Nýir í stjórn  Árni Tómasson og Hjörleifur Jakobsson tóku sæti í stjórn SH en Haraldur Sturlaugsson fór úr stjórn.
Nýir í stjórn Árni Tómasson og Hjörleifur Jakobsson tóku sæti í stjórn SH en Haraldur Sturlaugsson fór úr stjórn. — Morgunblaðið/Eggert
SÖLUMIÐSTÖÐ hraðfrystihúsanna hefur stofnað nýtt dótturfélag í Kína sem styrkja á starf SH samstæðunnar í landinu. Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Gunnars Svavarssonar, forstjóra SH, á aðalfundi félagsins í gær.

SÖLUMIÐSTÖÐ hraðfrystihúsanna hefur stofnað nýtt dótturfélag í Kína sem styrkja á starf SH samstæðunnar í landinu. Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Gunnars Svavarssonar, forstjóra SH, á aðalfundi félagsins í gær.

Nýja dótturfélagið, Icelandic China, er staðsett í borginni Qingdao og er að taka til starfa um þessar mundir. Fyrirtæki SH samstæðunnar hafa í allnokkur ár keypt afurðir frá Kína og kínversk fyrirtæki annast vinnslu í verktöku. Sagði Gunnar að með opnun skrifstofu á staðnum væri ætlunin að styrkja þetta starf en verkefni Icelandic China yrði að velja og semja við vinnslur, hafa eftirlit með þeim, sjá um gæðamál, innflutning á hráefni og útflutning á fullunnum vörum. Þá geti fyrirtækið nýst vel við sölu inn á kínverska markaðinn. Framkvæmdastjóri er Hans Bragi Bernharðsson, sem starfað hefur í sendiráði Íslands í Kína og mælir hann á tungu þarlendra.

Gunnar Svavarsson segir að kínversk fiskvinnsla hafi eflst mjög á síðustu árum og flestir stórir seljendur sjávarafurða í heiminum vinni fisk í Kína. "Við höfum sjálfir gert það í nokkur ár, sérstaklega dótturfélag okkar í Þýskalandi. Vara sem unnin er ódýrari en merkjavara Icelandic á markaðnum en vissir markaðshlutar taka hana og því verðum við að bjóða upp á hana. Þessi umsvif eru orðin það mikil að okkur þótti rétt að setja upp skrifstofu í Kína sem heldur utan um starfsemi okkar á svæðinu, hjá því varð ekki komist. Við teljum að í því felist jafnframt mikið sóknartækifæri."

Gunnar segir að Kína sé sömuleiðis framtíðarmarkaður. SH selji nú þegar afurðir til Kína en flest bendi til að markaðurinn muni styrkjast mjög á næstu árum og taka dýrari afurðir í meiri mæli. Skrifstofa í Kína muni hjálpa til við að skapa þau viðskiptatengsl sem nauðsynleg eru.

Erfiðleikar í Bretlandi og Bandaríkjunum

Í ræðu sinni á aðalfundi SH í gær fór Gunnar yfir rekstur einstakra fyrirtækja innan SH samstæðunnar á síðasta ári. Hjá honum kom m.a. fram að þó afkoma hefðbundinnar starfsemi Icelandic USA, dótturfélags SH í Bandaríkjunum, hafi ekki verið viðunandi á síðasta ári, hafi hún batnað frá fyrra ári og verið á áætlun á síðari hluta ársins. Hins vegar hafi taprekstur Ocean to Ocean, sem keypt var um mitt síðasta ár, dregið afkomuna niður. Sagði Gunnar að búist væri við frekari vexti hefðbundinnar starfsemi og bættri afkomu hennar og vonandi einnig hjá Ocean to Ocean.

