Eyjastúlkan Anna Yakova hefur leikið vel með ÍBV-liðinu að undanförnu og skorað grimmt, jafnt í deildinni sem í Evrópukeppninni.
Eyjastúlkan Anna Yakova hefur leikið vel með ÍBV-liðinu að undanförnu og skorað grimmt, jafnt í deildinni sem í Evrópukeppninni. — Morgunblaðið/Þorkell
KVENNALIÐ ÍBV í handknattleik mætir um helgina króatíska liðinu Brodosplit Vranjic í átta liða úrslitum áskorendakeppni Evrópu. Báðir leikir liðanna verða í Eyjum, sá fyrri í dag og sá síðari á morgun.

Króatíska liðið ætlaði að koma til landsins í gær og síðan til Eyja í dag, en eins og veðrið hefur verið síðustu daga er óvíst hvenær þær komast til Eyja, fari þær með Herjólfi koma þær til Eyja skömmu fyrir leikinn sem hefst kl. 16.30 í dag. "Það eru fastir leiktímar á þessum Evrópuleikjum þannig að leikurinn verður, með eða án þeirra. Vonandi verður liðið komið til Eyja þegar flautað verður til leiks," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari ÍBV, í gær.

Ferðaáætlunin raskaðist nokkuð

"Ætlunin hjá þeim var að koma hingað til lands á fimmtudaginn með leiguflugi frá Króatíu og þá áttu einhverjir stuðningsmenn að koma með liðinu. Einhverra hluta vegna klikkaði þetta hjá þeim og því kemur liðið með áætlun frá Króatíu til Þýskalands og þaðan til Lundúna eða Kaupmannahafnar og hingað heim. Þetta er mjög knappur tími sem þær hafa en það er alfarið á ábyrgð viðkomandi liðs að koma sér tímanlega á leikstað því eins og ég segi þá eru leiktímarnir njörvaðir niður," sagði Aðalsteinn.

Þjálfarinn sagðist í raun ekki vita mikið um liðið annað en að í því væru þrjár eða fjórar landsliðskonur sem léku á HM sem fram fór í Króatíu í desember. "Liðið leikur ákafan handknattleik, spilar mest 3-2-1 vörn og keyrir upp hraðann. Þetta er það sem við höfum lagt áherslu á í allan vetur og ég held að við séum komin ágætlega á veg með þetta þannig að við verðum tilbúin í þessa leiki. Það hentar okkur ekkert illa að leika hraðan handknattleik," sagði Aðalsteinn.

Þurfum stuðning til að komast áfram í Evrópukeppninni

Aðalsteinn sagðist mjög ánægður með að fá báða leikina í Eyjum. "Hlynur [Sigmarsson formaður deildarinnar] reddaði þessu með miklum myndarskap eins og hans er von og vísa. Nú verða heimamenn bara að fjölmenna og styðja við bakið á okkur, því við ætlum okkur að komast lengra í keppninni," sagði Aðalsteinn.

Hann sagði flesta leikmenn sína tilbúna í slaginn. "Elísa [Sigurðardóttir, fyrirliði] er reyndar meidd og verður ekki með og svo hefur Alla Gorkorian verið lítillega meidd og það er óvíst hvort hún getur verið með, en maður vonar það best," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari ÍBV.

Leikurinn í dag hefst kl. 16.30 og á morgun verður leikið klukkan tólf á hádegi.