Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson
SAMSON Global Holdings Ltd hefur keypt 6,45% hlut Tryggingamiðstöðvarinnar í Hf. Eimskipafélagi Íslands, og á eftir kaupin 16,84% hlut í félaginu.

SAMSON Global Holdings Ltd hefur keypt 6,45% hlut Tryggingamiðstöðvarinnar í Hf. Eimskipafélagi Íslands, og á eftir kaupin 16,84% hlut í félaginu. Eigendur Samson Global Holdings Ltd eru félög í eigu Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Magnúsar Þorsteinssonar. TM á enga hluti í Eimskipum eftir söluna.

Alls keypti Samson 286.166.406 hluti á genginu 10,25, sem þýðir að söluverð nam rétt rúmum 2,9 milljörðum króna. Hagnaður TM vegna sölunnar nemur um 1.350 milljónum króna.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar, sagði að salan væri í samræmi við það sem fram kom í ræðu hans á aðalfundi félagsins sl. fimmtudag að í kjölfarið á nýlegum kaupum TM á 12% hlut í Straumi fjárfestingarbanka myndi félagið minnka aðra hlutabréfaeign sína á móti. "Við töldum okkur vera að fá gott verð fyrir bréfin, við innleystum góðan hagnað," sagði Gunnlaugur.

Selja eða halda

Talið er að ástæða kaupa Samsonar á Eimskipshlutnum sé sú að félagið sjái möguleika í félaginu til framtíðar eftir breytingar sem fyrir liggur að gera eigi á því, en á aðalfundi nk. föstudag verður borin upp sú tillaga að nafni félagsins verði breytt í Burðarás hf. Burðarás mun eiga skipafélagið Hf. Eimskipafélag Íslands.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru tveir möguleikar ræddir innan félagsins hvað varðar skipan Eimskipa í næstu framtíð. Sumir vilja að Burðarás hf. haldi Hf. Eimskipafélagi Íslands áfram í sinni eigu enn um sinn og efli það í útrás og geri það þar með verðmætara fyrir sölu eftir tvö til þrjú ár. Aðrir vilja selja félagið strax og nota fjármunina sem liggja í félaginu, 16-20 milljarða, í aðrar fjárfestingar Burðaráss.