Bjarni Guðmundsson
Bjarni Guðmundsson
Stóra málið er að Sjónvarpið og sjálfstæðir framleiðendur eiga mörg sameiginleg baráttumál ...

SAMRÆÐA Sjónvarpsins og kvikmyndagerðarmanna um innlent efni sem keypt er frá sjálfstæðum framleiðendum hefur þróast vel eftir nokkuð harkalega byrjun. Ásgrímur Sverrisson segir í Morgunblaðinu 5. mars: "Brýnt er að umræðan snúist ekki fyrst og fremst um smáatriðakryt og þjark um krónur hér og aura þar, heldur beinist fyrst og fremst að hinum stóru málum. Hvernig getur Sjónvarpið sinnt sem best því meginhlutverki sínu að færa áhorfendum vandaða og fjölbreytta innlenda dagskrá? Í þeim efnum verða stjórnvöld og RÚV, auk kvikmyndagerðarmanna og annarra listamanna, að taka höndum saman og lyfta menningarlegu grettistaki." Ólafur Jóhannesson segir í sama blaði daginn eftir: "Við kvikmyndagerðarmenn erum í sama liði og Ríkissjónvarpið, báðir aðilar bera hag þess djúpt fyrir brjósti." Ásgrímur lýsir jafnframt yfir ánægju sinni með fund fulltrúa Sjónvarpsins og félaga í Félagi kvikmyndagerðarmanna þar sem "opin og hreinskiptin umræða fór fram milli kvikmyndagerðarmanna og fulltrúa Sjónvarpsins um innlenda dagskrárgerð; markmið Sjónvarpsins og leiðir til að efla hana".

Mig langar til að taka undir þessi orð og lýsi mig jafnframt reiðubúinn til samtals og samvinnu. Á móti vænti ég skilnings á þeirri stöðu sem Sjónvarpið er í en það þarf að sinna margþættu hlutverki í smáu samfélagi og verður að gera það besta úr þeirri stöðu sem það er í hverju sinni. Auðvitað verða stjórnendur fyrirtækja í eigu ríkisins að bregðast vel við allri umræðu og málefnalegri gagnrýni á rekstur þeirra. Ef hún beinist hins vegar eingöngu að því að setja spurningarmerki við hvernig fé er ráðstafað innan Sjónvarpsins verður það fyrst og fremst til þess að gera rekstur Sjónvarpsins og viðskipti - þar með talið við kvikmyndagerðarmenn - tortryggileg.

Björn Br. Brynjólfsson fer fram á það við mig í Morgunblaðinu 4. mars að ég gefi ítarlega sundurliðun á kaupum Sjónvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum síðustu fimm ár. Mig langar til að svara honum á eftirfarandi hátt: Í ár er ráðgert að Sjónvarpið verji um það bil 125 milljónum til kaupa á íslensku dagskrárefni frá fyrirtækjum sem framleiða innlent dagskrárefni. Þetta getur þó breyst ef fjárhagur rýmkar og eins gæti samdráttur haft áhrif á kaup frá sjálfstæðum framleiðendum. Af milljónunum 125 renna 95 milljónir til kaupa á innlendu dagskrárefni og tæplega 30 milljónir til talsetningar sem fram fer samkvæmt samningi við sjálfstætt fyrirtæki að undangengnu útboði. Hluti talsetningar er hér tilgreindur sérstaklega þar sem sumir vilja ekki flokka talsetninguna sem efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Deildarstjóri innlendrar dagskrárdeildar Sjónvarps las upp á fundinum með FK-félögunum, sem nefndur er hér að framan, verkefni sem fram undan eru á árinu.

Innkaup Sjónvarpsins, frá fyrirtækjum sem framleiða sjónvarpsefni, jukust allmikið fyrir nokkrum árum eða úr um 50 milljónum og í um 140 milljónir ef miðað er við meðaltal síðustu fimm ára. Kjósi menn að draga það fé sem varið er til íslenskrar hljóðsetningar á aðkeyptu efni frá þessari upphæð nemur hún um 110 milljónum að meðaltali síðastliðin fimm ár.

Ég ætla að láta þetta verða mín síðustu orð um "krónur hér og aura þar". Stóra málið er að Sjónvarpið og sjálfstæðir framleiðendur eiga mörg sameiginleg baráttumál sem best verða leyst í hreinskilinni umræðu eins og gert var nýlega á fundi með félögum í FK en síður með einhliða yfirlýsingum, þrefi og þrasi.

Bjarni Guðmundsson svarar Birni Br. Björnssyni

Höfundur er framkvæmdastjóri Sjónvarpsins.