Stefán Björn Ólafsson fæddist í Vík í Héðinsfirði 8. október 1920. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hornbrekku í Ólafsfirði 29. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Ólafur Sveinn Guðmundsson, bóndi og sjómaður í Ólafsfirði, f. 30. maí 1891, d. 1. mars 1977, og kona hans Sóley Stefánsdóttir, f. 8. maí 1897, d. 8. janúar 1973. Systkini Stefáns eru: Stefanía, látin, Guðmundur, Jón, Sigurrós Þórleif, látin, Aðalsteinn Sæmundur, Sveinn Helgi, látinn, og Kristín.

Eiginkona Stefáns var Stefanía Kristín, f. 29. nóvember 1912, d. 24. des. 1990. Foreldrar hennar voru Haraldur Stefánsson, bóndi og skipstjóri í Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal, og kona hans Anna Jóhannesdóttir. Stefán og Stefanía bjuggu allan sinn búskap í Ólafsfirði að undanskildum nokkrum árum er Stefanía dvaldi á Kristneshæli vegna veikinda. Stefán og Stefanía eignuðust eina dóttur, Sóleyju, verslunareiganda í Kópavogi, gift Guðmundi Oddssyni, skólastjóra Kársnesskóla í Kópavogi. Guðmundur og Sóley eiga þrjár dætur. Þær eru: 1) Stefanía, snyrtifræðingur, gift Þorsteini Geirssyni, framkvæmdastjóra, dætur þeirra eru Íris Hrund og Sóley. 2) Sigrún, kennari, gift Jóhanni Jóhannssyni, deildarstjóra, börn þeirra eru Guðmundur og Iðunn. 3) Sunna, markaðsfræðingur, í sambúð með Ívari Sigurjónssyni markaðsstjóra, börn þeirra eru Telma og Sigurjón Orri.

Stefán stundaði almenna verkamannavinnu og fór á vertíðir fyrstu árin, en hugur hans leitaði stöðugt í búskap og árið 1943 lauk hann prófi sem búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal. Árið 1953 byrjaði Stefán að vinna við múrverk, varð meistari í múraraiðn árið 1967 og vann við þá iðn allt fram til ársins 1982. Næstu ár vann hann við verslunarstörf í Ólafsfirði uns hann hætti störfum fyrir aldurs sakir. Stefán lét mikið að sér kveða á ýmsum sviðum félagsmála. Hann sat í bæjarstjórn Ólafsfjarðar í 12 ár fyrir Framsóknarflokkinn, var formaður stjórnar Sparisjóðs Ólafsfjarðar í fjögur ár og sat auk þess í ýmsum nefndum á vegum bæjarins. Hann var formaður Leifturs í fjögur ár og formaður Íþróttabandalags Ólafsfjarðar í nokkur ár. Hann var einn af stofnendum Golfklúbbs Ólafsfjarðar og formaður hans um árabil. Hann tók mikinn þátt í verkalýðsmálum og var í stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Ólafsfjarðar um skeið. Stefán var áhugamaður um leiklist og lék mörg hlutverk á vegum Leikfélags Ólafsfjarðar auk þess sem hann átti sæti í stjórn félagsins um árabil. Stefán var samvinnu- og kaupfélagsmaður og átti sæti í stjórnum og nefndum þeirra í mörg ár. Þá var hann stjórnarmaður og formaður Framsóknarfélags Ólafsfjarðar árum saman.

Útför Stefáns fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Mikill heiðursmaður er nú fallinn frá. Maður sem fór ekki um með neinum hamagangi, en var afskaplega viðmótsgóður og ljúfur. Ég var búinn að þekkja Stebba í rúm fjörtíu ár og allt frá okkar fyrstu kynnum sýndi hann mér mikla vináttu og hlýju.

