Kristín Kristjánsdóttir stjórnarformaður afhendir Guðrúnu Hildi Bjarnadóttur, ljósmóður í N-Þingeyjarsýslu, gjafabréf fyrir ómskoðunartæki.
Kristín Kristjánsdóttir stjórnarformaður afhendir Guðrúnu Hildi Bjarnadóttur, ljósmóður í N-Þingeyjarsýslu, gjafabréf fyrir ómskoðunartæki. — Morgunblaðið/Líney
Þórshöfn | Aðalfundur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var haldinn sumardaginn fyrsta og var venju fremur hátíðlegur þar sem 60 ár eru liðin frá stofnun hans sem var hinn 17. septemer 1944.

Þórshöfn | Aðalfundur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis var haldinn sumardaginn fyrsta og var venju fremur hátíðlegur þar sem 60 ár eru liðin frá stofnun hans sem var hinn 17. septemer 1944.

Gestafyrirlesari á á fundinum var Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Rekstrarafkoma Sparisjóðsins var góð líkt og fyrri ár og var hagnaður síðasta árs 15 milljónir króna. Eigið fé í árslok 2003 nam 252,4 millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og er eiginfjárhlutfallið 28,9% en lögum samkvæmt má hlutfallið ekki vera lægra en 8%. Eignir sjóðsins í árslok 2003 voru samtals 1.126 milljónir kr.

Aðalstjórn Sparisjóðsins var endurkjörin á fundinum og er stjórnarformaður Kristín Kristjánsdóttir og sparisjóðsstjóri Guðni Örn Hauksson.

Sparisjóðurinn hefur í gegnum tíðina stutt ýmis málefni í heimabyggðinni og á síðastliðnu ári runnu tæpar 6 millj. króna til slíkra málefna en það er hátt hlutfall miðað við stærð sjóðsins. Á þessum afmælisfundi var Heilbrigðisstofnun Þingeyinga afhent gjafabréf til kaupa á fullkomnu tölvutengdu ómskoðunartæki til notkunar á heilsugæslustöðvunum í N-Þingeyjarsýslu og er það til fjölbreyttra nota, s.s. við mæðravernd og margt fleira.

Guðrún Hildur Bjarnadóttir ljósmóðir tók við gjafabréfinu fyrir hönd Heilbrigðisstofnunarinnar og þakkaði höfðinglega gjöf því vel búnar heilsugæslustöðvar eru hverju byggðarlagi stoð.