Brandon Woudstra átti góðan leik fyrir Njarðvík gegn Haukum í gær og var m.a. stigahæstur.
Brandon Woudstra átti góðan leik fyrir Njarðvík gegn Haukum í gær og var m.a. stigahæstur. — Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson
NJARÐVÍKINGAR hófu úrslitakeppnina með látum og sigruðu Hauka auðveldlega 100:61 í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum úrvalsdeildarinnar. Skemmst er frá því að segja að eins og úrslitin gefa til kynna þá var hreinlega um einstefnu að ræða af hálfu Njarðvíkinga sem léku á heimavelli. Þeir fóru þó rólega af stað því þeir voru einungis átta stigum yfir í hálfleik, 40:32.

Leikurinn fór frekar hægt af stað og var mikið af mistökum á upphafskaflanum. Haukar spiluðu fína vörn og pressuðu vel á William Chavis til að hægja á sóknarleik Njarðvíkinga. Það heppnaðist ágætlega til að byrja með því það var mikið óðagot á heimamönnum á upphafskaflanum. Njarðvíkingar tóku þá leikhlé og fóru yfir sín mál. Í framhaldinu komu þeir með góðan kafla, spiluðu hörkuvörn og skoruðu 11 stig í röð og breyttu stöðunni úr 9:10 í 20:10 en staðan var þannig eftir fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta var það sama uppá teningnum, heimamenn voru alltaf skrefinu á undan, en Haukar voru frekar óheppnir því þeir fengu nokkur frí skot sem þeir nýttu illa. Í lok fyrri hálfleiks komu þeir þó með góðan kafla og skoruðu sex síðustu stigin og breyttu stöðunni úr 40:26 í 40:32 þannig var staðan í leikhléi. Njarðvíkingar byrjuðu miklu betur en Haukar í síðari hálfleik, skoruðu 14 stig gegn aðeins 2 á stuttum kafla og voru skyndilega komnir með 20 stiga forskot eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Það sem eftir var voru þeir ekkert á þeim buxunum að slaka á. Þessi kafli sló Hauka allveg útaf laginu og misstu þeir alla tilfinningu fyrir leiknum eftir þetta. Allan seinni hálfleikinn var þetta leikur kattarins að músinni og aðeins spurning um hversu stór sigur heimamanna yrði. Njarðvíkingar spiluðu góða vörn og héldu Haukum í 61 stigi en meðaltal þeirra í Intersportdeildini er 80 stig og munar um minna. Njarðvíkingar beittu líka pressuvörn eftir skorað víti og náðu þeir þannig að hægja mjög mikið á Haukum fyrir vikið, og urðu þeir m.a. fimm sinnum fyrir því í leiknum að skotklukka þeirra rann út án þess að þeir næðu skoti að körfu Njarðvíkinga.

"Við spiluðum frábæra vörn, en þó svo við vinnum með 39 stiga mun þá er staðan bara eitt núll í viðureigninni, við megum ekki gleyma því," sagði Friðrik Stefánsson, fyrirliði Njarðvíkur í leikslok. "Við verðum að gleyma þessum leik og einbeita okkur að verkefninu á sunnudag, þá kemur ekkert annað kemur til greina," sagði Friðrik og minnti á aðra viðureign liðanna sem fram fer á Ásvöllum í Hafnarfirði annað kvöld. Vinni Njarðvíkingar þann leik einnig tryggja þeir sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Davíð Páll Viðarsson skrifar