Á uppvaxtarárum sínum vann hann við sveitastörf á Vatnsenda, en hann hafði mikið yndi af skepnum og í honum var alltaf mikill bóndi, enda átti hann nokkrar kindur um árabil, sem hann sýndi mikla umhyggju og natni. Hann bar hag sveitanna mjög fyrir brjósti og fylgdist ávallt vel með þeim breytingum sem þar urðu í tímans rás. Þau ár hafa trúlega mótað nokkuð skoðanir hans, því hann var mikill landsbyggðarmaður og hafði oft orð á þeirri hættu sem fylgdi þeirri þróun, að fólkið af landsbyggðinni flytti á höfuðborgarsvæðið. Hann gerði sér fljótt grein fyrir þessari hættu fyrir hinar smærri byggðir þó tæpast hafi hann séð fyrir hve hratt þetta myndi gerast. Einkum hafði hann áhyggjur af unga fólkinu sem fór í nám og kom ekki aftur heim til starfa, því sveitarfélag eins og Ólafsfjörður má engan missa ef það á að geta veitt íbúum sínum góða og almenna þjónustu.

Hann unni mjög sinni heimabyggð og leit á Ólafsfjörðinn sem fegurstan fjarða. Ég fann fljótt hvað fjölskyldan öll, ekki bara kona og dóttir, heldur líka foreldrar og systkini voru honum mikils virði. Ólafsvegur 2 var ekki einungis heimili hans heldur bjó stórfjölskyldan öll í þessu stóra og glæsilega húsi í hjarta Ólafsfjarðarbæjar. Vinátta og umhyggja systkinanna hvort fyrir öðru hefur alla tíð verið mikil og mætti sumum vera til eftirbreytni.

Stebbi var mikill félagsmálamaður og starfaði í ótrúlega mörgum félagasamtökum. Fyrst starfaði hann mikið í íþróttahreyfingunni og var góður skíðamaður og keppti oft á mótum og þá einkum í svigi.Hann og bræður hans fóru margar ferðirnar á skíðum milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar, auk þess sem hann fór oft á milli heimabyggðarinnar og Svarfaðardals, til að heimsækja tengdafólkið sem þar bjó, og einnig var Sóley þar um tíma hjá afa sínum og ömmu á meðan mamma hennar var á Kristnesi. Hann þótti mjög liðtækur leikari og lék mörg hlutverk með leikfélagi Ólafsfjarðar. Einkum þótti honum takast vel upp í hlutverki séra Sigvalda í Manni og konu. Hann var sannur kaupfélags- og samvinnumaður og þá um leið mikill framsóknarmaður enda sat hann mörg ár í bæjarstjórn Ólafsfjarðar fyrir flokkinn. Við áttum oft á tíðum skemmtilegar viðræður um landsins gagn og nauðsynjar en vorum alls ekki alltaf sammála. Tengdaforeldrar mínir höfðu mikinn áhuga á ferðalögum, einkum innanlands og þekktu landið okkar býsna vel. Í mörg ár fóru þau eina viku í Húsafell, dætrum okkar til ómældrar ánægju. Ég man hvað mér þótti það skrýtið þegar Stebbi sagði okkur frá því, seint á sjöunda áratugnum, að hann hefði pantað ferð með Gullfossi til Kanaríeyja. Þetta þætti sjálfsagt í dag og ekkert merkilegt að skreppa þangað, en á þessum tíma voru ekki margir sem létu sér detta slíkt í hug. Hann hafði mikla ánægju af þessari ferð og minntist hennar oft. Eins og áður hefur komið fram, þá vann hann mikið fyrir íþróttahreyfinguna á Ólafsfirði á sínum yngri árum. Þegar hann var kominn undir fimmtugt tók hann þátt í að stofna Golfklúbb Ólafsfjarðar ásamt nokkrum körlum á svipuðum aldri. Óhætt er að segja, að upp frá því átti golfið hug hans allan, og vann hann til fjölda verðlauna á hinum ýmsu mótum í þessari íþrótt. Hann var býsna lunkinn golfspilari, fremur höggstuttur, en ótrúlega höggviss og yfirleitt alltaf á braut. Það var því ánægjulegt að sjá hann taka fyrsta höggið á nýjum teig á golfvellinum á Ólafsfirði síðastliðið haust, en teigurinn var nefndur eftir honum og heitir Stefánsteigur.

