Norska dráttarskipið Normand Mariner, sem kom til landsins í gær, fór 1,3 sjómílu að Baldvini en treysti sér ekki nær og bíður þess að þyrluáhöfn Gæslunnar dragi rúma 2 km langa taug úr skipinu yfir í Baldvin.
Norska dráttarskipið Normand Mariner, sem kom til landsins í gær, fór 1,3 sjómílu að Baldvini en treysti sér ekki nær og bíður þess að þyrluáhöfn Gæslunnar dragi rúma 2 km langa taug úr skipinu yfir í Baldvin. — Morgunblaðið/Arni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞYRLUÁHAFNIR Landhelgisgæslunnar og Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli léku stórt hlutverk á strandstað í Skarðsfjöru í gær þar sem Baldvin Þorsteinsson EA 10 bíður björgunar.

ÞYRLUÁHAFNIR Landhelgisgæslunnar og Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli léku stórt hlutverk á strandstað í Skarðsfjöru í gær þar sem Baldvin Þorsteinsson EA 10 bíður björgunar. Notast var við herþyrlu Varnarliðsins og TF-SIF, þyrlu Gæslunnar, við að flytja búnað frá landi út í Baldvin Þorsteinsson og norska dráttarskipið Normand Mariner sem kom til landsins í gær.

Dráttarskipið fór í átt að Baldvini en þegar það átti eftir 1,3 sjómílur treysti það sér ekki nær og bíður þess að þyrluáhöfn Gæslunnar dragi rúmlega 2 km langa taug úr skipinu yfir í Baldvin. Í gær kom TF-SIF á strandstað um kl. 14 og flutti 10 skipverja út í Baldvin sem hófu frekari björgunarundirbúning. Næstu klukkustundunum var varið í að flytja björgunarbúnað út í Baldvin, s.s. keðjuhlekki, lykkjur og fleira. Að sögn Jarle Andersen, verkefnisstjóra Normand Mariner, voru aðstæður þokkalegar í gær með tilliti til vinda og sjávarstrauma. Einn erfiðasti hluti björgunarinnar felst hins vegar í því að koma tauginni úr Normand Mariner yfir í Baldvin en það verður reynt í dag, laugardag. "Við þurfum að flytja taugina um 2500 metra vegalengd og í því felst mesta áskorunin," sagði Andersen.

1,8 tonna þung dráttartaug

Þegar klukkan var orðin 15.45 lenti þyrla Varnarliðsins í fjörunni við strandstaðinn og fundaði áhöfn hennar með björgunarhópnum áður en fyrsta verkefnið hófst. Í fjöruborðinu beið gríðarþungt kefli sem flytja átti út í Normand Mariner sem rétt glitti í við sjóndeildarhringinn gegnum brimrótið. Á keflinu var 1.900 metra löng taugin sem liðsmenn Gæslunnar munu fljúga með yfir í Baldvin í dag en sjálft dráttartógið verður dregið inn á tauginni. Keflið vó rúm 1,8 tonn en burðargeta Sikorski-herþyrlunnar er á fjórða tonn. Þeim sem fylgdust með af landi fannst nóg um þyngslin og ekki síst hávaðarokið sem feykti fjörusandi inn um allar glufur. Klukkan 17.04 bifaðist keflið upp á við og þyrlan hélt út á haf í átt til Normand Mariner með farminn hangandi neðan í sér. Þegar þyrlan nálgaðist skipið fór keflið að sveiflast ískyggilega mikið í vindinum svo mönnum varð ekki um sel. Svo virtist sem slaglengdin ykist með hverri sveiflu, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Allt gekk þó að óskum og var keflið komið um borð klukkan 17.11. Eftir á sagði einn liðsmanna úr bandarísku sveitinni Morgunblaðinu að vindurinn hefði vissulega verið grimmur og ekki væri æskilegt að láta farminn sveiflast á þennan hátt en enginn hefði þó skaðast.

Mikið þyrluflug var áfram yfir strandstað fram til kvölds og um tíma voru báðar þyrlurnar á lofti samtímis við að flytja búnað út í skipin.

Í dag bíður áhafnarinnar á TF-SIF vandasamt verkefni sem ekki hefur áður verið framkvæmt. Fljúga þarf þyrlunni löturhægt afturábak 2 kílómetra með áðurnefnda taug yfir í Baldvin og sagði Einar Valsson stýrimaður á TF-SIF það ófyrirséð hvernig þyrlan réði við verkefnið og einnig hvernig taugin legðist í sjávarstrauma.

Tveir kílómetrar milli skipanna

Tveir kílómetrar á milli skipanna eru gífurleg vegalengd í þessu samhengi og þarf að fara að öllu með gát. "Það hefur verið álandsvindur lengi þannig að það liggur talsverður straumur upp í fjöruna, sem er hagstætt," sagði Einar. "Síðan eru fallastraumar sem liggja með ströndinni og aðgæta þarf hvernig dráttartógið leggst í straumana og hve drátturinn verður þungur." Spurður um 2 km þyrluflug afturábak, dragandi taug í sjó, segir hann slíkt ekki þægilegt. "Maður sér lítið afturfyrir sig en það má segja að ekki séu miklar hindranir á leiðinni fyrr en við komum að skipinu. En þetta er vandaverk og óljóst hvað þetta tekur langan tíma."

Ljóst er að mikill áfangi næst í björgunarferlinu ef tekst að koma tauginni í Baldvin í dag og þá fyrst kemur í ljós hvort hið tröllaukna, nærri 30 þúsund hestafla dráttarskip nær að draga Baldvin á flot.