Mel Gibson leikstýrir Píslarsögu Krists.
Mel Gibson leikstýrir Píslarsögu Krists.
BISKUPSSTOFA, Prestafélag Íslands og Norðurljós efndu til forsýningar á mynd Mel Gibsons, Píslarsögu Krists, í fyrrakvöld. Guðfræðingum, prestum og guðfræðinemum var boðið að sjá myndina, en fjölmiðlafólki var einnig boðið.

BISKUPSSTOFA, Prestafélag Íslands og Norðurljós efndu til forsýningar á mynd Mel Gibsons, Píslarsögu Krists, í fyrrakvöld. Guðfræðingum, prestum og guðfræðinemum var boðið að sjá myndina, en fjölmiðlafólki var einnig boðið. Mynd Gibsons hefur vakið mikið umtal og hlotið misjafna dóma.

Clarence Glad guðfræðingur er sérfræðingur í sögu þeirra tíma er mynd Mel Gibsons gerist á. Hann segir að myndin hafi haft mjög mikil áhrif á sig. "Sem einstaklingur og persóna get ég sagt að myndin hafi verið mjög áhrifamikil. En sem sérfræðingur í sögu þessa tíma finnst mér senurnar sem fjölluðu um húðstrýkingarnar mjög ótrúverðugar sögulega séð. Ekki svo að skilja að húðstrýkingar hafi ekki verið til á þessum tíma, heldur fannst mér ótrúverðugt að þær hefðu verið svona langdregnar á undan einni tiltekinni krossfestingu. Vægi þessara atriða var of mikið. Húðstrýkingin var ákveðið form refsinga sem var mjög algengt á þessum tíma, en það er ekki eins ljóst af heimildum að þessi tvö form refsinga hafi verið tengd, að húðstrýkingin hafi verið undanfari krossfestingar. Við höfum mjög góðar heimildir um fjöldakrossfestingar Rómverja, en minni heimildir um húðstrýkingarnar og hvers eðlis þær voru. Þær voru auðvitað til staðar, en það er vandamál að tengja þetta saman eins og gert er í myndinni. Mel Gibson er að leika sér með heimildir úr guðspjöllunum, og þar er auðvitað sagt frá því að Jesús hafi verið húðstrýktur, en við vitum ekki hversu oft eða hve lengi, og það er það sem hann blæs svolítið upp í myndinni."

Clarence segir að í texta myndarinnar hafi verið gefið í skyn, í samtali milli Pílatusar og æðsta prestsins, þegar þeir voru að velta því fyrir sér hvers eðlis sekt Krists væri, að hann væri leiðtogi áhrifamikils flokks gyðinga, sem hugsanlega gæti leitt til uppreisnar eða byltingar meðal gyðinga. "Þær heimildir sem ég hef um þetta tímabil, 20-30 eftir Krist, gefa ekki tilefni til að álykta að skipulagðar uppreisnir gyðinga hafi verið þess eðlis að Rómverjar hefðu áhyggjur af þeim. Það var frekar þegar kom að gyðingauppreisninni 66-70. Mér fannst of mikið gert úr þessu atriði."

Spurður um notkun á arameísku og latínu í myndinni, segir Clarence að notkun á arameísku hafi ekki komið sér á óvart. "Hún er eðlileg, því flestir nýja-testamentisfræðingar telja að Jesús hafi talað arameísku. Hins vegar vissi ég ekki að Jesús hefði talað latínu. Það hefur verið umdeilt meðal fræðimanna, - en nú eru menn að hallast meira að því að áhrif grískunnar hafi verið æ meiri, og að hún hafi verið lingua franca [samskiptatungumál] þessa tíma. Áhrif grískunnar kunna því að hafa verið meiri, og jafnvel hugsanlegt að Jesús hafi talað við Pílatus á grísku. En vandamálið er auðvitað að við höfum engar heimildir um það. Við höfum þó ákveðnar upplýsingar um áhrif þessara tveggja tungumála á þetta svæði, en þær eru ekki alltaf öruggar. En mér finnst mjög ólíklegt að Jesús hafi talað latínu," segir Clarence Glad.

Sjúklegt ofbeldi

Í Bandaríkjunum hefur mynd Gibsons verið gagnrýnd sérstaklega fyrir að ala á gyðingahatri.

Hope Knútsson er formaður Siðmenntar, félags um borgaralegar athafnir, og er af gyðinglegum uppruna. Hún sá ekki myndina, og segist aðspurð ekki myndu láta Mel Gibson hagnast á hennar bíómiðakaupum.

"Ég hef fylgst með gerð þessarar myndar lengi og lesið það sem um hana hefur verið sagt. Ég get bara sagt það, að það er svo mikið gyðingahatur í veröldinni í dag, og það vex, ekki síst í Evrópu. Hvaða bíómynd sem gæti hugsanlega verið túlkuð sem lóð á þær vogarskálar, felur um leið í sér þann möguleika að ofbeldi gegn gyðingum aukist. Mér finnst það óábyrgt af manneskju í dag að svo mikið sem ýja að gyðingahatri. Það hefur tekið kristna menn aldir að stöðva þann ranga hugmyndavaðal að gyðingar hafi drepið Krist, og ég sé ekki að það hafi nokkurt gildi fyrir okkur í dag að endurvekja þær hugmyndir í heimi sem er fullur af hryðjuverkum og reiði sem beinist að Ísraelsmönnum. Þeir sem eru ekki gyðingar eiga það til að rugla saman gyðingum og Ísrael, og halda að allir gyðingar styðji stefnu stjórnvalda í Ísrael, en það er ekki rétt. Ég er búin að lesa svo mikið um sjúklegt ofbeldi í mynd Gibsons, að ég hef ekki nokkurn einasta áhuga á að leggja það á mig að sjá nokkuð svo hræðilegt. Sem guðleysingi, hliðholl frjálsri hugsun og mannúðarstefnu, spyr ég hvort þeir atburðir sem greint er frá í myndinni séu nokkuð meira en goðsagnir og þjóðsögur. Það eru til dæmis mikil líkindi með þessum sögum, og sögum af guðinum Mítra. Flestar goðsagnir frelsara segja frá meyfæðingu, lífláti og upprisu."

Þess má geta að eftir sýningu myndarinnar var efnt til fundar guðfræðinga, sem félagið Deus ex cinema skipulagði. Þar voru meðal annars flutt erindi sem nú hafa ratað á vef félagsins. Einn umsjónarmanna vefjarins, Árni Svanur Daníelsson guðfræðingur, segist vonast til þess að á vefnum geti skapast umræða um myndina og þær spurningar sem hún vekur. Slóðin er www.dec.hi.is.