnið gefur til kynna hvaða augum höfundurinn leit á bókina. Hann taldi hana vera inngang að kenningum sínum um eðli siðlegrar hegðunar. Hann byrjar á að greina ákveðna þætti í viðteknum siðaskoðunum síns tíma og forsendur þeirra, og hann leiðir rökfærsluna áfram að heimspekilegri framsetningu grundvallarreglu siðferðisins með því að setja grundvallarregluna fram með ólíkum hætti. Í síðasta kafla bókarinnar leiðir hann grundvallarreglu siðferðisins af frumspekilegri kenningu sinni um verklega skynsemi og leitast við að rökstyðja og réttlæta regluna."

Kant skrifaði Grundvöll að frumspeki siðlegrar breytni 1784, er hann var sextugur, og ári síðar kom hún út í Ríga í Lettlandi, segir Guðmundur Heiðar.

"Í þessari bók tekst Kant að orða hugsun sína um siðferðisefni betur en í öðrum bókum sínum og með hnitmiðaðra hætti. Skoðanir og kenningar Kants birtust ekki bara í einni bók heldur í nokkrum bókum og ýmsum greinum sem hann skrifaði. Það er einn vandinn við að átta sig á skoðunum hans og kenningum um þessi efni. Fyrir utan Grundvöllinn eru Gagnrýni verklegrar skynsemi og Frumspeki siðlegrar breytni mikilvægastar. En þessi síðastnefnda bók átti að setja fram siðakenningu Kants og Grundvöllurinn var inngangur að henni. Það er svo kaldhæðni örlaganna að Grundvöllurinn hefur orðið frægasta bók Kants um siðferðisefni.

En það er ekki einvörðungu að bókin þiggi mikilvægi sitt af því að birta siðakenningar Kants. Það skiptir enn meira máli að Kant tekst að setja fram og rökstyðja markverða siðferðilega kenningu sem nýtur stuðnings meðal siðfræðinga enn í dag. Það má orða aðalatriði kenningar Kants svo að í siðferðilegum ákvörðunum og siðferðilegu mati eigum við að styðjast við almennar reglur, raunar algildar reglur og þær þurfa líka að vera óskoraðar eða undantekningalausar. Þetta þýðir til dæmis að ef við erum sannfærð um að rangt sé að segja ósatt eða ljúga þá er það ævinlega svo og gildir við allar aðstæður.

Það verður líka að geta annars atriðis sem markar kenningu Kants sérstöðu og það er að hann rökstyður þá skoðun að skynsemin stjórni siðlegri breytni, ekki hvatir eða tilfinningar. Þessi þáttur kenninga hans er ekki síður mikilvægur en sá að siðferðið mótist af algildum reglum."

Guðmundur Heiðar segir það alls ekki hafa verið áhlaupaverk að þýða bókina á íslensku.

