Meðal gesta voru Geir Haarde fjármálaráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sem opnaði skrifstofuna formlega.
Meðal gesta voru Geir Haarde fjármálaráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sem opnaði skrifstofuna formlega. — Morgunblaðið/Golli
BARNAHJÁLP Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) tók til starfa hér á landi í gær þegar Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra opnaði skrifstofu Miðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna.

BARNAHJÁLP Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) tók til starfa hér á landi í gær þegar Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra opnaði skrifstofu Miðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna. Auk UNICEF munu Félag Sameinuðu þjóðanna og UNIFEM (styrktarsjóður SÞ fyrir konur í þróunarlöndunum) heyra undir Miðstöðina en bæði félögin hafa starfað hér á landi um árabil.

Að sögn Stefáns Inga Stefánssonar, framkvæmdastjóra Barnahjálpar SÞ á Íslandi, eru vonir bundnar við að starfsemi Sameinuðu þjóðanna hér á landi verði sýnilegri með opnun Miðstöðvarinnar. "Við erum bjartsýn á að félögin geti stutt hvort annað og hjálpað hvort öðru í innra og ytra starfi. Sömuleiðis er það von okkar að hægt verði að nota þennan stað sem upplýsingamiðstöð um þá starfsemi sem tengist Sameinuðu þjóðunum almennt og fólk geti leitað hingað til að fá upplýsingar, hvort heldur sem er um þessi þrjú félög eða Sameinuðu þjóðirnar í heild."

Hann segir starfið framundan mjög spennandi. "Undanfarin misseri hefur verið mikil umræða um þróunarmál og hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi. Við erum mjög spennt og bjartsýn á að þessi miðstöð komi til með að spila þar ríkulegt hlutverk. Tvö félaganna eru mjög rótgróin hér á landi og þetta nýja félag er fulltrúi stærstu hjálparstofnunar í heimi fyrir börn þannig að þetta eru öflugir aðilar sem koma hér saman."

Skrifstofa Miðstöðvarinnar er í Skaftahlíð 24 og verður opin á skrifstofutíma.