Sigurpáll Aðalgeirsson fæddist í Krosshúsum í Grindavík hinn 6. janúar 1920. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík hinn 3. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru þau hjónin Aðalgeir Flóventsson, útvegsbóndi í Krosshúsum, og Guðrún Eyjólfsdóttir húsfreyja. Hann var fjórði elstur þrettán barna þeirra. Fimm voru andvana fædd eða óskírð. Í aldursröð voru hin átta: Eyjólfur Eyjólfsson, f. 14.10. 1915, d. 21.10. 1933; Helga Guðrún Sigríður, f. 25.9. 1916, d. 22.4. 1976; Vilbergur Flóvent, f. 3.7. 1918, d. 15.10. 1973; Sigurpáll, sem hér er kvaddur; Helgi Elías, f. 23.10. 1925, d. 17.1. 1998; Sveinbjörn, f. 14.7. 1927, d. 3.11. 1929; Magnea Þorgerður, f. 3.8. 1930; Stefán, f. 26.11. 1931, d. 26.8. 1932.

Eiginkona Sigurpáls var Erla Hjördís Ólafsdóttir, f. 29.5. 1927, d. 12.5. 1989, frá Njarðvík. Foreldrar hennar voru Ólafur Guðmundsson og Ingunn Ingvarsdóttir. Börn Sigurpáls og Erlu Hjördísar eru: 1) Ólafur, f. 13.11. 1948. Eiginkona hans var Valgerður Ingólfsdóttir, f. 2.9. 1947, d. 24.2. 1997, og börn þeirra eru þrjú. 2) Rúnar Geir, f. 12.6. 1953. Hann á tvær dætur og tvö fósturbörn. 3) Ingunn, f. 11.8. 1956. Eiginmaður hennar er Fernando Sabido og börn þeirra eru tvö. 4) Erla, f. 15.12. 1960. Eiginmaður hennar var Árni Bernharð Kristinsson, f. 13.5. 1959, d. 22.11. 1991, og börn þeirra tvö. Sambýliskona Sigurpáls síðustu árin var Vigdís Ámundadóttir.

Sigurpáll fór unglingur til sjós og þar var starfsvettvangurinn lengst af. Hann hafði skipstjórnarréttindi á minni báta. Til margra ára gerði hann út báta í félagi með öðrum. Árið 1969 keypti hann Vörðunesið GK 45, 37 tonna bát, í félagi með syni sínum Ólafi og bróðursyni Sverri Vilbergssyni og gerðu þeir hann út til 1971. Þá kaupa þeir stærri bát og voru áfram í útgerð til 1977. Síðustu starfsárin til sjós var hann á Ólafi GK 33, sem hann átti hlut í. Eftir að hann kom í land starfaði hann við Grindavíkurkirkju og kirkjugarðinn á Stað til ársins 1997.

Útför Sigurpáls verður gerð frá Grindavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elskulegur afi minn, Sigurpáll Aðalgeirsson, er látinn. Farsælli lífsgöngu hans er lokið og eftir standa afkomendur og vinir með minningar um ljúfan mann.

Afi ólst upp hjá foreldrum sínum, þeim Guðrúnu Eyjólfsdóttur og Aðalgeir Flóventssyni, ásamt stórum systkinahópi í Krosshúsum í Grindavík. Seinna fluttist fjölskyldan í Krosshús eystri, en þar hófu afi Sigurpáll og amma Hjördís búskap sinn á fimmta áratug síðustu aldar. Þar bjuggu þau ásamt börnum sínum fjórum, en 1975 fluttu afi og amma í nýtt hús sem þau höfðu reist á Baðsvöllum 19. Verkaskiptingin hjá þeim hjónum var eins og tíðkaðist á þessum tíma, amma sinnti börnum og heimili, sem hún gerði af mikilli röggsemi og alúð, en afi bar björg í bú. Hann byrjaði ungur til sjós og var sjómennskan hans helsta ævistarf. Þau voru samhent hjón og var söknuður afa því mikill þegar amma lést á besta aldri árið 1989.

Ég minnist hláturs afa með hlýju, hann hló innilega og með öllu andlitinu. Honum þótti gaman að hlusta á söng og tók hann ósjaldan undir, hvort sem hann var staddur í stofunni heima eða í kirkjunni, en þar var hann tíður gestur. Hann hafði einnig gaman af því að dansa og fór hann oft á gömlu dansana með henni Dísu sinni, en þau bjuggu saman hin seinni ár.

Nú skilja leiðir og vil ég þakka afa samfylgdina. Megi minningin um góðan mann lifa með okkur.

Vigdís Guðrún Ólafsdóttir.