Hildur Kristjánsdóttir fæddist í Skaftárdal á Síðu 20. febrúar 1920. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhíð í Kópavogi 2. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Kristján Pálsson og Þorbjörg Jónsdóttir. Systkini Hildar eru Páll, lést ungur, Björg Jónína, Guðlaug, Böðvar, Oddsteinn, Jón og Oddný Sigríður.

Hinn 1. ágúst 1942 giftist Hildur eftirlifandi manni sínum Sigurpáli Árnasyni garðyrkjubónda og kaupmanni, f. 25.5. 1917, frá Kétu í Hegranesi. Foreldrar hans voru Árni Sigurðsson og Sigurlaug Guðmundsdóttir.

Hildur og Sigurpáll hófu búskap í Varmahlíð 1942 og bjuggu þar síðan, en áttu sitt annað heimili í Kópavoginum frá 1999.

Hildur og Sigurpáll eiga fimm börn. Þau eru: Kristján Páll, maki Sigríður Halldórsdóttir; Sigurbjörg, fyrrverandi maki Jóhann Ólafsson; Kolbrún, maki Freysteinn Sigurðsson; Sigurlaug, maki Sigurjón P. Stefánsson; Árni Baldvin, maki Harpa Jóhannsdóttir. Barnabörnin eru 14 og barnabarnabörnin fimm.

Útför Hildar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Við erum öll áhorfendur að hinu eilífa tifi tímans, lífi og dauða. En þegar ástvinur deyr erum við samt alltaf óviðbúin að taka missinum og sorginni, jafnvel þótt ljóst sé að hverju stefni. Heiðurskonan Hildur Kristjánsdóttir er fallin frá eftir langa sjúkdómslegu.

Það var sumarið 1965 að ég kynntist Hildi fyrst. Ungum manni, sem var að stíga í vænginn við elstu dótturina, var boðið á heimili þeirra hjóna í kvöldkaffi til að þau hittu væntanlegan tengdason og hófst þá vinátta, sem aldrei bar skugga á síðan. Hildur var glæsileg kona í fasi og háttum og var henni umhugað að allir sem sóttu hana heim fengju notið hinnar bestu gestrisni og virtist engu skipta hvort gesti bar óvænt að garði eða ekki, alltaf voru boðin fram veisluföng. Hún var glaðlynd, hlý í viðmóti og hreinskilin í öllum samskiptum og tók sínar eigin ákvarðanir. Hún hafði yndi af ferðalögum og varð oft hugsað til gömlu átthaganna í Vestur-Skaftafellssýslu. Ég átti þess kost, fyrir nokkrum árum, að ferðast með henni um æskuslóðirnar og líður sú ferð mér seint úr minni. Þá naut hún sín vel við lýsingar á umhverfinu og staðháttum og sagði sögur af fólkinu, sem þar bjó. Augljóst var að þar fór kona, sem unni landinu sínu og fólkinu, sem þar býr.

Þau hjónin ráku verslun í Varmahlíð um árabil og skipti ekki máli hvenær sólarhringsins afgreiða þurfti nágrannana. Alltaf var afgreitt með brosi á vör og með hlýjum orðum.

Hildur hafði gaman af að gefa og gleðja aðra og var einstaklega hjálpsöm og gestrisin hvar sem hún gat því við komið. Ég minnist með þakklæti allra ferðanna norður með börnin okkar, hvort sem var hin árlega ferð í Stafnsrétt á haustin eða á þorrablótið í Miðgarði eða bara skroppið í sveitina. Alltaf voru móttökurnar höfðinglegar og vil ég þakka fyrir þær.

Þegar árin liðu yfir og heilsunni fór að hraka keyptu þau hjónin íbúð í Kópavogi og höfðu það vetursetu, en alltaf reikaði hugurinn samt norður í sveitina þegar tók að vora og dvöldu þau hjónin þar saman á sumrin meðan heilsa Hildar leyfði.

Þegar heilsu hennar fór að hraka naut hún frábærrar umönnunar eiginmanns síns og var aðdáunarvert að sjá hve mikla umhyggju og ást þau báru hvort til annars allt til enda.

Við hjónin sendum Sigurpáli, börnum þeirra hjóna og barnabörnum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Hildar Kristjánsdóttur.

Jóhann Ólafsson.

Mér er ljúft að minnast elskulegrar tengdamóður minnar, Hildar Kristjánsdóttur, sem nú hefur kvatt okkur. Hildur var þungamiðja stórfjölskyldu sem átti hug hennar allan og hún lét sér svo annt um. Heimili þeirra hjóna, Hildar og Sigurpáls, í Varmahlíð hefur ávallt verið í huga mínum unaðsreitur, staður sem gefur manni svo mikið og þörfin fyrir að heimsækja aftur og aftur verður svo sterk.

Er ég hugsa nú til Hildar koma upp í hugann orð eins og umhyggja, hjálpsemi, tryggð. Persónuleiki Hildar átti svo stóran þátt í því að sameina fólk og hún hafði svo mikla þörf fyrir að fá fjölskylduna til sín. Sérstaklega langar mig til að þakka umhyggju hennar fyrir barnabörnum og barnabarnabörnum sem gaf okkur svo mikið öryggi og verður okkur öllum svo mikil fyrirmynd. Ótrúlega gestkvæmt var á heimili þeirra hjóna í Lundi í gegnum tíðina og Hildur átti samskipti við svo marga, var svo áhugasöm um það fólk sem hún kynntist á lífsleiðinni og ófáum rétti hún sína hjálparhönd.

