SJÖFN Ingólfsdóttir, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, segist ekki hafa orðið vör við óánægju innan félagsins með samkomulag við Reykjavíkurborg um hæfnislaun og starfsmat, líkt og Svanur Pálsson, vagnstjóri hjá Strætó bs.

SJÖFN Ingólfsdóttir, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, segist ekki hafa orðið vör við óánægju innan félagsins með samkomulag við Reykjavíkurborg um hæfnislaun og starfsmat, líkt og Svanur Pálsson, vagnstjóri hjá Strætó bs. hélt fram í Morgunblaðinu á fimmtudag.

Sagði Svanur marga borgarstarfsmenn standa í stað í launum eða fá aðeins greiddan hluta af þeim hæfnislaunaflokkum sem þeir töldu sig hafa unnið sér inn. Gagnrýndi Svanur það enn fremur að í samkomulaginu við borgina hefði staðið að hæfnislaun samkvæmt eldra fyrirkomulagi féllu niður frá gildistöku nýrra hæfnislauna.

Sjöfn segir Svan hafa tjáð þessa skoðun á aðalfundi félagsins nýlega. Hún telur þessa óánægju ekki almenna.

"Engin hæfnislaun hafa verið felld niður. Hins vegar er verið að tengja nýja reglu við eldri reglu og síðan fer endanlegt uppgjör fram í haust þegar starfsmatið liggur fyrir. Þá verða endanlega afgreidd starfslaun og þar með þeir launaflokkar sem inni í þeim eiga að vera. Ofan á þau koma starfsaldurstengd hæfnislaun hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar," segir Sjöfn.

Hún segir samkomulagið hafa snúist um framkvæmd gildandi kjarasamnings. Þegar einu fyrirkomulagi ljúki taki annað við en fyrri hæfnislaun falli ekki niður. Samkvæmt kjarasamningum eigi enginn starfsmaður að lækka í launum og því hafi engin laun fallið niður sem áður hafi verið greidd. Sjöfn segir það ennfremur liggja fyrir að samkomulagið komi misjafnlega út hjá borgarstarfsmönnum, allt eftir starfsaldri þeirra, sumir hækki meira í launum en aðrir en kjörin eigi hvergi að versna.