ENSKU liðin Arsenal og Chelsea dróust saman þegar dregið var til 8 liða úrslitanna í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í höfuðsstöðum UEFA í Nyon í Sviss.

ENSKU liðin Arsenal og Chelsea dróust saman þegar dregið var til 8 liða úrslitanna í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í höfuðsstöðum UEFA í Nyon í Sviss. Sigurvegararinn í einvígi ensku liðanna gæti lent á móti stjörnuliði Real Madrid en samhliða drættinum í 8 liða úrslitin var dregið til undanúrslitanna og þar mætast sigurvegararnir í leik Arsenal og Chelsea annars vegar og Real Madrid og Mónakó hins vegar. Porto dróst á móti Lyon og Evrópumeistarar AC Milan eiga í höggi við spænska liðið Deportivo La Coruna en sigurvegarnir í þessum rimmum eigast við í undanúrslitunum.

Þetta er í fyrsta sinn frá því Meistaradeildin var sett á laggirnar sem tvö ensk lið eigast við í keppninni og líklega hugsa liðsmenn Chelsea með hryllingi til leikjanna því þeim hefur ekki tekist að leggja Arsenal í síðustu 16 leikjum eða síðan 1998. Liðin hafa ást við þrívegis á leiktíðinni, tvisvar í úrvalsdeildinni og einu sinni í bikarkeppninni, og hefur Arsenal unnið þá alla með sömu markatölu, 2:1.

Forráðamenn Arsenal og Chelsea voru ekki mjög hamingjusamir þegar drátturinn lá ljós fyrir enda vildu félögin síst af öllu mætast á þessu stigi keppninnar.

"Ein mesta ánægjan að taka þátt í Evrópukeppni er að mæta erlendum liðum. Við hefðum því frekar kosið að fá aðra mótherja en Chelsea. Við tökum þessu hins vegar af karlmennsku. Við höfum haft gott tak á Chelsea í gegnum árum og það er til mikils að vinna því leikur við Real Madrid gæti orðið næst á dagskrá," sagði David Dein, varastjórnarformaður Arsenal, sem var viðstaddur dráttinn.

Viðureign Real Madrid og Mónakó er forvitnilegur fyrir þær sakir að með liði Mónakó leikur lánsmaður frá Real Madrid, framherjinn Fernando Morientes, sem hefur unnið tvo Evrópumeistaratitla með Madrídarliðinu.