BÆÐI fráfarandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna segja afkomu dótturfyrirtækis félagsins í Bandaríkjunum, Icelandic USA, hafa verið óviðunandi undanfarin ár.

BÆÐI fráfarandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna segja afkomu dótturfyrirtækis félagsins í Bandaríkjunum, Icelandic USA, hafa verið óviðunandi undanfarin ár. Breytt stjórn SH valdi í gær nýjan formann, Gunnlaug Sævar Gunnlaugsson og sagði hann að sér litist ekki á að viðræður um sameiningu við SÍF hæfust að nýju.

"Í Bandaríkjunum er rúmlega helmingur eiginfjár samstæðunnar bundinn, tæplega tveir og hálfur milljarður króna. Icelandic USA er því sú eining sem mestu ræður um það hvort afkoma SH-samstæðunnar er ásættanleg eða ekki. Ég verð því miður að viðurkenna að á undanförnum árum hefur rekstrarárangur okkar í Bandaríkjunum verið algjörlega óviðunandi. Mörg undanfarin ár hefur ávöxtun eiginfjár verið um og undir 5%. Til samanburðar má benda á að arðsemi eiginfjár samstæðunnar var síðustu þrjú árin á bilinu 13-19%," sagði Róbert Guðfinnsson, fráfarandi formaður stjórnar SH, í gær.

Nýkjörinn formaður stjórnar SH, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, sagði ekkert ákveðið um hvort vænta megi breytinga á rekstri í Icelandic USA í ljósi óviðunandi afkomu félagsins á síðasta ári.

Gunnlaugur sagði einnig að sameiningarviðræður við SÍF kæmu til greina af hans hálfu eins og hvað annað. Hann benti hinsvegar á að sameiningarviðræður við SÍF hafi tvisvar farið út um þúfur í fyrra og miðað við það lítist sér ekki vel á slíkar viðræður aftur. Hann segir breytt eignarhald á SH ekki skipta höfuðmáli þar.

"Nýir hluthafar hafa vonandi litið á SH sem vænlegan fjárfestingarkost. Fyrirtækið gengur vel og breytt eignarhald hefur engin áhrif á það hvort teknar verða upp viðræður um sameiningu eða samstarf við SÍF. Ég var sjálfur þátttakandi í sameiningarviðræðum við SÍF á síðasta ári. Ef nýjar viðræður eiga að byggjast á sömu forsendum og lagt var upp með þá, er ég ekki bjartsýnn."