Jóna Rúna Kvaran
Jóna Rúna Kvaran
Ég hef ekki viljað vera dulræn, ég vildi bara verða meiriháttar poppstjarna.

EINS og flestir vita þá var ég gift þjóðkunnum leikara, Ævari R. Kvaran, sem var margflókinn listamaður, rithöfundur og mannúðarsinni. Vorum við gift á þriðja áratug og átti ég sökum þess oft leið inn í sali Þjóðleikhússins og naut oftast vel þeirra sýninga sem ég sá. Síðasta ferð mín var fyrir atbeina Valdimars Flygenring stórleikara, til að sjá leikritið ,,Þetta er allt að koma" núna fyrir skömmu. Ég verð að þakka Valda Fly fyrir að hafa drifið mig nánast farlama eftir vinnuslys, eftir margra ára hlé, á sýningu.

Ég er einlægur aðdáandi H.C. Andersen, sér í lagi þegar litið er til baka. Hann á enn stórt rými í minningaflóru hugans og skipar ákveðið mannúðarhlutverk í mínu hjarta. Það var eins og að koma heim í vissum skilningi að sjá þessa sýningu sem að endurspeglar að mér finnst meira en nokkuð annað sem ég hef kynnst í hugverki, nýju föt keisarans, en á allt annan hátt en H.C. Andersen setti fram.

Meginþema þessa leikrits er þrá einstaklingsins eftir því lífshlutverki að verða eitthvað í augum samborgara sinna án þess í raun að gera sér grein fyrir því að viðkomandi hefur bara alls ekki þetta ,,eitthvað" til að bera sem gæti fengið sól hans til þess að skína og aðra til að brenna og brúnkast undan henni. Auðvitað á þessi vitund um veikleika annarra ekki að verða til þess að maður hlæi sig máttlausan, en sannleikurinn er sá að sjálf hef ég átt mér draum í á þriðja áratug sem enginn hefur trú á að geti fengið líf á réttan hátt, nema ég sjálf, og það er að leika á lítil slagverkshljóðfæri í hljómsveit, helst í popphljómsveit. Samferðafólk mitt hefur hvatt mig eindregið til að leggja þessa þrá og þennan draum til hliðar við alla aðra getu og hæfni sem ég er sögð búa yfir að þeirra mati. Það sem gerðist þetta kvöld, og fékk mig til að hlæja svona mikið kannski, var að í Ragnheiði Birnu sá Jóna Rúna sjálfa sig og svo marga aðra núlifandi Íslendinga sem langar svo til að vera eitthvað allt annað en risið og getan í hugsun þeirra gefur til að kynna að færi best á að þeir einbeittu sér að.

Myndlistarmaðurinn Hallgrímur naut sín algjörlega því sýningin er einstaklega myndræn og allir leikararnir ótrúlega jafnvígir að getu og styrk, sem er mjög sérstakt. Baltasar Kormákur heldur síðan á listrænan hátt utan um allan pakkann enda af stórlistamönnum kominn. Hallgrímur hefur sérstaka hæfileika sem rithöfundur enda snjall og vitur til að draga fram það hversdagslega og nálegasta í hugsun okkar samborgara sinna þannig að maður lítur flóttalega og af skömm til beggja hliða og hugsar viðkvæmu hjarta: ,,Ætli hann hafi haft mig sem fyrirmynd?" Ég tek það fram að sjálfstraustsins vegna hef ég auðvitað ekki minnst á við neinn mér tengdan eða skyldan að slíkt hafi hvarflað að mér. Þessi sýning endurspeglar svo sterklega að vart verður betur gert, þessa sérstæðu, óyfirstíganlegu þráhyggjukenndu þrá einstakra til að ná þeim áfangasigri í lífinu að verða stórir fyrir ekki neitt. Það sem gerir aðalpersónuna sérstæða er ekki að mínu viti að hún sé Íslendingur af því að Hallgrímur vísar fyrst og fremst í sammannlegt eðli heimsbúans, heldur þessi hegðunarvandkvæði ofsaþráar einstaklinga til að ná upp einhvers konar yfirburðagetu hvort sem þeir hafa hana til að bera eða ekki. Sorgleg staðreynd, en sammannleg.

