BENEDIKT Sveinsson fráfarandi stjórnarformaður Sjóvár-Almennra trygginga hf.

BENEDIKT Sveinsson fráfarandi stjórnarformaður Sjóvár-Almennra trygginga hf. sagði í ræðu á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær að allar líkur væru á því að hin miklu umbrot sem urðu í viðskiptalífi landsins á síðasta ári kölluðu á nýja löggjöf sem myndi breyta leikreglum á markaðnum. Sagði hann að í stað þess að snúast gegn slíkri löggjöf ættu menn að reyna að hafa áhrif á lagasetninguna með jákvæðum hætti.

Benedikt sagði einnig að skoða ætti með opnum huga að krónan tengdist öðrum gjaldmiðli föstum böndum, sem í framhaldinu gæti leitt af sér að hún hyrfi af vettvangi, eins og hann orðaði það. "Meðan landið er með sjálfstæðan gjaldmiðil og gengi hans ræðst á frjálsum markaði er hætt við því að sveiflur geti orðið miklar. Þetta veldur því að sú festa sem almennt er nú í atvinnulífinu er minni en æskilegt væri," sagði Benedikt.

Heiðarleiki og traust hefur hopað

Þá sagði hann að almennur heiðarleiki og traust í viðskiptum hér á landi hefði hopað á undanförnu ári. "Þjóðfélagið verður að geta treyst því að viðskiptalífið sé heilbrigt. Það er mjög mikilvægt að viðskiptavinir, starfsmenn og eigendur fyrirtækja geti treyst því að þau starfi í góðu samræmi við lög og reglur og góða viðskiptahætti."