"Þetta er fyrsta bók Kants sem er þýdd á íslenzku en áður hafði ritgerðin "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" verið þýdd en það gerðu Elna Katrín Jónsdóttir og Anna Þorsteinsdóttir. Það er orðið mjög langt síðan ég gerði fyrstu atlöguna að þessari þýðingu. Hún heppnaðist ekki vel. Hún var samt ekki alveg ónýt. En það sem eyðilagði hana var tilraun til að einfalda texta Kants. Það er ekki hlutverk þýðingar að einfalda, breyta eða útleggja textann sem þýddur er. Það var samt ákveðin uppistaða í fyrstu tilrauninni sem hægt var að nota áfram. Fyrir um það bil tíu árum byrjaði ég að líta á þetta aftur. Ég var síðan svo heppinn sumarið 1999 að geta dvalið tvo mánuði í Þýzkalandi í boði Ludger Kühnhardts, framkvæmdastjóra Zentrum für Europäische Integrationsforschung í Bonn. Erindið þar var að vísu að skrifa um þegnmenntun en mér tókst þó að nota nokkurn hluta tímans í þessa þýðingu og slípast ofurlítið í þýzku en ég hafði aldrei áður dvalið um lengri tíma í þýzkumælandi landi. Ég fór það sumar eina heila umferð yfir allan textann og bar saman nákvæmlega frumtextann og þýðinguna. Ég gerði það síðan nokkrum sinnum til viðbótar áður en ég skilaði af mér til útgáfunnar. Á sama tíma skrifaði ég langan inngang. Ég var búinn að vera svo lengi að þessu og fara svo oft yfir þetta að þetta var orðið vandræðalegt á heimilinu. Ég gat varla sagt frá því sem ég var að gera þær vikur á hverju ári sem ég eyddi í þetta því að það var alltaf eins og ég kæmist ekki úr sporunum. Ég fékk spurningar eins og: Nú, varstu ekki að gera þetta í fyrra og fyrir tveimur árum? Ætlarðu aldrei að klára þetta? Málinu var svo komið að ég varð að fara að losa mig við þetta af tillitssemi við annað heimilisfólk og sjálfan mig. Ég þykist samt viss um að enn leynist villur í textanum.

Það sem gerði þýðinguna erfiða og tímafreka var fyrst og fremst texti Kants. Þótt Kant hafi átt auðvelt með að skrifa sjálfur þá skrifaði hann ekki auðveldan texta fyrir aðra. En hann skrifaði þannig bækur að þær þola það að vera lesnar bæði nákvæmlega og oft. Ef maður gefur sér næði til þess þá ljúkast upp miklir fjársjóðir: maður finnur frumlegar hugmyndir, snjallar rökfærslur og stundum þurrlegan húmor. Verkefnið í svona þýðingu er að búa til texta á íslensku sem hegðar sér með svipuðum hætti: er fráhrindandi í fyrstu, jafnvel allt að því óskiljanlegur, en opnast eftir nokkra yfirlegu og maður byrjar að hugsa með þeim tækjum sem hann leggur manni til.

Til að þetta gangi eftir þá verður að þýða nokkuð nákvæmlega og sérstaklega verður að huga að lykilhugtökum. Lykilhugtökin eru ýmist úr mæltu máli eða heimspekileg. Það þurfti að finna orð fyrir þau. Dæmi af fyrra taginu er hugtakið "Interesse" sem gegnir mikilvægu hlutverki í kenningu Kants um ástæður til breytni. Ég varð að nota tvö íslenzk orð til að þýða það, "áhuga" og "hagsmuni". Dæmi af síðara taginu er hugtakið "Idee" en hann léði því sérstaka tæknilega merkingu í kenningakerfi sínu. Þýzka orðið er rótskylt gríska orðinu "eidos" sem var mikilvægasta hugtak Platóns og hefur verið þýtt á íslenzku með orðinu "frummynd". Um þetta hugtak hefur verið samfelld rökræða frá Grikkjum til forna og fram á okkar dag. Ég ákvað að þýða þetta tæknilega hugtak Kants með orðinu "Hugmynd" en þýðingin á þýzka orðinu "vorstellung" er "hugmynd". Munurinn er lítill og stór upphafsstafur. Þetta er vandræðaleg lausn, kannski á endanum ómöguleg, en ég fann enga aðra sem ég felldi mig við. Ég á mér það til afbötunar að í Grundvellinum skiptir þessi greinarmunur ekki eins miklu máli og í öðrum verkum Kants.

Mér vitanlega nota ég ekkert orð í þýðingunni sem ekki hefur áður verið notað af öðrum. Þegar ég var ungur stúdent við Háskóla Íslands að læra heimspeki þá naut ég leiðsagnar ágætra kennara sem gerðu kenningum Kants prýðileg skil. Mikilvægastir þeirra voru Þorsteinn Gylfason prófessor og Páll Skúlason, núverandi rektor Háskóla Íslands. Þorsteinn skipti þó meira máli fyrir mig því að hann fór í gegnum þekkingarfræði Kants með okkur nemendunum og svo skrifaði ég lokaritgerð hjá honum. Ég nota orð og orðalag, sem ég vandist í námi, frá honum víða í þýðingunni."

