Heiðar Lár Halldórsson
Heiðar Lár Halldórsson
Starfshættir þeirra eru einfaldlega með þeim hætti að þeim er ekki treystandi til þess að eiga eða reka fjölmiðla...

MIKIL reiði hefur gripið um sig í kjölfar væntanlegs lagafrumvarps sem Davíð Oddsson ætlar að leggja fram um eignaraðild að fjölmiðlum. En þegar ég spyr hina reiðu einstaklinga um ástæðu reiði þeirra þá verður fátt um svör. Helstu svörin hafa verið í formi spurninga eins og: "Til hvers að setja lög um eignaraðild fjölmiðla?" og "Hver er ógnin sem verið er að reyna að verjast með þessu frumvarpi?"

Það mætti halda að þeir sem spyrja þessara spurninga lifi ekki á sömu plánetu og ég því hvernig hafa eigendur fjölmiðlana farið með vald sitt undanfarin ár? Bæði eigendurnir, ritstjórarnir og starfsmenn Stöðvar 2, Fréttablaðsins og DV hafa traðkað þannig á sannleikanum og vegið að æðru manna að ógeðfellt hefur verið að fylgjast með því.

Á hverjum degi verður maður vitni að því þegar þessir mjög svo aumu miðlar skrumskæla staðreyndir og setja málin þannig fram að eini tilgangurinn með ákveðnum fréttaflutningi virðist vera að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og fyrirsvarsmenn hans þannig að þeir standi óvígir á eftir.

Það eru ótal dæmi um þetta og þau gerast daglega en til að nefna einhver þá get ég nefnt þegar Fréttablaðið dró Eirík Tómasson fram til umsagnar um ráðningu Björns Bjarnasonar á Ólafi Berki í stöðu hæstaréttardómara þó svo að Eiríkur Tómasson hafi sjálfur verið umsækjandi um stöðuna!

Annað dæmi og það augljósasta var náttúrulega fyrir kosningar í fyrra þegar lekið var trúnaðargögnum úr Baugi til Fréttablaðsins til þess eins að koma höggi á og fella Davíð Oddsson forsætisráðherra. Þetta atvik leiddi m.a. til þess að stjórnarmenn úr Baugi sáu sér ekki annað fært en að segja af sér stjórnarsetu í félaginu. Með öðrum orðum: Nánustu samstarfsmönnum Jóns Ásgeirs blöskraði svo starfshættir hans að þeir sögðu upp trúnaðarstörfum sínum á vegum félagsins.

Síðan þá hefur misbeitingunni og óþverranum síst farið þverrandi og hafa Jón Ásgeir og co. meðal annars stóraukið eign sína á íslenskum fjölmiðlum. Áróður gegn Sjálfstæðisflokknum hefur haldið áfram dag frá dagi auk þess sem gagni með persónuníð að leiðarljósi hefur verið bætt við. Þetta er ekki mín skoðun heldur blákaldur íslenskur veruleiki.

Ég spyr því: Kemur þessi lagasetning Jóni Ásgeiri og félögum e-ð sérstaklega á óvart? Eru þeir ekki bara að uppskera eins og þeir hafa sáð?

Starfshættir þeirra eru einfaldlega með þeim hætti að þeim er ekki treystandi til þess að eiga eða reka fjölmiðla og hvað þá nánast alla fjölmiðla landsins.

Viðskiptahömlur eru sjaldnast af hinu góða en til eigenda fjölmiðla þarf að gera ríkar kröfur og á herðum fjölmiðla hvílir ábyrgð, ábyrgð til þess að upplýsa og fræða þjóðfélagsþegnanna. Ef þeir standa ekki undir þeirri ábyrgð þá hlýtur það að vera skylda ráðamanna að grípa í taumana og gera viðeigandi ráðstafanir. Það hafa Davíð Oddsson og hans fríða föruneyti gert og ég þakka guði fyrir að þeir hafi bein í nefinu til þess að þola þá pressu sem fylgir því að standa í fremstu víglínu og standa vörð um hagsmuni allra Íslendinga.

Heiðar Lár Halldórsson skrifar um fjölmiðlafrumvarp

Höfundur er í stjórn sjálfstæðisfélagsins Miðgarðs við Viðskiptaháskólann á Bifröst.