Hljómleikar í Hvammstangakirkju: Á myndinni eru, í efri röð frá vinstri, Birkir Þór Þorbjörnsson, Sverrir Jónsson, Ásgeir Trausti Einarsson og Kristinn Arnar Benjamínsson. Neðri röð f.v., kennarinn, Jóhann Benediktsson, Sigrún Soffía Sævarsdóttir og Magnús
Hljómleikar í Hvammstangakirkju: Á myndinni eru, í efri röð frá vinstri, Birkir Þór Þorbjörnsson, Sverrir Jónsson, Ásgeir Trausti Einarsson og Kristinn Arnar Benjamínsson. Neðri röð f.v., kennarinn, Jóhann Benediktsson, Sigrún Soffía Sævarsdóttir og Magnús — Morgunblaðið/Karl Sigurgeirsson
Hvammstangi | Tónlistarskóli V-Hún. hélt upp á Tónlistardaginn 2004, með fernum tónleikum hinn 1. mars á fjórum stöðum á Hvammstanga; í tónlistarskólanum, sjúkrahúsinu, íbúðum aldraðra og Hvammstangakirkju.

Hvammstangi | Tónlistarskóli V-Hún. hélt upp á Tónlistardaginn 2004, með fernum tónleikum hinn 1. mars á fjórum stöðum á Hvammstanga; í tónlistarskólanum, sjúkrahúsinu, íbúðum aldraðra og Hvammstangakirkju. Voru tónleikarnir vel sóttir og þóttu góð tilbreyting í mannlíf héraðsins.

Skólastjórinn, Elínborg Sigurgeirsdóttir, sagði í viðtali við Morgunblaðið frá starfseminni.

Tónlistarskóli V-Hún. hefur starfað í 35 ár. Nemendur eru 125 á vorönn 2004, þar af eru 11 í forskóla og er þetta hæsta hlutfall nemenda frá upphafi skólans. Kennt er á strengjahljóðfæri, blásturshljóðfæri, gítara, rafhljóðfæri, slagverk, harmonikku og söng. Bókleg fög eru tónfræði, tónlistarsaga og tónheyrn. Starfsmenn eru átta auk skólastjóra.

Nemendur koma víða fram og má þar nefna; Músíktilraunir, Söngvarakeppni Samfés, Söngvarakeppni Grunnskólans, kirkjuhljómsveitir og viðburði tengda kirkjustarfi héraðsins, auk reglulegra tónleika í Tónlistarskólanum.

Í fjárhagsáætlunum Tónlistarskólans er alltaf gert ráð fyrir ákveðinni upphæð til endurnýjunar og viðhalds hljóðfæra. Nú væri æskilegt að skólinn gæti eignast flygil. Skólinn á marga velunnara og má nefna að í árslok 2003 gaf Sparsjóður Húnaþings og Stranda skólanum 100.000 krónur.