Auðvitað þyrlast minningarnar upp í hugann eftir svona löng kynni, en hér er ekki meiningin að gera þeim öllum skil. Ég og mín fjölskylda eigum þeim hjónum, Stebba og Stellu, margt að þakka. Mér til efs að dætur okkar hefðu getað eignast betri afa og ömmu, enda voru þær mikið hjá þeim á sínum yngri árum og minnast þeirra með mikilli gleði. Þá var ekki síður gott að eiga Stebba að þegar við byggðum húsið okkar í Kópavoginum. Raunar má segja, að þau hafi alltaf verið tilbúin til að hjálpa okkur ef þörf var á, og fyrir það vil ég þakka. Á þessari stundu vill Sóley þakka pabba sínum fyrir allt. Hann var henni afskaplega góður vinur alla tíð og sérstaklega reyndist hann henni traustur og umhyggjusamur í veikindum Stellu. Ég kveð tengdföður minn með virðingu, því þar er genginn góður og grandvar maður, sem ég mun ávallt minnast með miklum hlýhug.

Að lokum viljum við Sóley færa systkinunum á Tjörn, þeim Munda, Nonna, Sæmundi og sérstaklega Stínu okkar bestu þakkir fyrir hversu vel þau önnuðust Stebba síðustu árin. Við fundum það vel hve umhyggja þeirra var mikil og að honum liði sem allra best. Það er gott að eiga slíkt fólk í sinni fjölskyldu.

Guðmundur Oddsson.

Við systurnar vorum svo heppnar að eiga ekta ömmu og afa, þetta frábæra fólk sem alltaf sá það besta í okkur því við vorum jú einstakar að þeirra mati. Þar sem við þrjár vorum einu barnabörnin áttum við athygli þeirra óskipta og alla tíð var tilfinningin mjög góð að labba upp stigana á Tjörn og hitta Stellu ömmu og Stebba afa.

Við fráfall afa koma svo ótal margar minningar upp í hugann að ómögulegt væri að koma öllu á blað enda hefur afi ávallt verið svo stór hluti af tilverunni og ennþá hef ég ekki upplifað jól án hans.

Það sem var svo einkennandi fyrir Stebba afa var hve mikill ljúflingur hann var. Hann fór hægt yfir en góðmennskan streymdi frá honum enda löðuðust börnin að honum. Hann hafði einstaklega mjúkar hendur sem ávallt struku vangann og hlýjuðu köldum höndum.

Upp í hugann koma minningar um litla stelpu sem send var norður en saknaði mömmu og pabba í Kópavogi og þá var allt gert til að dvölin í Ólafsfirði yrði ógleymanleg því það skipti afa miklu máli alla tíð að stelpunni liði vel. Allar ferðirnar sem við fórum inn á Dalvík og inn í Svarfaðardal þar sem saga fylgdi hverjum bæ. Berjatínsla í Múlanum og inni í Fljótum og svo var drukkið Vallas og borðað súkkulaði.

Við áttum einnig saman ógleymanlegar þrjár vikur þar sem ég var í æfingakennslu inni í Svarfaðardal og hann tók ekki annað í mál en að sækja mig á hverjum degi svo ég gæti gist inni í Ólafsfirði. Flestum þótti nú borgarstelpan einum of háð afa sínum.

Stoltur gat hann svo sýnt í Kaupfélaginu að ein af stelpunum hans væri komin í bæinn. Ekki minnkaði ánægjan og stoltið þegar langafabörnin fóru að bætast í hópinn.

