Á trönunum er verk eftir Pétur Friðrik sem nefnist Haustlitir og í bakgrunni sést  í verkið Háagjá. Menntamálaráðherra opnar sýninguna.
Á trönunum er verk eftir Pétur Friðrik sem nefnist Haustlitir og í bakgrunni sést í verkið Háagjá. Menntamálaráðherra opnar sýninguna. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnar í dag yfirlitssýningu á verkum Péturs Friðriks listmálara, sem lést haustið 2002 þá 74 ára að aldri.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnar í dag yfirlitssýningu á verkum Péturs Friðriks listmálara, sem lést haustið 2002 þá 74 ára að aldri. Sýningin, sem nefnist Pétur Friðrik - æviverk listmálara, er haldin á heimili listamannsins til margra ára að Hegranesi 32 í Garðabæ, en húsið var selt fyrir skömmu. Að sögn Önnu, dóttur listamannsins, var það ávallt draumur föður hennar að halda sýningu í húsinu. "Hann dreymdi um að geta sýnt hér á vinnustofunni og á göngunum, en kom því aldrei í verk þá þrjá áratugi sem hann bjó hér. Þegar fjölskyldan nýlega seldi húsið fannst okkur því tilvalið að nota tækifærið, núna meðan það stendur tómt, og verða við óskum hans. Við sýnum því í öllum herbergjum, meira að segja inni á baði" segir Anna meðan hún gengur með blaðamanni um húsið.

Segja má að almenningi gefist með þessari sýningu einstakt tækifæri til að sjá svona mörg verka Péturs Friðriks saman komin á einn stað, því hann hélt síðast einkasýningu fyrir rúmum þrettán árum. Að sögn Önnu eru á annað hundrað myndir á sýningunni, bæði olíumálverk, teikningar, vatnslitamyndir og myndir unnar með akrýl- og pastellitum, en verkin spanna rúmlega hálfrar aldar feril Péturs Friðriks. Auk myndanna má m.a. sjá stóra mósaíkmynd sem Pétur Friðrik bjó til fyrir ofan arininn og sýnishorn af keramíkmunum, en Pétur Friðrik vann í ýmsum miðlum þó að málverkið hafi verið hans aðall.

Vakti ungur athygli

Pétur Friðrik Sigurðsson fæddist á Sunnuhvoli í Reykjavík 15. júlí 1928 og lést 19. september 2002. Hann ólst upp í Reykjavík millistríðsáranna og byrjaði kornungur að teikna og mála. Hann var aðeins 13 ára gamall þegar hann sýndi í fyrsta sinn myndir sínar í verslunarglugga Jóns Björnssonar í Bankastræti þar sem nú er Kaffi Sólon. Sýningin vakti mikla athygli vegfarenda og hópaðist fólk í kringum gluggann til þess að skoða verk hins efnilega Reykvíkings.

Fyrstu einkasýningu sína hélt Pétur Friðrik í Listamannaskálanum vorið 1946, aðeins 17 ára gamall, en þá þegar hafði hann lokið námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Í tilefni sýningarinnar tók Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, viðtal við piltinn undir fyrirsögninni "Ungur listmálari kemur til sögunnar." Þar segist ungi listamaðurinn ætla á Akademíið í Höfn og draumurinn sé að komast síðan til Frakklands. Pétur Friðrik hélt til Kaupmannahafnar þar sem hann útskrifaðist frá Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1949 og hélt þaðan til Parísar.

Pétur Friðrik helgaði sig málaralistinni allan sinn ævidag. Hann sótti yrkisefni sín í gnægtabrunn íslenskrar náttúru og tileinkaði sér nýjar stefnur og strauma á ferðum sínum erlendis. Alls urðu einkasýningar Péturs Friðriks tólf auk fjölda samsýninga bæði á Íslandi og erlendis, m.a. í París, New York, Berlín, Stuttgart, Lübeck, Kaupmannahöfn og Helsinki. Sýningar hans voru ávallt fjölsóttar af almenningi, enda þóttu það tíðindi í menningarlífi landsmanna þegar Pétur Friðrik hélt málverkasýningu.

Lagði mikið á sig til að fanga réttu stemninguna

Að sögn Önnu var íslensk náttúra ávallt meginþema í list föður hennar. "Í samtali við Morgunblaðið var eitt sinn haft eftir honum að litir og form íslenskrar náttúru væri okkar klassík," segir Anna tekur fram að Pétur Friðrik hafi málað flestar myndir sínar úti í náttúrunni á staðnum. "Hann fór í óteljandi ferðir um landið með fjölskyldunni til að mála, en uppáhaldsstaðir hans voru m.a. Þingvellir, Heiðmörk og Húsafell, auk þess sem hann var sérstaklega hrifinn af Gálgahrauni. Hann málaði reyndar líka mikið erlendis, enda fór hann ekki í ferðalag án þess að hafa með sér blokk og léreft."

Anna segir föður sinn hafa lagt mikið á sig til að ná réttu stemningunni og þurfti fyrir vikið oft að vinna hratt til að fanga ákveðin lita- og ljósabrigði. "Hann lagði áherslu á að nota náttúrulega birtu og málaði helst aldrei við rafmagnsljós. Eins vildi hann nær eingöngu sýna myndir sínar við náttúrulega birtu og þess vegna notum við nánast aðeins náttúrulega birtu hér á sýningunni."

Á sýningunni má bæði í vinnustofunni og í íbúðinni sjálfri sjá trönur, penslasafn og litakassa eins og Pétur Friðrik skildi við hlutina. Auk þess gefst sýningargestum kostur á að sjá tveggja klukkustunda langt myndband þar sem fylgst er með Pétri Friðriki við listsköpun sína. "Upptökurnar eru gerðar fyrir rúmum áratug á tveimur af uppáhaldsstöðum hans, annars vegar á Þingvöllum og hins vegar í Gálgahrauni. Þarna fæst því ómetanleg innsýn í vinnuferli hans."

Þess má geta að sýningin stendur til 21. mars nk. og er opin alla daga milli kl. 15 og 19. Í tilefni sýningarinnar mun Anna færa Ásdísi Höllu Bragadóttur, bæjarstjóra Garðabæjar, að gjöf málverk eftir Pétur Friðrik en hann fékk sérstaka heiðursviðurkenningu Garðabæjar árið 2002.