MILLJÓNIR Ítala hefja morguninn á því að skella í sig einum bolla af espressó-kaffi, hvort sem er heima eða á kaffihúsi á leið til vinnu. En á undanförnum árum hefur kaffið fengið á sig slæmt orð. Dr.

MILLJÓNIR Ítala hefja morguninn á því að skella í sig einum bolla af espressó-kaffi, hvort sem er heima eða á kaffihúsi á leið til vinnu. En á undanförnum árum hefur kaffið fengið á sig slæmt orð.

Dr. Chiara Trombetti, næringarfræðingur í Bergamo á Norður-Ítalíu, er þó á öðru máli og segir best að gleyma þessum hryllingssögum af kaffi. Mark Duff hjá BBC í Mílanó hefur eftir henni á vef BBC að vísindaleg rök séu fyrir því að njóta espressó-bollans á morgnana og hafa ekki áhyggjur af áhrifum hans á heilsuna. Hún segir að kaffi sé gott fyrir okkur og því sterkara því betra. Ítalskt espressó-kaffi er því mun betra en þunnt kaffi eða skyndikaffi.

Þrátt fyrir að dr. Trombetti finnist kaffi vont segir hún margvíslegar vísindalegar sannanir fyrir þessu. Í kaffi er tannín og andoxunarefni, sem eru góð fyrir hjarta og æðar, segir hún, og kaffi getur læknað höfuðverk, er gott fyrir lifrina og getur komið í veg fyrir skorpulifur og gallsteina. Þá segir hún koffínið geta minnkað líkur á asmaköstum og bætt blóðrás til hjartans.

Kaffi er samt ekki fyrir alla. Of mikil kaffidrykkja getur aukið taugaveiklun, valdið of hröðum hjartslætti og handskjálfta. Óléttum konum, hjartasjúklingum og fólki með magasár er ráðlagt að forðast kaffi. Og dr. Trambetti segir að enginn ætti að drekka meira en þrjá til fjóra bolla af kaffi á dag. Samt heldur hún því galvösk fram að mjólkurkaffi væri góð byrjun á löngum degi syfjaðra ítalskra skólabarna, næstu kynslóð kaffiunnenda. En ætli mörgum foreldrum hrylli ekki við þeirri tilhugsun?