EINN af Bretunum fimm, sem nýkomnir eru heim eftir að hafa verið fangar Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu í tvö ár, segir í viðtali sem birtist í gær að hann hafi ítrekað mátt þola barsmíðar.

EINN af Bretunum fimm, sem nýkomnir eru heim eftir að hafa verið fangar Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu í tvö ár, segir í viðtali sem birtist í gær að hann hafi ítrekað mátt þola barsmíðar. Þá hafi Bandaríkjamenn einnig beitt fanga sína sálrænu harðræði. Jamal al-Harith er þrjátíu og sjö ára gamall Breti og var handtekinn af snemma árs 2002 í Afganistan. Daily Mirror birti í gær einkaviðtal við al-Harith en þar segist hann alls engin tengsl hafa haft við hryðjuverkamenn.

Al-Harith kom heim til Bretlands á þriðjudag en ásamt honum slepptu Bandaríkjamenn fjórum öðrum mönnum sem hafa breskan ríkisborgararétt. Fjórir Bretar eru enn í Guantanamo en alls eru þar hafðir í haldi um 650 manns.

Létu vændiskonur berhátta til að valda föngunum hugarangri

Al-Harith var skírður Ronald Fiddler, foreldrar hans eru frá Jamaíku en hann snerist til íslam og skipti þá um nafn. Hann segir í viðtalinu í Daily Mirror að hann hafi oft hafa mátt una því að vera hlekkjaður í lengri tíma á meðan á dvölinni í Guantanamo stóð. Þá hafi bandarískir herlögreglumenn barið hann eftir að hann hafnaði lyfjagjöf með sprautu.

Al-Harith segir að Bandaríkjamenn hafi ítrekað niðurlægt strangtrúaða múslíma, sem haldið var föngnum í búðunum, með því að fá í heimsókn þangað vændiskonur sem síðan var falið að berhátta sig fyrir framan valda fanga. "Ég veit um tíu slík atvik. Svo virtist sem þeir beittu einkum unga menn þessum brögðum, það voru einkum menn sem vitað var að væru afar trúaðir sem lentu í þessu," sagði al-Harith.

"Mest áhersla var lögð á það í Guantanamo að veikja þig andlega. Barsmíðarnar voru aldrei eins slæmar og sálrænu pyntingarnar," sagði al-Harith. Nefnir hann sem dæmi að jafnan hafi verið skrúfað fyrir vatn þegar bænastundir múslíma runnu upp "til að við gætum ekki þvegið okkur í samræmi við reglur trúar okkar".

Al-Harith er frá Manchester og er fráskilinn, þriggja barna faðir. Hann segir í viðtalinu að aðstæður fanga í Guantanamo hafi almennt verið slæmar og að fangar hafi lítilla réttinda notið. "Þeir sögðu reyndar einmitt þetta: hér njótið þið engra réttinda," sagði al-Harith um fangaverðina bandarísku.

Al-Harith segist hafa flogið til Pakistans síðla árs 2001 í því skyni að nema fræði Kóransins. Síðan hafi hann ætlað að ferðast með flutningabíl til Tyrklands en bíllinn fór hins í gegnum Afganistan án þess að hann vissi að það stæði til. Al-Harith segir að við komuna til Afganistans hafi hann verið fangelsaður af talibönum sökum þess að hann hafði breskt vegabréf meðferðis. Seinna handtóku Bandaríkjamenn hann.

"Þegar Bandaríkjamennirnir yfirheyrðu mig spurðu þeir: hvers vegna ertu svo hreinn? Við erum búnir að grennslast fyrir um þig hjá Interpol og getum ekki einu sinni fundið sönnun þess að þú hafir verið sektaður um umferðarlagabrot um ævina," sagði al-Harith í viðtalinu. "Ég svaraði: Það er af því að ég hef aldrei brotið neitt af mér um ævina."

London. AFP, AP.