Borgar Þór Einarsson segir í grein á vefritinu Deiglunni að nýlegir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði gefi ástæðu til bjartsýni í efnahagsmálum hér á landi og að óhætt sé að segja að enn á ný hafi aðilar vinnumarkaðarins sýnt bæði ábyrgð og skynsemi...

Borgar Þór Einarsson segir í grein á vefritinu Deiglunni að nýlegir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði gefi ástæðu til bjartsýni í efnahagsmálum hér á landi og að óhætt sé að segja að enn á ný hafi aðilar vinnumarkaðarins sýnt bæði ábyrgð og skynsemi við gerð samninga.

Það er því ljóst að samningurinn mun færa bæði þann ávinning sem felst í hreinum launahækkunum sem og þann mikla ávinning - hinn raunverulega kaupmátt - sem gott og stöðugt efnahagsástand hefur í för með sér," segir Borgar Þór. "Gríðarleg kaupmáttaraukning launafólks á síðustu árum hefur staðfest kosti þess að hafa kjarasamninga á skynsamlegum nótum, þannig að þeir ógni ekki stöðugleika efnahagslífsins.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins í dag kemur fram að óvíða er afkoma hins opinbera betri en hér á landi þegar skoðaðar eru tölur frá OECD-ríkjunum og allt stefnir í að afkoma ríkissjóðs batni enn á allra næstu árum. Það eru því allar forsendur fyrir hendi, nú þegar kjarasamningar liggja fyrir, að hefjast handa við að lækka skatta á almenning. Vissulega væri hægt að nota góða afkomu ríkissjóðs til að halda áfram að greiða niður skuldir og til ýmissa verka sem menn kunna að telja brýn. En fyrir liggur pólitísk ákvörðun um að láta skattgreiðendur njóta þess að nú árar vel.

Bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa lýst því yfir að skattalækkanir myndu verða lögfestar þegar kjarasamningar lægju fyrir og þeir væru innan skynsamlegra marka. Hins vegar kvað við nýjan tón hjá utanríkisráðherra, formanni Framsóknarflokksins, í kvöldfréttum Sjónvarpsins nú í vikunni þar sem hann sagði að svo gæti farið að lögfesting skattalækkana yrði látin bíða til hausts.

Ef marka má þessa yfirlýsingu verðandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins er ljóst að flokkurinn er að verða dragbítur á flest þau mál sem til framfara horfa í stjórnarsamstarfinu. Það getur ekki verið geðslegt fyrir sjálfstæðismenn til þess að hugsa, að þjóna sem burðarvirki í ríkisstjórn undir forsæti Framsóknarflokksins við slíkar kringumstæður," segir Borgar Þór á Deiglunni.