Á þeim dögum þegar regnið örvar hugsunina þegar hugann fýsir að sópa skot hversdagsleikans spyr ég sjálfan mig um skáldveru þeirra manna sem breiða úr ljóðlínum.

Á þeim dögum þegar regnið örvar hugsunina

þegar hugann fýsir að sópa skot hversdagsleikans

spyr ég sjálfan mig um skáldveru þeirra manna

sem breiða úr ljóðlínum.

Þá finn ég

að krafan um hið fædda skáld er tilgangslaus,

að skáld er aðeins eyrnamergslaus glápari,

að ljóð er aðeins tínsla og afhýðun,

að meistaraverk er aðeins afsprengi heppni

þaninna eyrna og viðbúinna fingra.

Skáld er einungis veiðimaður sveiflna,

fegrandi óljósra svífandi radda,

birtingargjafi sannleiks sem lá þegar fyrir.

Lofgerðir og húrrahróp hylja því verðleikana,

eigna þeim annað en er, falsa þá, blanda þá spilliefnum.

Því skyldi enginn lofa skáldin,

heldur pípa á þau, jafnvel hæða,

fremur ata þau auri en skreyta þau rósum;

Samt verður að lesa ljóð þeirra

til að átta sig á því að maður skilur þetta,

ritdæma þau, mæla með þeim, auglýsa þau,

svo að sveiflurnar og raddirnar og sannleikurinn

flækist ekki eða hrúgist saman yfir höfðum okkar,

því að flækjur þeirra og hrúgöld

myndu annars stífla ljósvakann

og breyta honum í samansúrrað þyrnigerði.

Regninu linnir

þegar hugurinn hefur sópað burt fyrstu rykkornunum,

þegar duglítil sólin

byrjar að skríða gegnum ljósvakann,

og ylja verðandi ljóðum.

Þá spyr ég mig enn

um skáldveru mannanna

sem grípa sópinn þegar þeir heyra

regndropana smella á gluggunum.

Er þá regnið aðeins ályktun Hugans

sem þrýstir niður truflandi ljóðlínum,

eða er það tákn staðfasta sóparans

sem hangir á kústskaftinu

og lyftir örmum

eftir ljóðum sem verður að tjá?

Gólfsóp einhverra

verður alltaf fjársjóður annarra,

og dýrmæti einhvers

finnst aðeins sem leiðsluástand upplyftra arma.

Gonçalo Neves er portúgalskt skáld (f. 1964) sem yrkir á esperanto.