Guð blessi þig, Hildur, og geymi um eilífð alla.

Freysteinn.

Elsku amma mín. Þá hefurðu fengið hvíldina. Og um huga minn streyma allar minningarnar um þig. Þú vildir alltaf hafa svo margt fólk í kringum þig og þannig var það þegar þú skildir við. Þó það kæmi oft margt fólk á heimili ykkar afa þá fannst þér aldrei vera of mikill gestagangur, tókst á móti öllum með bros á vör. Það var svo gott að koma til ykkar í heimsókn og fá brauð með banana og kökusneið af hjónabandssælu. Þú bakaðir bestu hjónabandssæluna. Þú varst líka svo heppin í þínu hjónabandi, að hafa afa þér við hlið alla tíð.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margt að minnast,

svo margt sem um huga minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Elsku amma, við munum hugsa vel um afa.

Hvíl þú í friði.

Þín

Hildur.

Elsku amma. Það tekur mig sárt að þurfa að kveðja þig því þú hafðir svo mikil áhrif á líf mitt. Hlýja, félagslyndi og dugnaður eru meðal annars þau orð sem koma upp í huga minn þegar ég hugsa til þín.

Í bernskuminningum eru ferðirnar norður í Varmahlíð mjög eftirminnilegar og þá sérstaklega þegar við Rúnar og Friðrik fengum að vera saman hjá þér. Ípishóll, Lundur og bílskúr fullur af ullarpokum voru leikvellir margra skemmtilegra leikja og prakkarastrika. Alltaf varst þú svo ánægð þegar við komum norður til þín og við vorum rétt búnir að leggja frá okkur töskurnar og Tarzan-blöðin þegar þú kallaðir á okkur inn í eldhús þar sem kökurnar biðu. Þegar við höfðum verið duglegir um daginn þá fengum við ná í íspinna niður í frystikistu og alltaf vorum við leystir út með Nóa Opali áður en við lögðum af stað suður.

En þegar ég bjó hjá ykkur afa nokkur sumur þá fannst mér ég kynnast þér upp á nýtt. Sem unglingur úr Reykjavík var ég ekkert of hrifinn af því að vera heilt sumar fyrir norðan en ykkur tókst á nokkrum dögum að breyta viðhorfi mínu og eftir á að hyggja voru þessi þrjú sumur ein af mínum skemmtilegustu. Á kvöldin sast þú oft við gluggann, þar sem þú fylgdist með umferðinni og lífinu í sveitinni sem þú unnir svo, og sagðir mér sögur. Sögur af þér og afa þegar þið voruð að kynnast í Hveragerði og hinum fjölmörgu ferðalögum ykkar.

Ég mun ævinlega vera þakklátur fyrir allt það sem þú kenndir mér. Þú hafðir einstakt lag á að sjá hið skemmtilega í hlutunum og hvattir mig til að taka eftir þeim einnig og ég veit eftir bílferðirnar með þér og afa að ekki má keyra yfir hámarkshraða né vera á ferðinni þegar Leiðarljós er í sjónvarpinu.

Blessuð sé minning þín.

Sigurpáll Jóhannsson.

Elsku amma. Núna ertu farin á brott en eftir stendur minningin sem lifa mun áfram. Mikið hlökkuðum við alltaf til á vorin að fara í sveitina til ykkar afa. Við sjáum þig fyrir okkur þar sem þú stendur á tröppunum í Lundi brosandi með útbreiddan faðminn. Varla vorum við komin inn þegar kjötsúpan var komin á borðið og nýbökuð hjónabandssælan var fljót að hverfa ofan í mannskapinn. Oft var mannmargt í Lundi og þannig vildir þú líka hafa það. Alltaf vorum við jafnvelkomnir og okkur leið svo vel hjá þér.

Það var oft líf og fjör í heyskapnum, böggunum var safnað saman á vagninn og síðan raðaði afi krökkunum aftast á vagninn og keyrði með allan hópinn heim að hlöðu. Þar beið okkar nestisbox sem þú hafðir útbúið. Allar ferðirnar í réttirnar á haustin eru ógleymanlegar. Þú komst oftast með í Stafnsrétt og hafðir gaman af og passaðir að allir væru hlýlega klæddir og vel útbúnir.

Þegar þið afi fluttuð suður urðu samverustundirnar fleiri. Þið voruð dugleg kíkja í heimsókn og ekki voruð þið lengi að finna ykkur spilafélaga í Kópavoginum

Eitt sinn hélt karlakórinn Heimir tónleika í Háskólabíói. Þú hafðir frétt að uppselt væri orðið á tónleikana en það aftraði þér ekki. Þið afi brunuðuð vestur í bæ á Volvónum því þú varst staðráðin að sjá þína menn. Það hafðist fyrir rest, þið fenguð miða rétt um það leyti að tónleikarnir voru að hefjast. Þá áttuð þið eftir að ganga upp allar tröppurnar í stóra salnum en þú lést það ekki á þig fá þótt þú ættir ekkert of gott með gang. Þetta lýsir þér kannski betur en margt annað, þú vildir alltaf vera viðstödd þegar eitthvað var að gerast og fylgjast vel með.

Elsku amma, takk fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Við munum alltaf muna brosið þitt bjarta.

Ólafur Jóhannsson,

Reynir Örn Jóhannsson.