Pernille Hansen, tölvusamskiptakennari frá Danmörku, leiðbeinir Hrund Thorlacius, nemanda í Hrafnagilsskóla.
Pernille Hansen, tölvusamskiptakennari frá Danmörku, leiðbeinir Hrund Thorlacius, nemanda í Hrafnagilsskóla. — Morgunblaðið/Benjamín
Eyjafjarðarsveit | Nemendur 8. bekkjar Hrafnagilsskóla tóku á dögunum þátt í nýstárlegu samskiptaverkefni í enskukennslu.

Eyjafjarðarsveit | Nemendur 8. bekkjar Hrafnagilsskóla tóku á dögunum þátt í nýstárlegu samskiptaverkefni í enskukennslu. Verkefnið er unnið í samstarfi þriggja skóla, Eltang Centralskole í Kolding, Danmörku, Yhtenäiskolu í Helsinki, Finnlandi og Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit.

Eins og svo margt nú um daga fer verkefnið fram á Netinu. Meginmarkmið þess er að auka færni nemenda í að lesa og skrifa á ensku, að auka getu nemendanna í að skrifa sögutexta í samvinnu við aðra og að eiga samræður og samskipti við aðra nemendur á enskri tungu. Einnig hefur verkefnið það að markmiði að stuðla að hagnýtingu tölvutækninnar í þessu skyni. Umsjón með verkefninu hafa tveir nemendur í Samskipta- og upplýsingatækni við Syddansk Universitet í Kolding, þær Yvonne Eriksen og Pernille S. Hansen og voru þær ásamt leiðbeinanda sínum, Rocio Chongtay, aðjúnkt við SDU við kennslu í Hrafnagilsskóla þessa daga. Umsjón með verkefninu af hálfu Hrafnagilsskóla hafði Kristín Kolbeinsdóttir kennari og henni til aðstoðar var Hans Rúnar Snorrason leiðbeinandi.

Þegar fréttaritari Morgunblaðsins leit inn í kennslustund voru nemendur mjög uppteknir af verkefninu og létu vel af því. Vídeótökuvélar voru stöðugt í gangi og að sjálfsögðu einnig í hinum skólunum, og gátu nemendur þannig fylgst með öllu sem gerðist í kennslustofunum í löndunum þremur. Viðfangsefnið fólst í því að byggja hús eftir að hafa fengið lóð í sameiginlegu hverfi nemendanna, í Danmörku og Finnlandi, síðan þurfti að leggja götur og stíga um hverfið, sem kallaði á mikil samskipti milli allra í verkefninu. Öll samskipti fóru að sjálfsögðu fram á ensku.

Kristín Kolbeinsdóttir kennari taldi að mjög vel hefði tekist til með verkefnið, þetta væri nýjung hér á landi sem lofaði góðu.

Slóðin á heimasíðu verkefnisins er www.yin.dk/heksesnak.htm