Jakob Ólafsson
Jakob Ólafsson
Það væri nú hressileg tilbreyting ef dómsmálaráðherra og embættismenn einhentu sér nú í að byggja Landhelgisgæsluna upp eins og forsætisráðherra landsins hefur ítrekað bent á að þurfi að gera.

ÞAÐ verður að teljast hreint með ólíkindum hve víðtækt skotleyfi (blessun ráðherra) sumir embættismenn ríkisins hafa til niðurrifs á starfsemi og öryggismálum Landhelgisgæslu Íslands (LHG). Nú síðast með því að setja í algera óvissu læknisþjónustu um borð í þyrlum LHG. Starfsemi sem í yfir tvo áratugi hefur verið byggð upp af starfsmönnum LHG og læknum sem í mörg ár unnu í sjálfboðavinnu af ótrúlegri fagmennsku og metnaði við að skapa læknisþjónustu um borð í björgunarþyrlum LHG. Þjónustu sem ég get fullyrt að er með því besta sem gerist í heiminum.

Og hver eru svo laun erfiðisins, jú uppsögn og í framhaldinu eru læknarnir ekki virtir viðlits eða spurðir álits um framhald þjónustunnar. Og hverjar eru svo hugmyndir embættismannanna, jú að manna þyrlurnar með hjúkrunarfræðingum, sjúkraflutningamönnum og læknum, allt eftir þörfum hverju sinni, og stíga þannig skref áratugi aftur í tímann. Hver ætlar að taka ákvörðun í bráðaútkalli hvern á að senda, með þær oft á tíðum óljósu upplýsingar sem liggja fyrir í útkalli, útkalli sem þess vegna gæti varað í allt að 5 til 6 tíma út á Reykjaneshrygg eða jafnvel lengur ef fara þarf á haf út fyrir austan land.

Áhafnir þyrlnanna hafa af því langa reynslu að oft er ástand sjúklinga miklu alvarlegra en álitið var í fyrstu og þá er of seint að snúa við til að sækja lækni sem hefur faglegan bakgrunn og reynslu til að takast á við ástandið, og einnig eru atvik þar sem þyrlu á leið í útkall hefur verið beint að öðru slysi sem talið hefur verið alvarlegra og brýnna að fara í. Læknar í áhöfn þyrlna LHG hafa í gegnum árin bjargað fjölda mannslífa með inngripum sínum í lífshættulega áverka sjúklinga um borð í þyrlunum.

Þá hafa flugstjórar á þyrlunum reitt sig á læknisfræðilegt mat læknanna, sem margir hverjir eru með langt sérfræðinám að baki, til að meta þörf á sjúkraflugi við tvísýnar aðstæður í vondum veðrum, og hafa þeir þannig lagt sitt af mörkum við að viðhalda háum öryggisstaðli í flugrekstrinum.

Ég vil vara menn við að vega að þeirri faglegu uppbyggingu og öryggisstaðli sem viðhafður hefur verið í þyrlurekstri LHG með einhverjum skammtímasamningum og viðhalda þannig óvissu um framhald þeirrar mikilvægu öryggis- og sjúkraþjónustu sem LHG veitir.

Fram að þessu hefur allt frumkvæði og framþróun í þyrlurekstrinum komið frá starfsmönnum LHG og læknum sem hafa af elju og metnaði barist við vindmyllur í kerfinu. Má þar nefna baráttu við að fullmanna þyrlurnar og koma á bakvöktum allan sólarhringinn. Fyrir kaupum á öflugri björgunarþyrlu. Uppbygging öryggis- og þjálfunarmála. Kaup á nætursjónaukum og svo mætti lengi telja.

Það væri nú hressileg tilbreyting ef dómsmálaráðherra og embættismenn einhentu sér nú í að byggja Landhelgisgæsluna upp eins og forsætisráðherra landsins hefur ítrekað bent á að þurfi að gera, í stað þess að leggja stein í götu stofnunarinnar og rífa niður það sem vel hefur verið gert.

Fyrir síðustu kosningar kom frambjóðandinn Björn Bjarnason, núverandi dómsmálaráðherra, á fund starfsmanna LHG og sagðist hafa beðið sérstaklega um að fá að koma á þann fund vegna mikils áhuga síns á Landhelgisgæslunni og tilkynnti að ekkert væri að vanbúnaði að bjóða út smíði á nýju varðskipi strax að afloknum kosningum, en nú er biðin orðin eitt ár í viðbót við þau sex ár sem liðu frá því að nefnd var skipuð 1997 sem átti að semja forsendur og hafa eftirlit með smíði á nýju varðskipi. Ráðherrann hafði heldur ekki fyrir því að tryggja Landhelgisgæslunni nægjanlegt rekstrarfé í fjárlögum þrátt fyrir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stæði að Landhelgisgæslan gegndi einu af lykilhlutverkum í að tryggja öryggi borgaranna og að henni ætti að skapa nauðsynleg starfsskilyrði.

Það hlýtur að vera svolítill tvískinnungur í því að krefja Bandaríkjamenn um að halda hér úti kostnaðarsömum öryggis- og varnarviðbúnaði þegar ekki er betur staðið að málum hjá íslenskum stjórnvöldum.

Jakob Ólafsson fjallar um þyrluflugdeiluna

Höfundur er þyrluflugstjóri og flugöryggisfulltrúi Landhelgisgæslu Íslands.