HÆSTIRÉTTUR hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2003 og vísað honum heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar, en málið höfðaði Júlíus Sólnes, prófessor í verkfræði við HÍ, gegn íslenska ríkinu og HÍ.

HÆSTIRÉTTUR hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2003 og vísað honum heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar, en málið höfðaði Júlíus Sólnes, prófessor í verkfræði við HÍ, gegn íslenska ríkinu og HÍ. Stefnandi krafðist endurgreiðslu á 128 þúsund krónum sem teknar höfðu verið af honum til greiðslu launatengdra gjalda, ásamt vöxtum. Þá krafðist hann að viðurkennt yrði að stefndu væri óheimilt að draga launatengd gjöld, samtals 19,68% frá úthlutunum til hans af heildarframlagi ritlauna- og rannsóknasjóðs prófessora, sem stofnaður var með ákvörðun kjaranefndar 2. júlí 1998.

Meginmálsástæða stefnanda var sú að launatengdu gjöldin væri gjöld sem stefnu bæri að greiða án frádráttar frá launum hans og væru gjöldin því honum óviðkomandi. Með þessu væri hann sem launþegi látinn bera gjöld sem hann ætti ekki að greiða heldur stefndu, launagreiðendur hans. Fyrir því væri engin lagaheimild. Héraðsdómur hafnaði þessari málsástæðu og komst að þeirri niðurstöðu að kjaranefnd hefði verið skylt að sjá til þess að launatengdum gjöldum væri skilað til lögmætra viðtakanda af þeim fjármunum sem hún úthlutaði sem launum og námu árlegu ráðstöfunarfé hennar.

Hæstiréttur segir í dómi sínum að skort hafi á í héraðsdómi að tekin hafi verið rökstudd afstaða til annarra málsástæðna stefnanda. Ekki heldur hafi verið tekin afstaða til varakröfu hans. Samkvæmt því var dómurinn talinn vera þeim annmörkum háður að ekki yrði hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu aftur heim í hérað.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein og Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari. Atli Gíslason hrl. og Guðmundur B. Ólafsson hdl. fluttu málið fyrir stefnanda og Skarphéðinn Þórisson hrl. og Jón R. Pálsson hdl. fyrir stefnda ríkið, og Hörður Felix Harðarson hrl. fyrir stefnda HÍ.