Um tengsl siðfræði Kants og annarra siðfræðikenninga segir Guðmundur Heiðar:

"Kannski er bezt að nálgast þessa spurningu með því að hafa í huga siðfræði Aristótelesar annars vegar, en Siðfræði Níkómakkosar eftir hann kom út á íslenzku fyrir nokkrum árum, og nytjastefnu Johns Stuarts Mills hins vegar. Aristóteles hugleiddi hvernig okkur bæri að lifa og taldi að dómgreindin léki stórt hlutverk við að komast að réttri niðurstöðu í hverju máli og hin rétta niðurstaða væri gullinn meðalvegur milli tveggja andstæðna. Maðurinn væri skynsamt dýr sem sífellt leitaðist við að öðlast hamingjuna og hana öðlaðist hann að öllu jöfnu með því að breyta rétt.

Kant spyr sig hver hin æðstu gæði séu og þykist finna þau í hinum góða vilja sem sé hið eina sem er skilyrðislaust gott í öllum alheimi. Hinn góði vilji bendi okkur svo á siðalögmálið sem kveði á um það að breyta alltaf eftir reglu sem geti á sama tíma verið algilt lögmál. Allar slíkar siðlegar reglur séu algildar í tvennum skilningi, ef svo má að orði komast: þær eiga við alla og þær eru undantekningalausar. Hann telur að leitin að hamingjunni sé villuljós og geti ekki þjónað okkur til að skilja siðlega breytni.

Mill setti fram einfalda reglu eins og Jeremy Bentham á undan honum: manni ber ævinlega að gera það sem stuðlar að sem mestri ánægju. Ánægja er sama og hamingja. Ánægja allra kemur með sama hætti inn í mat á því hvað stuðlar að mestri hamingju. Þetta er grunnregla nytjastefnunnar. En það verður svo að bæta við að Mill var eindreginn reynslusinni og taldi að nytjastefnan hlyti í öllum atriðum að byggja niðurstöður sínar á reynslu.

Í siðfræði samtímans eru mest ræddir þrír meginstraumar: dyggðakenning sem runnin er frá Aristótelesi, lögmálskenning sem komin er frá Kant og nytjastefna sem að flestu leyti er komin frá Mill. Kant er í hópi áhrifamestu hugsuða um siðferðisefni þótt ýmis atriði kenningar hans séu umdeild. Þótt þessar lýsingar séu hnotskurnir þá vona ég að þær veiti ofurlitla vísbendingu um stöðu Kants."

Guðmundur Heiðar telur siðfræðikenningar síðari tíma, sem draga í efa möguleikann á að finna algildar reglur, ekki hafa sýnt fram á neina veikleika í siðfræði Kants.

