SAMTÖK iðnaðarins leggja Tækniháskólanum til hálfa stöðu lektors í tölvu- og upplýsingafræði næstu þrjú árin og var formlega ritað undir samstarfssamning þess efnis nýverið.

SAMTÖK iðnaðarins leggja Tækniháskólanum til hálfa stöðu lektors í tölvu- og upplýsingafræði næstu þrjú árin og var formlega ritað undir samstarfssamning þess efnis nýverið.

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði við undirritun samningsins að samtökin litu á þetta sem góða fjárfestingu. Hann sagði þörfina fyrir menntað vinnuafl vera að aukast og að Samtök atvinnulífsins vildu taka þátt í að byggja upp Tækniháskólann. Sveinn lagði áherslu á að framlaginu væri ekki ætlað að koma í stað framlags úr ríkissjóði, heldur ætlað til að efla enn frekar kennslu og námstækifæri við Tækniháskólann.

Stefanía Katrín Karlsdóttir, rektor Tækniháskóla Íslands, sagðist afar ánægð með þennan stuðning samtakanna. Þörfin væri sannarlega fyrir hendi. Hún sagðist binda vonir við að þetta framlag yrði aðeins byrjun á auknu fjárstreymi til skólans.

Samstarfssamningurinn við Samtök iðnaðarins er sá fyrsti sem gerður er með þessum hætti. Samtökin leggja til hálfa lektorsstöðu í þrjú ár og skólinn leggur til hálfa á móti. Staðan verður auglýst á næstunni.

Aðsókn að Tækniháskólanum hefur aukist á undanförnum árum. Um 800 manns stunda nám við skólann en að sögn Stefaníu má gera ráð fyrir að þeim fjölgi í u.þ.b. 900 í haust.

Samningurinn er gerður í því skyni að efla fjarnám í tæknigreinum.