Helena Ólafsdóttir, landsliðsþjálfari í knattspyrnu kvenna, stjórnar hér landsliðsæfingu í Fífunni.
Helena Ólafsdóttir, landsliðsþjálfari í knattspyrnu kvenna, stjórnar hér landsliðsæfingu í Fífunni. — Morgunblaðið/Jim Smart
ÍSLENSKA kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Skotum í vináttuleik í dag og fer viðureignin fram innandyra, nánar tiltekið í Egilshöllinni í Grafarvogi kl. 14 - aðgangur er ókeypis. Þetta verður í fyrsta sinn sem A-landsleikur fer fram undir þaki hér á landi og þá er þetta fyrsti vináttulandsleikur A-landsliðs kvenna á íslenskri grund síðan 1986. Fyrsti landsleikur íslenska kvennalandsliðsins var gegn Skotum fyrir 23 árum þar sem Skotar fögnuðu sigri, 3:2.

Leikurinn við Skota er einn liður í undirbúningi liðsins fyrir lokabaráttuna í undankeppni EM en íslensku konurnar eiga þrjá leiki eftir í riðlinum. Þær mæta Ungverjum ytra í lok maí, fá Frakka í heimsókn í júní og taka síðan á móti Rússum í ágúst. Fyrir þessa leiki verður vináttuleikur við Hollendinga ytra hinn 15. maí. Ísland er í efsta sæti síns riðil með 10 stig eftir fimm leiki, Frakkar hafa 9 stig eftir þrjá leiki og Rússar eru í þriðja sæti með 7 stig að loknum þremur leikjum.

Morgunblaðið leit inn á æfingu landsliðsins í Fífunni og spurði Helenu Ólafsdóttur fyrst hvort ekki væri skrítið að undirbúa liðið undir leik á þessum árstíma?

"Jú, ég verð að segja það en það er frábært að fá þetta verkefni. Við tökum fegins hendi þeim leikjum sem við fáum upp í hendurnar. Tímasetningin er kannski ekkert frábær. Stelpurnar eru rétt komnar af stað en það breytir því ekki að leikurinn er góður liður í undirbúningi okkar fyrir stóru leikina í sumar." Helena segir að ástand leikmanna sé misgott. Hún segir að nokkrir leikmenn hafi átt í meiðslum en almennt sé ástandið í góðu lagi.

"Það vantar í liðið að þessu sinni Þóru Helgadóttur og Eddu Garðarsdóttur. Það er auðvitað slæmt að vera án þeirra enda tveir af lykilmönnum liðsins. En það fá bara aðrir leikmenn tækifæri og það er hið besta mál. Breiddin hjá okkur er alltaf að aukast og þessar stelpur eru alltaf að taka framförum. Það er ekki sjálfgefið hvernig á að velja landsliðið í dag. Það eru margar sem gera tilkall í liðið og það er skemmtilegt verkefni fyrir mig að velja úr stærri hópi leikmanna."

Hvað veist þú um styrk skoska liðsins?

"Skotarnir hafa spilað töluvert meira en við og ég held að þetta sé þeirra fimmti leikur á árinu. Þeir eru því í betri leikæfingu en við. Við erum ofar á styrkleikalistanum en mér skilst að þetta skoska lið sé nokkuð sterkt. Leikmenn eru líkamlega sterkir og við sjáum að þessar skosku stelpur sem hafa spilað með ÍBV hafa komið vel út. Þetta verður örugglega hörkuleikur og við þurfum tvímælalaust að taka á öllu okkar til að ná góðum úrslitum."

Tveir nýliðar eru í hópi Helenu; Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður úr Val, og Nína Ósk Kristinsdóttir, framherji úr Val, sem hefur farið á kostum með Val að undanförnu.

"Mér finnst mjög jákvætt að velja í landsliðið leikmenn sem standa sig. Guðbjörg er mjög efnilegur markvörður og Nína Ósk hefur slegið í gegn að undanförnu. Hún á ekki marga leiki með yngri landsliðunum og hún þarf sinn tíma. Það er hins vegar gott fyrir hana að fá að kynnast þessu umhverfi og enn betra ef hún fær að spila. Hún hefur staðið sig vel og mér finnst hún verðskulda landsliðssætið."

Guðmundur Hilmarsson skrifar