Afi hafði unun af golfi og sveiflan hans er ógleymanleg. Hann eyddi ófáum stundum á golfvellinum eða "fyrir handan" eins og sagt er í Ólafsfirði. Á hverju sumri var tekið þátt í golfmótum og þá var ég ósjaldan kylfusveinn og hann var óþreytandi að leiðbeina um rétta hegðun á golfvellinum. Klæðaburðurinn skipti líka miklu máli og þótti mér hann alltaf svo glæsilegur, sérstaklega þegar sixpensarinn með dúsknum, sem var hans einkennismerki alla tíð, var settur upp. Hillurnar á Tjörn með öllum verðlaunapeningunum bera þess glöggt vitni að þar var góður golfari á ferð. Honum þótti nú ekki verra þegar fjölskyldumeðlimirnir fóru að sýna golfinu áhuga, þá sérstaklega mamma sem var augasteinninn hans alla tíð.

Að leiðarlokum ber að þakka fyrir fjársjóð minninganna sem eiga eftir að fylgja okkur og ylja um ókomin ár. Betri afa gæti enginn hugsað sér og því er erfitt að kveðja þó að innst inni viti ég að hann var sáttur við endalokin.

Nú er afi "fyrir handan" í orðsins fyllstu merkingu og ég efa ekki að þar finni hann græna velli til að spila sínar 18 holur.

Guðmundur langafastrákurinn hans spurði hvort Stebbi afi væri núna orðinn engill og þegar mamma hans kvað svo vera spurði hann hvort afi myndi nú ekki kíkja á okkur annað slagið í gegnum skýin. Ég vona svo sannarlega að hann geri það.

Góða ferð, elsku afi.

Þín

Sigrún.

Það er gott að eiga góðan afa.

Nýfædd stelpa í heimsókn hjá afa og ömmu í Ólafsfirði. Fyrstu skrefin tekin, leidd af Stebba afa. Hann afi var góður.

Hjólaði á þríhjólinu hringinn í kringum húsið ömmu og afa.

Úti að keyra í gula Skodanum, syngjandi í Múlanum, í Svarfaðardalnum.

Á Dalvík og Akureyri að heimsækja ættingjana.

Farið í lautarferð með teppi, nesti, kaffi á brúsa og Vallas.

Hann afi var góður.

Tína og borða ber, afi hallar sér í lynginu á meðan stelpan tínir.

Afi að taka í nefið, neftóbak út um allt.

Í golfi, þar var hann góður, fórum á golfkeppnir um landið. Afi fékk verðlaunapeninga og bikara. Ég dró golfkerruna, fékk gos og súkkulaði að launum.

Hann afi var góður.

Fórum saman í sumarbústaði, Húsafell.

Sváfum saman í tjaldi Vaglaskógi með ömmu.

Var alltaf með afa og ömmu um jól, mikið var spilað.

Afi að múra og flísaleggja, gera fínt fyrir aðra.

Stoltur þegar hann eignaðist fyrsta langafabarnið sitt, Írisi Hrund.

Afi og ég í Kaupfélaginu að vinna saman eitt sumar.

Hann afi var góður.

Sorgmæddur þegar Stella amma dó, en duglegur var hann.

Glaður þegar annað langafabarnið fæddist, Sóley "þriðja" eins og hann sagði.

Múraði húsið mitt með Steina í Fagrahjallanum.

Stórfjölskyldan fór öll saman til Krítar.

Afi sagði að hann væri ríkur maður með allt sitt fallega fólk í kringum sig.

Hann afi var góður.

Heilsunni farið að hraka, minnið að gefa sig. Kunni því ekki vel.

Nú er hann kominn yfir um til Stellu ömmu. Þar líður honum vel.

Það var gott að eiga svona góðan afa.

Stefanía (Stella).

Þegar við systur minnumst Stebba afa brosum við eða hlæjum. Það sem lýsir honum best er að hann var góður afi sem gerði allt fyrir krakkana sína.

Þegar við hugsum um Stebba afa minnumst við þess hvað hann var traustur og skemmtilegur, hann fór aldrei neitt án neftóbaksdósarinnar og ekki klikkaði afi í olsen olsen. Hann gaf okkur systrum fyrsta hjólið okkar og að sjálfsögðu var hjólað út að tjörninni fyrir framan húsið hans sem heitir Tjörn. Við systurnar minnumst göngutúranna með afa þegar við fórum að gefa öndunum brauð og skoða kanínurnar. Mjög minnisstæð er ferðin okkar til Krítar, þar var afi alsæll með okkur öllum.

