LÖGREGLAN á Blönduósi hefur upplýst fíkniefnamál og handtekið þrjá menn, sem viðurkennt hafa kannabisræktun og vörslu kannabisefna á sveitabæ í nágrenni Blönduóss. Lögreglan gerði tvær húsleitir vegna málsins á miðvikudag vegna gruns um kannabisræktun.

LÖGREGLAN á Blönduósi hefur upplýst fíkniefnamál og handtekið þrjá menn, sem viðurkennt hafa kannabisræktun og vörslu kannabisefna á sveitabæ í nágrenni Blönduóss.

Lögreglan gerði tvær húsleitir vegna málsins á miðvikudag vegna gruns um kannabisræktun. Í fyrri leitinni, sem gerð var í íbúðarhúsi í einum af þéttbýliskjörnum löggæslusvæðisins, var lagt hald á lítilræði af kannabis og áhöld til neyslu. Í seinni húsleitinni sem gerð var á sveitabænum, var lagt hald á um 50 kannabisplöntur á mismunandi ræktunarstigi auk kannabislaufa og -stöngla. Einnig var hald lagt á lampa til ræktunar plantnanna.

Þá voru tekin á annað hundrað grömm af kannabisefnum. Þeir sem handteknir voru viðurkenndu aðild sína sem fyrr segir og eru þeir lausir úr haldi. Mál þeirra verður að lokinni rannsókn sent ákæruvaldinu til frekari meðferðar.