"Í samtímanum er það mikil tízka að efast um algildið. En það skiptir öllu máli hvernig efasemdirnar eru rökstuddar. Ein leiðin sem farin hefur verið er í svonefndum átthagakenningum um siðferðið. Þær ganga út á að siðferði sé ævinlega staðbundið og hljóti í öllum efnum að vera bundið nánasta umhverfi og komist aldrei út fyrir það. Í sem allra stytztu máli þá væri öll siðfræði átthagafræði. Þessi skoðun merkir að einungis er mögulegt að ræða um siðferði innan tiltekinna áttahaga, maður getur einungis borið saman ólíka siði í ólíkum átthögum en ekkert sagt um að einn siður sé betri en annar, það er einfaldlega merkingarlaust að tala þannig. Það er ekki ástæða til að fjölyrða um þær rökþrautir sem svona skoðun lendir í en eins og hún stendur hlýtur hún að vera röng. Það er einfaldast að benda á tvær staðreyndir því til stuðnings. Önnur er sú að það á við um alla menn að þeir eru upprunnir á tilteknum stað og tilteknum tíma en það útilokar ekki að þeir geti skilið annað fólk á öðrum stöðum og öðrum tímum. Hin er sú að benda á að við skiljum án teljandi fyrirhafnar algildar staðhæfingar. Það þarf ekki sérlega mikla fyrirhöfn að skilja setninguna allir menn eru jafnir. Þetta er ekki sérlega frjó umræða. Það er miklu frjórri umræða sem snýst um það hvort algildiskenningar þurfi annars konar rökstuðning eða undirbyggingu nú en áður. Ein leiðin er sú að smíða þurfi nýja kenningu um manneðlið sem útskýri til dæmis að sumar þarfir eru sammannlegar svo að eitt dæmi sé nefnt og útskýri þannig hvernig siðferði getur verið algilt. Kant getur lagt ýmislegt til málanna í þessum rökræðum bæði um manneðlið og mannlegan skilning. Það er ástæða til að taka eftir því að allar kenningarnar sem ég nefndi áður, dyggðakenningin frá Aristótelesi, algildiskenning Kants og nytjastefna Mills líta á algild hugtök og staðhæfingar um þau sem eðlilegan hluta siðferðisins þótt þær gefi honum ólíkt vægi."

Guðmundur Heiðar telur því, að Kant eigi enn fullt erindi við lesendur.

"Það er ekki svo að Kant sé bara forngripur sem ástæða sé til að dást að kurteislega en snúa sér síðan að einhverju alvarlegra. Það eru í meginatriðum tvær ástæður fyrir því að Kant á erindi við okkur nú á dögum. Í fyrra lagi þá mótaði hann mörg þau vandamál sem enn er glímt við í heimspeki. Skýrasta dæmið er sennilega sú kenning hans að til þess að vera frjáls væri nauðsynlegt að við værum óbundin af orsakalögmálinu. Heimspekingar ræða þennan vanda enn og við kunnum í raun ekki svarið. En það er ekki bara að hann hafi mótað margar þær ráðgátur sem við fáumst enn við heldur hafði hann snjöll rök fyrir svörum sínum við þessum ráðgátum. Þetta má sjá af því sem hann segir um rök fyrir tilvist Guðs svo að eitt dæmi sé nefnt. Í síðara lagi þá setti Kant fram skoðanir sem okkur eru nú runnar í merg og bein, eru orðin algerlega sjálfsögð sannindi. Kunnasta dæmi slíks er það sem hann segir um einkunnarorð upplýsingarinnar: "Sapere aude", þorðu að vita, þorðu að nota þitt eigið hyggjuvit. Það er ósjálfræði mannvitsins að njóta eilífrar leiðsagnar annarra en þora ekki að hugsa sjálft. Ef menntun er eitthvað eitt á okkar dögum þá er hún það að læra að hugsa sjálfur, meta rök sem aðrir hafa fyrir eigin niðurstöðum og komast svo sjálfur að sínum."

En skyldu siðfræðirit geta nýst manni til að læra siðferði?

"Þessari spurningu verður að svara bæði já og nei. Neikvæða svarið er mikilvægara. Ef fólk hefur ekki hlotið eðlilegt uppeldi þar sem það venst því að þurfa að taka tillit til annarra, umgangast fólk, dýr og hluti eðlilega, þá held ég að vonlaust sé að kenna því siðferði þegar það er að vaxa úr grasi eða er vaxið úr grasi. Ákveðin grunnþjálfun í bernsku virðist vera nauðsynlegt skilyrði siðferðis. En hafi fólk hlotið eðlilegt uppeldi og búi við þokkalegar aðstæður þá getur kennsla í siðfræði þjónað tilgangi og eflt siðferðisvitund fólks. Í samtímanum úir og grúir af vandamálum og ráðgátum sem ómögulegt er að leysa nema með því að hugsa skipulega um siðferðileg efni."

kga@mbl.is