Verslun með konur og stúlkubörn, eða það sem við í daglegu tali köllum mansal, er eitthvað sem margir tengja við þrælahald fyrri alda, en er engu að síður blákaldur veruleiki í Evrópu og annars staðar í heiminum árið 2004.

Verslun með konur og stúlkubörn, eða það sem við í daglegu tali köllum mansal, er eitthvað sem margir tengja við þrælahald fyrri alda, en er engu að síður blákaldur veruleiki í Evrópu og annars staðar í heiminum árið 2004. Mansal er sú alþjóðlega glæpastarfsemi sem fer mest vaxandi í heiminum í dag að mati alþjóðastofnana, sem við vandann glíma.

Ríki heims eru í vaxandi mæli að vakna til vitundar um hversu umfangsmikil þessi vel skipulagða glæpastarfsemi er orðin. Í Evrópu hefur mansal vaxið hröðum skrefum eftir fall járntjaldsins og í kjölfar upplausnar vegna átakanna á Balkanskaga. Skipulögð glæpasamtök hafa nýtt sér þennan jarðveg auk fátæktar og bágrar stöðu kvenna í viðkomandi ríkjum.

Fjórar milljónir manna seldar árlega

Sem dæmi um umfang vandans má nefna að allt að fjórar milljónir manna, einkum konur og börn, eru seldar mansali á hverju ári í heiminum að mati alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka. Erfitt er að nefna nákvæmar tölur um mansal en leynd hvílir yfir þessari glæpastarfsemi sem jafnframt tengist annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi eins og ólöglegri vopnasölu og fjármögnun hryðjuverka.

Einn aðalvandinn er að fyrir harðsvíraða glæpamenn er eftir miklu að slægjast í þessum efnum. Áætlað er að hagnaður af mansali nemi fimm til sjö milljörðum bandaríkjadala ár hvert. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vín áætlar að á hverju ári verði á annað hundruð þúsund einstaklingar í Suðaustur-Evrópu fórnarlömb mansals. Þetta eru óhugnanlegar tölur sem segja sína sögu um umfang vandans, en að baki þeim býr mannlegur harmleikur og þjáningar.

Fórnarlömbin aðallega konur og litlar telpur

Fórnarlömb mansals eru aðallega konur og litlar telpur frá fátækum ríkjum sem þvingaðar eru til kynlífsþrælkunar. Glæpasamtök nýta sér fátækt og lítil atvinnutækifæri kvenna og oft eru fórnarlömbin blekkt með auglýsingum um vinnu erlendis sem síðan reynist þegar á staðinn er komið vera þvingað vændi eða nauðungarvinna á vegum skipulagðra glæpasamtaka. Þekkt kvikmynd sænska kvikmyndaleikstjórans Lukas Moodyson ,,Lilya 4-ever" lýsir tilfelli mansals til Svíþjóðar á raunsæjan og átakanlegan hátt, þar sem fórnarlambið er neytt til að stunda vændi og á engrar undankomu auðið. Enginn er samur eftir að hafa séð þá kvikmynd.

Hvað er til ráða?

Alþjóðasamfélagið hefur á undanförnum árum brugðist við vandamálinu með því að efla aðgerðir sínar gegn mansali og má þar sérstaklega nefna samning Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi og viðauka hans um verslun með manneskjur, einkum konur og börn. Skilvirk alþjóðleg samvinna og upplýsingamiðlun á milli héraða, ríkja, alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka, er nauðsynleg til að hægt sé að vinna bug á mansali. Slík samvinna miðar einnig að því að mansal sé gert refsivert í refsilöggjöf ríkja og að glæpamenn sem slíka iðju stunda séu leiddir fyrir lög og rétt.

Einnig verður að leggja áherslu á að styrkja lagalegu stöðu fórnarlamba mansals og vitnavernd. Nefna má að ýmsir þjóðarleiðtogar lögðu áherslu á hina alþjóðlegu baráttu gegn mansali í ávörpum sínum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á síðastliðnu ári, t.d. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og norrænir starfsbræður hans. George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði á allsherjarþinginu að ,,sérstök illska væri fólgin í misnotkun þeirra sem minnst mættu sín."

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á mannréttindi kvenna og barna á alþjóðlegum vettvangi. Hvað varðar baráttuna gegn mansali ber þar sérstaklega að nefna sameiginlegt átak jafnréttis- og dómsmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna til að sporna við mansali en í því felst markviss kynning á vandamálinu meðal almennings í þessum löndum. Einnig hefur Ísland beitt sér á virkan hátt í baráttunni gegn mansali á vettvangi ÖSE, en innan þeirrar stofnunar fer fram margþætt starf á sviði átakavarna, öryggismála auk eflingar lýðræðis og mannréttinda í aðildarríkjunum, sem eru fimmtíu og fimm talsins.

Ráðstefna í næstu viku

Það er sérstakt ánægjuefni að geta greint frá því að utanríkisráðuneytið, í samvinnu við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, mun hinn 19. mars nk. standa fyrir ráðstefnu í Norræna húsinu þar sem fjallað verður um baráttuna gegn mansali í alþjóðlegu samhengi. Þar verður lögð sérstök áhersla á aðgerðir ÖSE gegn mansali og kynlífsþrælkun kvenna í aðildarríkjunum en stofnunin hefur eflt aðgerðir sínar gegn vandamálinu að undanförnu. Einnig verður gerð grein fyrir árangri af starfsemi sérstaks alþjóðlegs ráðgjafar- og vinnuhóps gegn mansali sem starfar á vegum Stöðugleikasáttmálans fyrir Suðaustur-Evrópu (Stability Pact) og vinnur náið með viðkomandi ríkjum.

Sérstakir erlendir gestir ráðstefnunnar verða Stephan Minikes, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá ÖSE, og dr. Helga Konrad, formaður ofangreinds vinnuhóps, og munu þau flytja þar ávörp. Á ráðstefnunni verður ennfremur fjallað um hvernig Ísland geti lagt sitt af mörkum til að stemma stigu við þessari glæpastarfsemi.

Meginmarkmiðið með ráðstefnunni er að hvetja til aukinnar umræðu og efla vitund almennings um mansal, auk þess að kynna alþjóðlegar aðgerðir gagnvart vandamálinu. Í mansali felst alvarlegt brot á grundvallarmannréttindum einstaklinga. Að konur og stúlkubörn séu seld mansali til kynlífsþrælkunar eða vændis er eitthvað sem ekki á að eiga sér stað, hvergi.

Það er því skylda okkar Íslendinga að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn mansali og aðstoða samfélag þjóðanna til að uppræta þessa ömurlegu glæpastarfsemi.

Eftir Björn Inga Hrafnsson

Höfundur er aðstoðarmaður utanríkisráðherra.