Afi kenndi okkur báðum að spila, þá var olsen olsen fremst í flokki. Hann var alltaf til í að taka nokkur spil með okkur. Báðar minnumst við þess þegar við sátum inni í stofu hjá Stebba afa, vorum að spila öll þrjú, allir alveg dottnir inn í heim spilanna og enginn segir orð. En afi rýfur þögnina á sinn einstaka hátt. Við hlógum auðvitað alveg eins og vitleysingar öll þrjú og höfum oft vitnað í þetta við spilaborðið og skellihlegið.

Okkur fannst þetta svolítið fyndið að langafi skyldi gera svona.

Við munum sakna Stebba afa mikið, en við vitum líka að hann er glaður að vera kominn til Stellu ömmu og munu þau halda áfram að fylgjast vel með okkur og passa okkur.

Þínar afastelpur

Íris Hrund og Sóley.

Hann Stebbi afi minn er nú loksins kominn til hennar Stellu ömmu minnar sem hann saknaði svo sárt. Það eru svo margar góðar minningar sem ég á um hann afa og voru ófá sumrin sem ég var á Ólafsfirði hjá ömmu og afa á Ólafsveginum. Það var alltaf gott að koma til þeirra og móttökurnar ávallt með besta móti.

Hann afi minn var ákaflega góður maður og það var ávallt stutt í brosið. Hann vildi allt fyrir alla gera og þau sumur sem ég var hjá þeim var það fastur liður að fá að fara með afa í vinnuna í Kaupfélagið. Það sem sýnir kannski best hversu mikið hann dekraði við afastelpurnar sínar var að alltaf þegar ég kom norður leyfði hann mér að sofa í sinni holu hjá henni ömmu svo hún gæti strokið mér um bakið og farið með bænirnar, það fannst honum sjálfsagt mál. Þær stundir sem ég átti með ömmu og afa þegar ég var lítil eru mér ógleymanlegar. Þar er hægt að telja upp ferðirnar upp á golfvöll, allir bíltúrarnir um sveitina að ógleymdum öllum spilakvöldunum þar sem spiluð var kasína, manni eða kani, en þar lék hann á als oddi.

Hann Stebbi afi lét til sín taka á mörgum sviðum í lífinu, en það sem einkenndi hann var að allt það sem hann tók sér fyrir hendur gerði hann einstaklega vel.

Það er sárt til þess að hugsa að börnin mín tvö, Telma og Sigurjón Orri, fái ekki að kynnast langafa sínum og elskulegur afi minn lifði ekki nógu lengi til að sjá yngsta barnabarnabarnið sitt, hann Sigurjón Orra. En það er alveg ljóst að þau munu fá að heyra mikið hversu einstakur maður hann var.

Elsku afi, mér finnst erfitt til þess að hugsa að ég muni aldrei fá að sjá þig aftur en ég veit að núna ertu kominn á góðan stað og þú og amma getið áfram fylgst með mér og fjölskyldunni minni vaxa og þroskast. Takk fyrir allt.

Hvíl þú í friði, elsku Stebbi afi.

Þín

Sunna.

Frændi minn, Stefán Björn Ólafsson, eins og hann hét fullu nafni, er látinn á áttugasta og fjórða aldursári. Hann bar nöfn langafa sinna beggja, þeirra Stefáns Sveinssonar frá Uppsölum í Skagafirði og Björns Þorleifssonar frá Stóra-Holti í Fljótum. Hann var elstur systkina sinna, sonur hjónanna Sóleyjar Stefánsdóttur og Ólafs Guðmundssonar. Þau hófu búskap sinn í Vík í Héðinsfirði, hjá Stefaníu Stefánsdóttur móður Sóleyjar, og þar fæddist Stefán, en þau fluttust þaðan til Ólafsfjarðar með hann á öðru ári.

