Sigurður Magnússon
Sigurður Magnússon
MARGAR kunnar og mætar manneskjur hafa komið með tillögur að skipulagi norður-miðbæjarins, svo sem Tónlistarhús, nýjan Landsbanka og ýmsar aðrar byggingar á norðurhluta miðbæjarsvæðisins. Og miklar vangaveltur hafa orðið um hvernig m.a.

MARGAR kunnar og mætar manneskjur hafa komið með tillögur að skipulagi norður-miðbæjarins, svo sem Tónlistarhús, nýjan Landsbanka og ýmsar aðrar byggingar á norðurhluta miðbæjarsvæðisins. Og miklar vangaveltur hafa orðið um hvernig m.a. væri best að nota Geirsgötuna. Hér er ein hugmynd í hópinn sem gerir Geirsgötuna veigaminni í heildarmyndinni. Sé litið á allt svæðið frá Hringbraut og norður að Sæbraut þá liggur beint við að Sæbrautin beygi ekki í átt að Geirsgötu heldur haldi hún beinni stefnu og fari í 6 akreina göng undir Reykjavíkurhöfn, þar sem vesturmunninn kæmi upp austan við Örfirisey. Þar tæki myndarlegt hringtorg við Sæbrautinni. Hringtorg þetta (Örfiristorg) dreifði umferðinni frá Sæbrautinni á Mýrargötutorg og suður á Hringbrautartorg, sem tengir umferðina í hinar ýmsu áttir. Þar sem Sæbrautin fer undir höfnina við norðurenda Tónlistarhússins og bílageymslukjallara þess, sem væri væntanlega á tveimur hæðum og næði allt suður undir Landsbankahúsið nýja, væri kjörið að tengja akbrautir bílageymslunnar þannig að auðvelt væri að komast í þessi hús hvort sem það væri úr vestri eða austri af Sæbrautinni. Ef þessi útfærsla yrði notuð og búið væri að leggja góðan akveg vestur í Örfirisey - er þá ekki sjálfgefið að leggja tvö aðskilin veggöng upp á Kjalarnes? Þar sem hvor ganganna hefðu 3 akreinar svo umferð til og frá bænum verði greið. Með svona framkvæmd myndi álagið á gamla veginn um Mosfellsbæ minnka mikið.

Virðulegu borgarfulltrúar, ég vona að þessi tillaga komi að notum.

SIGURÐUR MAGNÚSSON

yfireftirlitsmaður

Skólavörðustíg 16a

Reykjavík.

Frá Sigurði Magnússyni