EFTIRFARANDI yfirlýsing hefur borist frá settum landlækni, Jóni Hilmari Alfreðssyni: "Í máli því, sem nú um hríð hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna meintrar rangrar meðferðar læknis við fæðingu, hefur settur landlæknir nú sent frá sér...

EFTIRFARANDI yfirlýsing hefur borist frá settum landlækni, Jóni Hilmari Alfreðssyni:

"Í máli því, sem nú um hríð hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna meintrar rangrar meðferðar læknis við fæðingu, hefur settur landlæknir nú sent frá sér lokaútgáfu af álitsgerð sinni. Tvær fyrri útgáfur hafa verið kynntar hlutaðeigandi og þeim gefinn kostur á athugasemdum eins og venja er til.

Í lokaútgáfu er viðauki með skýringum og svörum vegna athugasemda lögmanns kærenda. Að öðru leyti er hún óbreytt.

Í framhaldi af álitsgerð ber landlækni að taka ákvörðun um aðgerðir ef um mistök er að ræða að mati hans. Hann getur aðvarað eða áminnt og loks lagt til við ráðherra sviptingu starfsréttinda, allt eftir alvarleika yfirsjónanna.

Landlæknir getur ekki fjallað um efnisatriði kærumála í fjölmiðlum. Hann er bundinn þagnarskyldu. Hann getur því ekki svarað þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á álitsgerð hans. Það mun verða gert á réttum vettvangi kæru- og dómsmála.

Það er erfitt að láta ósvarað dylgjum um óheiðarleika og hlutdrægni eins og að draga fjöður yfir mikilvægt atriði máls eða jafnvel sönnunargagn. Það hefur ítrekað verið minnst á nálarstunguför í fjölmiðlum, en þau eru nefnd í krufningarskýrslu án frekari skýringa. Ég tel mig ekki brjóta þagnarskyldu þótt ég upplýsi að þessi för eiga sér einfalda og eðlilega skýringu eftir meðferð á Vökudeild og hafa ekkert með rannsókn málsins að gera. Réttarlæknirinn minntist aðeins á þetta nákvæmni vegna.

Lögmanninum hefði verið í lófa lagið að fá munnlegt svar við þessari spurningu hjá mér eða réttarlækninum ef honum lá svo lífið á að ekki mátti bíða skriflegs svars.

Öðrum gagnrýnisatriðum sem fram hafa komið hjá lögmanninum mun ég láta nægja að svara á réttum vettvangi. Og lýkur þar með allri umfjöllun af minni hálfu um þetta mál í fjölmiðlum."