Presturinn kvaddur: Sigurður Steingrímsson formaður sóknarnefndar Barðskirkju afhenti séra Ragnheiði Jónsdóttur blóm í kaffisamsæti.
Presturinn kvaddur: Sigurður Steingrímsson formaður sóknarnefndar Barðskirkju afhenti séra Ragnheiði Jónsdóttur blóm í kaffisamsæti.
Fljót | ,,Mér finnst þetta hafa verið farsæll og góður tími hérna fyrir norðan. Mér hefur líkað vel að búa og starfa í Hofsós- og Hólaprestakalli.

Fljót | ,,Mér finnst þetta hafa verið farsæll og góður tími hérna fyrir norðan. Mér hefur líkað vel að búa og starfa í Hofsós- og Hólaprestakalli. Ég kom inn í prestakall þar sem mikið var og er af góðu samstarfsfólki sem ber umhyggju fyrir kirkjunni og starfi hennar og svo hef ég verið svo lánsöm að hafa góða organista og kórfólk mér við hlið," sagði séra Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur í Hofsós- og Hólaprestakalli, þegar fréttaritari hitti hana í vikunni. Ragnheiður mun taka formlega við prestsembætti í Mosfellsprestakalli nk. sunnudag.

"Ég var skipuð sóknarprestur í Hofsósprestakalli 15. október 1998

Þjónustu minnar hefur verið ákaflega vel tekið og fólk verið opið og hvetjandi til samvinnu og í garð kirkjunnar. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna barnastarfið sem ég hef verið með í grunn- og leikskólum í prestakallinu."

Ragnheiður hefur undanfarið verið að kveðja söfnuðina sem hún hefur þjónað í Skagafirði. Fyrstu tvö árin tilheyrðu fjórar sóknarkirkjur prestakallinu. Auk Hofsóskirkju voru það kirkjurnar á Hofi á Höfðaströnd, Felli í Sléttuhlíð og Barði í Fljótum. Auk þess eru bænhúsið í Gröf og Knappstaðakirkja, en í þessum tveim húsum hefur verið ein guðsþjónusta á ári. Árið 2001 var svo tekin ákvörðun um að kirkjurnar í Viðvík í Viðvíkursveit og Hóladómkirkja í Hjaltadal skyldu færast undir Hofsósprestakall og eftir það nefnt Hofsós- og Hólaprestakall. Þó svo að Ragnheiður hafi kvatt söfnuðina á hún nokkur embættisverk eftir fyrir norðan, m.a. mun hún koma og ferma börnin í vor.

Ragnheiður segir að henni sé mjög minnisstætt þegar hún tók við embættinu á Hofsósi í norðan stórhríð og vonskuveðri og snjóþungur og rysjóttur vetur fylgdi í kjölfarið. Hún var borgarbarn, hafði búið í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Eflaust hafi einhverjir hugsað, skyldi hún hafa veturinn af?

Hún náði hins vegar að aðlaga sig gerbreyttum aðstæðum og hefur nú búið á Hofsósi í fimm vetur. Eitt ár var hún fjarverandi, en þá stundaði hún nám í sálgæslufræðum í Bandaríkjunum.

,,Mér er efst í huga á þessum tímamótum mikið þakklæti til sóknarbarna minna og raunar allra í Skagafirði fyrir góða og uppbyggilega samvinnu og samstarf á þessum árum. Hér er mannlíf gott og umhverfi fagurt allan ársins hring sem ég á eftir að sakna og bið Guð að blessa. Ég vil einnig nefna að hér hefur verið ákaflega gott og öflugt samfélag meðal prestanna sem ég tel afar dýrmætt. Einnig hef ég átt gott samstarf við vígslubiskupana á Hólum þennan tíma," sagði Ragnheiður Jónsdóttir að lokum.