Klappað og klárt Þórður Friðjónsson og Hrafn Árnason að lokinni undirritun samnings um notkun ICEX-15 cap vísitölunnar til reksturs ETF-sjóðs.
Klappað og klárt Þórður Friðjónsson og Hrafn Árnason að lokinni undirritun samnings um notkun ICEX-15 cap vísitölunnar til reksturs ETF-sjóðs. — Morgunblaðið/Sverrir
KB banki hefur fengið einkaleyfi frá Kauphöll Íslands til að nota nýja ICEX-15 cap vísitölu til reksturs kauphallarsjóðs (ETF-sjóðs). Kauphöll Íslands átti frumkvæði að því að kanna hvort forsendur væru fyrir ETF-markaði á Íslandi.

KB banki hefur fengið einkaleyfi frá Kauphöll Íslands til að nota nýja ICEX-15 cap vísitölu til reksturs kauphallarsjóðs (ETF-sjóðs).

Kauphöll Íslands átti frumkvæði að því að kanna hvort forsendur væru fyrir ETF-markaði á Íslandi. Í kjölfarið var óskað eftir tilboðum markaðsaðila í rekstur ETF-sjóðs og ákveðið að ganga að tilboði KB banka.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði á blaðamannafundi í gær að markmiðið væri að efla hlutabréfamarkaðinn og þetta væri einn liður í því efni. "Við viljum fá útlendinga meira inn á markaðinn. Þetta höfðar til þeirra enda einfalt fyrir útlendinga að fjárfesta í sjóðum af þessu tagi."

Hann sagðist gera sér vonir um að útlendingar myndu fljótlega fara að fjárfesta í sjóðnum og áréttaði mikilvægi þess að fá útlendinga inn í kauphallarviðskipti hér á landi til þess að stuðla að traustari verðmyndun. "Þetta hefur gerst með skuldabréfin. Á stuttum tíma hafa útlendingar orðið virkir þátttakendur á innlendum skuldabréfamarkaði. Við gerum okkur vonir um að svipað muni gerast með hlutabréfamarkaðinn."

Eykur seljanleika og styrk

Hrafn Árnason hjá KB banka sagði innlendan hlutabréfamarkað einstakan miðað við erlenda markaði, hann sveiflaðist öðruvísi og byði því upp á góð tækifæri fyrir erlenda fjárfesta. "Við teljum að þetta muni auka seljanleika á íslenskum hlutabréfamarkaði og auka styrk hans."

KB banki stefnir að opnun sjóðsins 1. maí nk. og verður hann þá kynntur nánar.

Í Kauphallartíðindum í júlí sl. segir að ETF-sjóðum hafi fjölgað hratt í Bandaríkjunum og á síðustu árum hafi einnig orðið mikill vöxtur á þessu sviði í Evrópu. Segir jafnframt að sérfræðingar á helstu mörkuðum þar búist við áframhaldandi vexti þar sem sífellt fleiri verði meðvitaðir um kosti sjóðanna. Þórður sagði í gær að þótt misjafnlega hefði gengið hjá mörgum sjóðanna þá væri talsverð velta með þá. Algengur veltuhraði væri 250-300%.

Kauphöllin mun í framhaldinu kanna hvort forsendur eru fyrir sams konar sjóði fyrir skuldabréf auk þess sem til stendur að kanna á ný fjárhagslegar forsendur fyrir afleiðumarkaði á Íslandi.