Þá var afkoma Coldwater UK, dótturfélagsins í Bretlandi, einnig óviðunandi á síðasta ári, einkum vegna erfiðleika á markaði fyrir frosnar vörur. Sagði Gunnar að markaðurinn yxi lítið sem ekkert, vöruþróun væri takmörkuð, samkeppni kæmi helst fram í verði og framlegð væri sífellt undir pressu. Lægra fiskverð hafi ekki skilað sér til neytenda þar sem stórmarkaðirnir noti tækifærið og hækki álagningu sína.

Afkoma kældra vara hjá Coldwater UK gekk hinsvegar samkvæmt áætlun í fyrra að sögn Gunnars og var starfsemin rekin með hagnaði. Áætlanir gera svo ráð fyrir að afkoman fari verulega batnandi með hverjum mánuði og að veltan 2004 verði um þriðjungi meiri en í fyrra. Sagði Gunnar að á komandi árum yrði lögð áhersla á að auka sölu kældra vara en stefnt að því að draga úr framleiðslu á frystum vörum. Reiknaði hann því með verulega bættri afkomu Coldwater í ár.

Rekstur Icelandic UK gekk allvel í fyrra, þrátt fyrir lágt rækjuverð og aukið framboð á þorski og ýsu. Sala fyrirtækisins dróst lítið eitt saman í magn en öllu meira í verðmætum, vegna lækkunar á afurðaverði en hún var 35 milljónir sterlingspunda.

Góðar horfur víðast hvar

Sala Icelandic France, dótturfélag SH í Frakklandi, nam á síðasta ári um 45 milljónum evra sem er 28% aukning frá fyrra ári.

Kaup fyrirtækisins á Barogel mörkuðu að sögn Gunnars þáttaskil í rekstri SH í Frakklandi en Barogel er sérhæft í skelfiski og er rækja mikilvægasta tegundin. Vænti Gunnar þess að sameinað fyrirtæki eflist enn frekar á þessu ári og skili góðri afkomu.

Afkoma Icelandic Iberica á Spáni var góð á síðasta ári en Gunnar sagði að eftir mjög hraðan vöxt undanfarinna ára, allt fram til 2001, hefði sala fyrirtækisins staðnæmst við 80 milljóna evra markið. Svo virtist sem helst markaður fyrirtækisins væri mettaður og því fælust tækifærin í nýjum mörkuðum og nýjum afurðum. Síðustu tvö árin hefði þannig aukin áhersla verið lögð á Ítalíumarkað, ásamt Grikklandi. Framundan væri svo aukin sókn inn á smásölumarkaðinn á Spáni og víðar, fjölbreytni fisktegunda færi vaxandi og æ fleiri unnar vörur yrðu til við vöruþróun.

Árið 2003 var Icelandic Japan mjög hagfellt, salan var sú mesta í langan tíma, fór yfir 13 milljarða yena og afkoman var góð, þrátt fyrir erfiðar aðstæður í Japan. Sagði Gunnar að árangur af starfsemi fyrirtækisins og Marinus hafi farið fram úr björtustu vonum, en Marinus er innkaupa- og sölufyrirtæki á Íslandi sem starfar í nánum tengslum við starfsemina í Japan.

Afkoma Icelandic Germany í Þýskalandi var jákvæð í fyrra, verðmæti seldra afurða stóð í stað en selt magn jókst um 8. Sagði Gunnar að ekki væri gert ráð fyrir miklum breytingum á þessu ári hvað markaðsaðstæður varðar, Fyrirtækið hafi styrkt stöðu sína í smásölunni og hefur náð ágætri fótfestu þar. Söludeildin hafi verið efld verulega og stefnt er að aukinni sölu í ár.

Rekstur Icelandic Norway í Noregi var nálægt jafnvægi á síðasta ári en fyrirtækið tók miklum breytingum árið 2002 þegar breytt viðskiptaumhverfi í Rússlandi og taprekstur leiddu til mikils niðurskurðar á starfseminni og hagræðingar.

Þá gekk starfsemi SH þjónustu ágætlega á síðasta ári en fyrirtækið starfar að mestu leyti í þágu erlendra systurfyrirtækja og framleiðenda.