Þau skipti sem athygli mín er nokkurn veginn óskert í skoðanavaðli og afstöðukaupmennsku upplýsingasamfélagsins, verður mér stundum á að undrast hversu auðveldlega menn kokgleypa án umhugsunar skoðanir sem aðrir hafa komið sér upp til að þjóna sínum...

Þau skipti sem athygli mín er nokkurn veginn óskert í skoðanavaðli og afstöðukaupmennsku upplýsingasamfélagsins, verður mér stundum á að undrast hversu auðveldlega menn kokgleypa án umhugsunar skoðanir sem aðrir hafa komið sér upp til að þjóna sínum hagsmunum. Aldrei verða undrunarefni af þessari sort fleiri en þegar kosningabarátta ríður röftum samfélagsins. Þannig hefur mér t.a.m. þótt undarlegt í aðdraganda tvennra sveitarstjórnarkosninga að einungis stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafi talað á móti grjótnámi í Geldinganesi og einungis stuðningsfólk R-lista hafi talað með því. Er allt dæmt til geldingar sem varðar þetta lítilsiglda nes?

Nú er Geldinganesið enn og aftur orðið bitbein og það á miðju kjörtímabili. Sú fregn barst í vikunni að samstaða væri um að sameina í eitt fyrirtæki hafnirnar í Reykjavík, á Akranesi, Grundartanga og í Borgarnesi. Jafnframt skyldi hætt við svokallaða Geldinganesshöfn, enda ljóst að hún yrði aðþrengd.

Í Kastljósþætti í vikunni höfðu þær sest til skrafs andspænis hvor annarri, Hanna Birna Kristjánsdóttir (D) og Steinunn Valdís Óskarsdóttir (R). Tilefnið var að ný hugsun hafði brotist upp á yfirborðið í málefnum Reykjavíkurborgar og hafnarinnar og hlotið víðtækan stuðning.

Fréttin um sameiningu hafnanna er vitaskuld mikið fagnaðarefni og leysir væntanlega margvíslegan vanda. Samtal þeirra stallsystra hófst enda ósköp elskulega, nú var tími til að gleðjast að því er ætla mátti, og leggjast á eitt um að beita skynsemi og koma skikki á hlutina. En, nei; það var ekki því að heilsa. Þær fjandvinkonurnar duttu nær umsvifalaust ofan í pytt hins steingelda pólitíska karps, þar sem deiluaðilar arta sig eins og þeim beri að vinna til stiga fyrir sitt lið í íþróttakeppni. Þarna svömluðu þær í blindni og tróðu hvor aðra niður í svaðið á víxl, uns umræðuefnið var orðið bæði fáránlegt og óskiljanlegt. Fyrir framan sjónvarpsskjáina heima fyrir sátu svo væntanlega stuðningsmenn hvorrar um sig og skráðu stigin í huga sínum eins hlutdrægt og frekast var unnt.

Auðvitað er svona sjónvarpshasar með öllu gagnslaus og engum til sóma, og nær að ætla að hann valdi fremur skaða. Framganga á borð við þá sem sjá mátti í umræddum Kastljósþætti horfir að minnsta kosti ekki til framfara og ekki sæmir hún lýðræðinu. Má jafnvel ætla að svona leikbrúðusprikl geri almenning frábitinn lýðræðinu. "Sannleikurinn er lygi", er staðhæfing sem var Pablo Picasso afar kær og er óþægilega nösk lýsing á svonefndri stjórnmálaumræðu hér á landi eins og hún gerist verst. Þjark þeirra Steinunnar Valdísar og Hönnu Birnu er því miður ekkert einsdæmi.

Stjórnmálaflokkar eru nauðsynlegir til þess að þoka framfaramálum áleiðis, en hitt er verra að talsmenn stjórnmálaflokka eiga það allt of oft til að líkjast meir glötuðum sálum sem hafa gengið í geldingabjörg flokkshollustunnar og tala aldrei öðru vísi en sem vélrænn endurómur af meginhugsun flokksins síns. Vald er þeim mikilvægara en heilindi. Þess vegna örlar svona sjaldan á sjálfstæðri hugsun, furðulítill vottur finnst um sköpunargáfu, naumast hæfileiki til þess að rökræða með virðingu fyrir andstæðingnum, hvað þá að vart verði hæfileikans til þess að horfa til víðara samhengis. Með þessu háttarlagi er lýðræðið lítillækkað; talað er niður til kjósenda, sem er reyndar ekki alls varnað, eins og stjórnmálamenn hafa stundum mátt þola - sjálfum sér til hinnar mestu furðu.

ÁRNI IBSEN