Bankar bjóða og bjóða, en hver fær hvað? SAMKVÆMT auglýsingum sem bankar setja í blöð og tímarit, senda heim og fleira, bjóða þeir alls kyns þjónustu.

Bankar bjóða og bjóða, en hver fær hvað?

SAMKVÆMT auglýsingum sem bankar setja í blöð og tímarit, senda heim og fleira, bjóða þeir alls kyns þjónustu. Til dæmis lagfæringar á fjárhagnum, veðlán á eignum og fleira þess háttar, en það er nú ekki allt sem sýnist. Ég fór í KB banka og Íslandsbanka um daginn og var að sækja um lagfæringu á mínum fjárhag með veðlánum og fleira þess háttar og sótti um heildarviðskipti við þessa banka þar sem ég er með fyrirtæki og vinn einnig sem sjómaður. Ég byrjaði í KB banka. Þar sótti ég um allan þennan pakka. Ég tek það fram að fjárhagurinn hefur farið hallandi undanfarið en ekki svo að honum megi ekki bjarga með lántöku og fleiru þar sem ég hef nú verið í skilum með allt mitt. Eftir að hafa útskýrt mína hagi og hvernig fasteignalán ég þurfi, kemur upp úr krafsinu að þeim finnst lánið sem þeir bjóða til of langs tíma og að þær tvær fasteignir sem ég hef laust veð í nægi ekki til. Ég fór þá í Íslandsbanka með sama dæmið og þurfti að punga út 29.880 kr. til að láta tvo fasteignasala meta eignirnar og ekki nóg með það, því það stóð í báðum bönkunum að eignirnar væru ekki á höfuðborgarsvæðinu, heldur er önnur í Grindavík og hin á Akureyri. Þannig að veðsetningarhlutfallið lækkaði, en í auglýsingum Íslandsbanka stendur hvar sem þú ert og ég geri ráð fyrir því að KB banki sé ekkert að nefna neitt annað. Mér finnst þetta heldur gróflega farið með fólk, þar sem auglýsingarnar eru bara lygi og maður þarf að kosta stórfé til að sækja um viðskipti til þeirra.

Óskar Jakob

Þórisson.

Mysa er týnd

HÚN Mysa litla fór að heiman 28. febr. sl. og hefur ekki sést síðan þrátt fyrir mikla leit í Hlíðahverfinu.

Mysa er lítil, loðin og ljúf, svolítill kjáni, og mjög sárt saknað! Hún var með merkispjald sem gæti hafa dottið af henni.

Þeir sem hafa séð Mysu, vinsaml. hafið samb. við Pálínu s: 867-2491 eða Svavar s: 864-2276. Gott væri ef þeir sem eiga bílskúra og geymslur gætu litið þar inn til að athuga hvort hún hafi lokast þar inni í vonda veðrinu.