Sverrir Hermannsson
Sverrir Hermannsson
Spurning: Hvað gengur aðalritara til að auðmýkja íslenzka þjóð með svo fáránlegum hætti?

ÞEIR, sem til þekkja, eru sammála um að lausn handritamálsins á sínum tíma sé einstök í samskiptum þjóða. Myndi flest fara betur í sambúð þjóða heims ef hún gæti verið fyrirmynd.

Íslendingum var vorkunn að þeir sóttu heimflutning handritanna af svo mikilli ákefð og hörku sem raun bar vitni. Þetta eru helgustu dýrgripir þjóðarinnar, óumdeilanlega. Með afhendingu þeirra þurrkuðu Danir út í augum Íslendinga allar misgerðir liðinna alda og gáfu um leið fordæmi höfðingsskapar og vináttu, sem ekki verður við annað jafnað.

En nú eru uppi nýir ráðamenn, sem ekki þekktu þann fögnuð og þakklæti, sem gagntók íslenzka þjóð, þegar hún endurheimti dýrgripi sína. Verra er þó að þá virðist skorta sjálfsvirðingu. Þeim er að vísu kunnugt um að Íslendingar undirrituðu eftirfarandi ákvæði við samningsgerðina við Dani 1965:

,,Samningsaðiljar eru sammála um það, að með þeirri skipan, sem hér er gerð, sé viðurkennt, að fullkomlega og endanlega sé útkljáð um allar óskir af íslenzkri hálfu varðandi afhendingu hvers konar íslenzkra þjóðlegra minja sem í Danmörku eru. Samkvæmt því skal af hálfu íslenzka ríkisins eigi unnt í framtíðinni að hefja né styðja kröfur eða óskir um afhendingu slíkra minja úr dönskum skjalasöfnum eða söfnum, opinberum jafnt sem í einkaeign."

Þegar skilanefnd handritanna náði ekki sameiginlegri niðurstöðu 1985, en samkomulag náðist ári síðar að frumkvæði Bertel Haarder, menntamálaráðherra Dana, var þessi grein samningsins frá 1965 ítrekuð sérstaklega. Í lokasamningi, sem undirritaður var 1. ágúst 1986 á Þingvöllum, sagði m.a.: ,,að aðilar viðurkenndu innihald greinar I (í fyrri samningi) sem fjallaði um fullkomna og endanlega afgreiðslu á öllum óskum af Íslands hálfu vegna allra íslenzkra muna eða minja sem finnast kynnu í Danmörku."

Þrátt fyrir þessi ótvíræðu og ítrekuðu ákvæði í milliríkjasamningi og forsögu handritamálsins hafði menntamálaráðherrann íslenzki geðslag til þess á liðnu ári að hefja ásókn á hendur hinum danska um íslenzk verðmæti í Danmörku. Um slíka vesalmennsku eiga Danir orðfæri sem segir: Manden har ikke skam i livet.

En aðalritari ráðstjórnar hefir á næstliðnum dögum skitið rækilega í íslenzka nyt. Honum var greinilega ekki nóg að niðurlægja forsetaembættið til hátíðabrigða á eitt hundrað ára afmæli heimastjórnar. Á framhaldshátíð í Kaupmannahöfn, þar sem minningin um frelsishetju Íslendinga, Jón Sigurðsson, átti að sitja í fyrirrúmi, skyggði á allt annað betlistafur forsætisráðherra Íslands, sem hann otaði að hinum danska, þar sem hinn íslenska munaði í fornminjar í Danmörku, en tók samt fram, að hann vissi að Íslendingar ættu enga kröfu á þeim. Auðvitað hlaut hinn danski að taka frekjunni og framhleypninni með kurteisi eins og á stóð. Samt tókst honum að gefa beiningamanninum utanundir skv. Morgunblaðinu 7. þessa mánaðar: ,,Fyrst þurfum við að athuga hvert vandamálið er, ef eitthvert vandamál er til staðar yfirleitt."!!!

Spurning: Hvað gengur aðalritara til að auðmýkja íslenzka þjóð með svo fáránlegum hætti? Er hann kannski orðinn of vanur því að fá öllu framgengt sem valdhrokinn býður?

Og Morgunblaðið tekur með mikilli stimamýkt á framferðinu. Undirrituðum er það hin mesta raun að horfa á blaðið sitt liggja hundflatt fyrir ráðstjórninnni í flestum málum sem máli skipta; að ekki sé minnzt á hernaðarumsvif Halldórs og Davíðs í Írak.

Sverrir Hermannsson skrifar um íslensk verðmæti í Danmörku

Höfundur er fv. menntamála- ráðherra.