En skömmu síðar brá Stefanía amma okkar búi í Vík og flutti með önnur börn sín að Vatnsenda í Ólafsfirði. Einnig fylgdu henni faðir hennar Stefán Sveinsson frá Uppsölum, þá um nírætt og Anna Lilja Jónsdóttir, föðursystir hennar, ávallt kölluð Abba. Einhverjar fyrstu minningar Stebba Sóleyjar, eins og hann var kallaður á sínum yngri árum, voru þegar langafi hans, þá orðinn rúmliggjandi, var að biðja hann að seilast undir koddann og rétta sér flösku sem hann átti þar. Honum þótti löngum sopinn góður og vildi fara leynt með þær dýru veigar. Stebbi kom oft í Vatnsenda til að heimsækja skyldfólk sitt og hjálpa til við bústörfin.

Snemma hneigðist hugur hans til búskapar og því var það að um tvítugt fór hann í búfræðinám í Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal. Þaðan lauk hann búfræðiprófi 1943. Ég man vel eftir því þegar Stebbi kom frá Hólum. Það hittist þannig á að verið var að slétta úr þúfum á túninu á Vatnsenda. Búið var að plægja og var eftir að herfa niður plógstrengina. Á þeim tíma var allt unnið með hestum. Aðkomumaður hafði unnið við plæginguna og ætlaði einnig að sjá um að herfa með sínum hestum. Stebbi sagði að það væri óþarfi, við fengjum bara herfið lánað og notuðum okkar hesta og hann skyldi sjá um að klára flagið, herfa, sá í það og valta. Þetta gerði hann og tókst svo vel að aðrar sléttur urðu ekki betri síðar meir þó unnar væru með vélum.

Hann kom ekki einn frá Hólum heldur hafði hann fundið konuefni sitt þar, sem var Stefanía Haraldsdóttir frá Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal. Þau settust að í Ólafsfirði og 14. janúar 1945 fæddist þeim dóttirin Sóley sem ber nafn föðurömmu sinnar. Árið 1946 réðust þau í vinnumennsku, með dótturina á öðru ári, inn í Svarfaðardal til séra Stefáns Snævarr á Völlum. Dvölin þar var eitt ár og minntust þau oft þessa tímabils sem þau rómuðu mjög. Með búfræðimenntunina frá Hólum beindist hugur hans að búskap og voru þau Stella farin að svipast um eftir jarðnæði. En þegar framtíðin virtist blasa við dundi reiðarslagið yfir. Stefanía veiktist af berklum og var flutt inn á Kristneshæli í Eyjafirði. Þar barðist hún við sjúkdóm sinn samfleytt í fjögur ár og síðan með smáhléum eftir það. Hún náði að sigrast á veikindunum en óhjákvæmilega settu þau mark á allt hennar líf. Stefán reyndist konu sinni þá hinn tryggi lífsförunautur sem og síðar á lífsleiðinni. Stefanía lést 24. des. 1990.

Þegar svo var komið gat draumurinn um búskap ekki orðið að veruleika. Þá varð Stefán að finna sér annað lífsstarf sem hann gat stundað. Árið 1952 var byggt nýtt fjós á Vatnsenda og var það hlaðið úr svokölluðum R-steini með tvöföldu byrði og einangrun í milli. Gísli Magnússon múrarameistari sá um að hlaða úr steininum ásamt Guðmundi Þengilssyni. Stebbi aðstoðaði við að bera efnið í hleðslumennina og tók eftir því hvernig þeir fóru að og fór að reyna sjálfur að hlaða. Honum fórst það svo vel úr hendi að Gísli spurði hann hvort hann gæti hugsað sér að leggja fyrir sig múrverk, því að hann þekkti aðstæður hans, og bauð honum að koma í nám til sín. Stebbi tók þessu góða boði nokkru síðar og settist á skólabekk þá kominn á fertugsaldur og lauk prófi frá Iðnskólanum í Ólafsfirði 1958 og sveinsprófi í iðngreininni 1960. Hann starfaði síðan sem múrari í Ólafsfirði um 30 ára skeið og vann við verslunarstörf eftir það, þar til hann lét alveg af störfum. Meðan hann vann við múrverkið hafði hann tvo góða sér við hlið, þá Sæmund bróður sinn og Gunnar Steinsson. Þessi þrenning náði afar vel saman, glaðværð og léttleiki fylgdi þeim ávallt við starfið hvar sem þeir voru við vinnu.