Vinkonan í sögu Hallgríms prófar allt, en hún er aðeins öðruvísi en Jóna Rúna. Hún er alltaf jafn ánægð með sig og meira að segja þegar það er útséð að hún geti ekki fylgt þrám sínum og draumum, eftir það hallar allverulega undan fæti, þá bara segir hún okkur hinum sögu sína eins og um sérstakt ævintýri listviðburða hafi verið að ræða, og næstum fær mann með þvermóðsku sinni og oflæti, eitt augnablik til að trúa á tilvist listklæðnaðarins sem aldrei var til nema í hennar huga. Þegar labbað var út, þrátt fyrir 3 spelkur og 2 stafi, þá var maður stoltur að hafa kynnst henni eitt augnablik og orðið náinn henni en þegar heim var komið þá fékk maður vægan hroll yfir tilhugsuninni um eigin misheppnuðu drauma og þrá eftir því að lenda í popphljómsveit og hugsaði fullur samúðar til þessarar elsku: Ó, að hún mamma skyldi ekki vera til staðar til að segja þér: ,,Elsku Ragnheiður Birna, taktu að þér að þrífa í heimahúsum. Þú verður mjög góð í því og vinsæl að auki." Hún mamma var nefnilega svo góð í að benda mér kurteisilega á hvar takmörk mín í getu og almennum listtilþrifum ættu upphaf sitt og endi.

Það sem situr eftir varðandi Ragnheiði Birnu er afar dulræn og myndræn sena um ónýttan draum sem aldrei var tekið almennilega á að mínu viti og það var að hún reyndist afar dulræn. Það var kannski sá hæfileiki sem var listrænastur og enginn þungi var lagður á í sýningunni en hefði hann kannski getað gert þessa elsku fræga því stór hluti þjóðarinnar elskar svoleiðis fólk. Sem Íslendingur vil ég jafnt sem áður benda kurteisislega á það að hún hefði tilheyrt mjög fámennum hópi manna og kvenna, því það er sannað vísindalega að með einni stórþjóð eins og okkar, er einungis hægt að reikna með 5 einstaklingum á einni öld með yfirburða sálrænar gáfur þannig að þær séu nothæfar. Ef aðeins Ragnheiður Birna hefði vitað af þessu! Þá hefði þessi elska ekki aðeins orðið fræg heldur hefðu nánast allir Íslendingar bókstaflega elskað hana. Þarna tala ég af eigin reynslu en vandamál mitt er öfugt við Ragnheiði. Ég hef ekki viljað vera dulræn, ég vildi bara verða meiriháttar poppstjarna. Senan sem vísar á framúrskarandi ómeðvitaðar dulargáfur Röggu Birnu er þegar hún í jarðarför ömmu sinnar sagðist ekki bara hafa séð hana svona silfurslegna alveg eins og henni hafði verið sagt að gamalt fólk væri handan við heldur við frekari skoðun hennar skyggnu augna kom í ljós að áran var ekki ára, heldur göngugrind sem fylgdi handanfaranum inní eilífðina, enda getur verið gott að styðja sig eitthvað báðum megin grafar. Niðurstaða Röggu á sálræna sviðinu var að hún hélt því fram að hún hefði dregið ömmu sína á eftir sér í áratugi eins og uxi sem dregur nokkurs konar handanplóg án þess að fá vott af stuðningi vegna vissunnar hjá óskyggnum. Ég skora á alla að sjá þessa frábæru sýningu. Að minnsta kosti alla sem hafa leyndan draum um að verða frægir fyrir ekki neitt. Uppsetningin er staðfesting á því að það borgar sig að vera Íslendingur því í henni er sérstök hvatning til okkar sem eigum okkur stóra drauma sem eru í eðli sínu og upphafi öruggur vísir að lífi sem aldrei verður annað líf en nýju föt keisarans.

Eftir Jónu Rúnu Kvaran

Höfundur er dulmiðill og rithöfundur.