Leikstjórn: Rosa von Praunheim. Aðalhlutverk: Kai Schuhmann, Friedel von Wangerheim, Gerd Lukas Storzer, Olaf Drauschke, Tima die Göttliche. Lengd: 104 mín. Þýskaland, 1999.

ÞÝSKI leikstjórinn Rosa von Praunheim hefur gert um 50 heimildar-, leiknar og tilraunamyndir sem flestar hverjar taka á kynhegðun og samkynhneigð og hafa haft mikil áhrif á opinbera umræðu um fordóma gegn samkynhneigðum og eyðni í Þýskalandi. Von Praunheim er opinskár um samkynhneigð sína og hefur m.a. verið kallaður Andy Warhol Þýskalands. Nafnið Rosa tók leikstjórinn upp til þess að minnast kúgunar nasista á samkynhneigðum, sem auðkenndir voru með bleikum þríhyrningi í fangabúðum Þriðja ríkisins (rosa er þýska orðið yfir bleikt). Hin ögrandi verk sín vinnur von Praunheim jafnframt sjálfstætt og oft af vanefnum, sem skýrir e.t.v. þann "ódýra" sjónvarpsmyndablæ sem leikur yfir heimildarmynd hans um dr. Magnus Hirschfeld, frumkvöðul í réttindabaráttu samkynhneigðra og kynferðislegri uppfræðslu almennings við upphaf 20. aldar.

Viðfangsefni myndarinnar, sem hlotið hefur titilinn Einstein hvatalífsins, er einkar áhugavert. Þar er sagt frá lífi og starfi Hirschfelds, sem lærði læknisfræði við Humboldt-háskóla í Berlín, barðist fyrir auknum skilningi á samkynhneigð og kom á fót merkri stofnun um kynfræði, Institut für Sexual Wissenschaft, þá fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Hirschfeld barðist einnig ötullega fyrir afnámi laga er lögðu blátt bann við samkynhneigð en sú barátta hlaut snöggan endi þegar nasistar náðu völdum í Þýskalandi og Hirschfeld, sem var gyðingur, átti ekki afturkvæmt úr rannsóknarferð til Bandaríkjanna.

Aðferðin sem von Praunheim notar til að segja sögu Hirschfelds hefur kosti og galla. Myndin er að stærstum hluta unnin sem leikin heimildarmynd, og hefur sem slík yfir sér áberandi þvingaðan og sviðsettan blæ, líkt og hætt er við þegar heimildarefni er sviðsett með miðlungs nákvæmri lýsingu, búningum og sviðsmyndum. Viðhorf von Praunheims skína þó skýrt í gegnum sjónvarpsmyndastílinn en hér er tekist á við nekt og kynhegðun af fullkomnu hispursleysi. Það er þó fyrst og fremst með einlægni og sögulegri nákvæmni að leikstjóranum tekst að fanga athygli áhorfandans og varpa ljósi á það menningarlega og vísindalega umhverfi sem Hirschfeld reyndi að hafa áhrif á. Þá er sjónum beint að togstreitunni milli einkalífs og opinbers lífs í tilveru Hirschfelds, en hann var sjálfur samkynhneigður en þorði ekki að opinbera það af ótta við að starf hans yrði lagt í rúst á þeim grundvelli.

Heiða Jóhannsdóttir