HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá nóvember í fyrra þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar og samkeppnisráð voru sýknuð af kröfum Íslensks markaðar hf. um að ógilda úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá sl.

HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá nóvember í fyrra þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar og samkeppnisráð voru sýknuð af kröfum Íslensks markaðar hf. um að ógilda úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá sl. vori vegna forvals á rekstraraðilum í flugstöðinni. Taldi dómurinn að sérlög um stöðina gengju framar samkeppnislögum. Íslenskur markaður áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar sem komst að þeirri niðurstöðu að dómur Héraðsdóms skyldi vera óraskaður.

Að sögn Höskuldar Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, staðfestir dómur Hæstaréttar að flugstöðin hafi ekki misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Kæruferli sem staðið hafi í tvö ár sé nú loks á enda og flugstöðin geti hafist handa að nýju við forval á rekstraraðilum.

Forvali komið aftur í framkvæmd

"Héraðsdómur stendur óraskaður sem þýðir að við höfum frjálsar hendur varðandi útdeilingu á plássi í byggingunni og útdeilingu á vöruflokkum. Forvalið stendur og við höfum ekki misnotað markaðsráðandi stöðu."

Að sögn hans hefur kæruferlið gert það að verkum að flugstöðin hefur þurft að bíða með breytingar á brottfararsvæði í norðurbyggingu flugstöðvarinnar. Stefnt verði að því að fjölga verslunaraðilum, endurskipuleggja þjónustusvæðið og koma upp nýjum veitingaaðilum o.s.frv.

"Næstu skref eru að koma forvalinu aftur í framkvæmd og dusta rykið af þeim umsóknum sem voru lagðar fram í forvalinu haustið 2002."