Stefán hafði mikinn áhuga á íþróttum, stjórnmálum og verkalýðsmálum. Í svo litlu samfélagi, sem Ólafsfjörður er, var óhjákvæmilegt annað en að hin ýmsu félags- og trúnaðarstörf hlæðust á svo áhugasaman mann sem hann var. Hann var formaður íþróttafélagsins Leifturs um tveggja ára skeið, var mikill skíðamaður á sínum yngri árum og hafði mikinn áhuga á þeirri íþrótt. Þegar hann hætti sjálfur að stunda skíði var hann oftast mættur til að aðstoða við mótshald og þá gjarnan tímavörður. Á seinni árum stundaði hann golf og vann þar oft til verðlauna á mótum og átti sæti í fyrstu stjórn Golfklúbbs Ólafsfjarðar og sat síðan í stjórn klúbbsins um árabil. Einnig var hann í Rotaryfélagi Ólafsfjarðar og var heiðursfélagi þar nú síðustu ár. Í bæjarstjórn Ólafsfjarðar sat hann í fjögur kjörtímabil fyrir Framsóknarflokkinn og tók mikinn þátt í störfum verkalýðshreyfingarinnar. Þá sat hann um árabil í stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar, einnig tók hann mikinn þátt í starfsemi Leikfélags Ólafsfjarðar og lék þar oft aðalhlutverk í mörgum verkum. Einna eftirminnilegastur er hann fyrir þá sem hann sáu í hlutverki séra Sigvalda í Manni og konu og Bárði á Búrfelli í Pilti og stúlku.

Það er margs að minnast frá æskudögunum á Vatnsenda. Þau Stebbi og Stella áttu nokkrar ferðirnar þangað og gjarnan var höfð veiðistöng með. Stebbi var einkar laginn við að ná í silung úr ánni fyrir neðan bæinn og brást varla færi hann niður að á að hann krækti ekki í nokkra silunga sem hann gaf svo Soffíu frænku sinni í matinn. Hann var einkar hjálplegur og fljótur að rétta hjálparhönd væri hann beðinn og þar sem þess þurfti með.

Einhverju sinni steðjuðu veikindi að á Vatnsenda og erfitt var að koma mjólk frá sér vegna þeirra. En þá þurftu bændur sjálfir að sjá um að koma mjólkinni í mjólkursamlagið í bænum. Þetta var að vetri til og gott sleðafæri á vatninu. Stebbi frétti af þessum vandræðum og kom einn morguninn brunandi á skíðum og sagðist leysa þetta á sérstakan hátt. Til að þurfa ekki að fara með hestinn og sleðann aftur til baka, þá gerði hann nýja slóð alla leið niður í bæ, kom svo hestinum á sömu slóðina heimleiðis, hottaði á hann og Gráni gamli skilaði sér heim aftur eftir slóðinni.

Við þessi minningarskrif um Stefán frænda minn kemur Stella alltaf upp í hugann. Þau voru afar samrýnd, ef annað þeirra tók sér eitthvað fyrir hendur þá var hitt með. Eftir að Stebbi fór að spila golf þá fór Stella oft með honum á golfvöllinn þó að hún spilaði ekki og sýndi ætíð mikinn áhuga á því sem hann tók sér fyrir hendur.

