MAÐUR um fertugt hefur játað að hafa selt einhverjum af mönnunum þremur sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna láts Litháans Vaidas Jucevisius sterkt morfín, en ekki fæst staðfest hver mannanna keypti morfínið.

MAÐUR um fertugt hefur játað að hafa selt einhverjum af mönnunum þremur sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna láts Litháans Vaidas Jucevisius sterkt morfín, en ekki fæst staðfest hver mannanna keypti morfínið. Maðurinn var handtekinn á fimmtudag en hefur nú verið látinn laus.

Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir manninn hafa komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnabrota. Hann vill ekki gefa upp hversu mikið af morfíni maðurinn segist hafa selt, enda sé það óstaðfest. Hann segir þó að morfínið hafi verið af gerðinni Contalgin, sem er mjög sterkt verkjalyf sem er aðallega notað af langt leiddum krabbameinssjúklingum, og er lyfseðilsskylt.

Morgunblaðið hefur öruggar heimildir fyrir því að Grétar Sigurðsson hafi játað aðild sína að málinu fyrstur mannanna, og Tómas Malakauskas hafi fylgt í kjölfarið og játað nokkru síðar. Jónas Ingi Ragnarsson neitar að hafa átt aðild að málinu.

Þarmastífla meðal aukaverkana

Arnar Jensson segir ljóst að Jucevicius hafi verið gefið efnið Contalgin síðustu einn til tvo sólarhringana áður en hann lést, og bar maðurinn sem var handtekinn í gær að hann hefði selt efnið annaðhvort 4. eða 5. febrúar.

Ein helsta aukaverkunin af morfín-lyfinu Contalgin er hægðatregða og þarmastífla, og segir Arnar að verið sé að rannsaka þetta mjög gaumgæfilega með það í huga að meta ábyrgð mannanna þriggja í dauða Jucevicius ef þeir gáfu honum lyfið, en eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá er talið að Jucevicius hafi látist vegna þess að þarmar hans stífluðust af völdum fíkniefna sem hann bar innvortis.

Rannsóknin beinist nú æ meira að fíkniefnaþætti málsins, hver fjármagnaði innkaupin á efninu sem Jucevicius bar innvortis, og hvort sömu aðilar hafi áður staðið í slíkum innflutningi, hvaðan þeir hafi fengið efnin og hvernig hafi átt að dreifa þeim. Arnar segir að rannsókn á því sem snýr að láti Jucevicius sé langt komin.

Áfram er unnið að rannsókn á málinu, en hún er orðin mjög umfangsmikil.