Árið 1950 eignuðust Stefán og systkini hans ásamt foreldrum sínum húsið að Ólafvegi 2, Tjörn sem var nægjanlega stórt fyrir þau öll. Stebbi og Stella settust að í risíbúðinni og breyttu henni í fallegt og notalegt heimili. Það var ætíð gaman að koma á efri hæðina og hitta þau því þau höfðu frá mörgu að segja og spurðu margs. Rætt var um Svarfaðardalinn, staðhætti þar og um menn og málefni. Það var unun að keyra með þeim um dalinn og njóta þekkingar þeirra um æskubyggð Stellu. Þau báru einstaka umhyggju fyrir Sóleyju einkadóttur sinni og fjölskyldu hennar sem búsett var fjarri þeim. Milli Stebba og Sóleyjar var einkar kært. Heimsóknir voru tíðar í báðar áttir og eftir að afi dótturdætranna var orðinn einn sýndu þær honum mikla tryggð. Þegar heilsan tók að gefa sig var hann í umsjá systkina sinna á miðhæðinni þeirra Kristínar og Jóns og án þeirra hefði hann ekki getað verið eins lengi heima og raunin varð.

Með þessum orðum vil ég þakka alúðarvináttu og hlýhug sem Stefán frændi minn sýndi mér ætíð og votta aðstendendum hans samúð mína.

Sveinbjörn Sigurðsson

frá Vatnsenda.

Hluta sumarsins 1979 dvaldi ég hjá ættingjum mínum á Ólafsfirði. Óvenju kalt var í veðri þetta sumar og með ullarvettlinga á höndum kom ég einn daginn eftir mislukkaða veiðiferð í Ólafsfjarðarvatni við í nýbyggingu heilsugæslunnar á Hornbrekku. Þar voru þá önnum kafnir þeir Stefán Ólafsson frændi minn, Sæmundur bróðir hans og vafalaust einhverjir fleiri við múrverk þessa stóra húss. Mér er það enn minnisstætt hvað mér þótti gott að komast inn úr norðannepjunni og fylgjast með þeim bræðrum hamast við iðju sína. Þannig atvikaðist að ég kom ekki aftur á Hornbrekku fyrr en á öskudaginn nú fyrir skemmstu. Þá var Stefán, minn kæri frændi á Tjörn, nýlega orðinn heimilisfastur á hjúkrunardeild Hornbrekku og hafði á orði að þar væri gott að búa. Hann þekkti jú hvern krók og kima frá því að hann vann við byggingu hússins. Þó Stefáni hefði vissulega farið aftur frá því við hittumst síðast grunaði mig ekki þennan bjarta öskudag að hann yrði allur aðeins fjórum dögum síðar.

Stefán Ólafsson var mikill Ólafsfirðingur og hann bar heimabyggð sína mjög fyrir brjósti. Þó lund hans hafi verið létt var hann ekki síður grandvar og íhugull. Stefán lét málefni síns samfélags sig varða, ekki þó með þeim hætti að trana sjálfum sér fram, heldur var leitað til hans vegna hans mörgu mannkosta um að taka að sér ýmis trúnaðarstörf í Ólafsfirði. Oftast var hann tregur til og nefndi gjarnan til sögunnar aðra sem hann taldi hæfari til starfans. Engu að síður sat Stefán í stjórn Sparisjóðs Ólafsfjarðar um árabil og um tíma átti hann sæti í bæjarstjórn. Fræg var kosningaskrifstofa Framsóknarflokksins í Ólafsfirði sem Stefán starfrækti fyrir alþingiskosningar á árum áður í bílskúrnum á Tjörn. Með þeim hætti lagði Stefán sitt til málanna því hann vildi ævinlega vera þátttakandi í þeim málum er vörðuðu Ólafsfjörð og samfélagið allt, fremur en að vera áhugalítill áhorfandi. Þessi afstaða mótaði persónu Stefáns Ólafssonar einkar skýrt og hefur vafalítið átt drjúgan þátt í farsælu lífshlaupi hans, en frá því munu án efa aðrir kunna að greina betur frá en sá sem þetta ritar.

Einar Sveinbjörnsson.