SAMKVÆMT hugmyndum þeim sem stjórnvöld í Noregi hafa kynnt um breytingar á lögum um eignarhald á fjölmiðlum er gert ráð fyrir að markaðshlutdeild verði ákvörðuð með tilliti til eintakafjölda þegar dagblöð eiga í hlut.

SAMKVÆMT hugmyndum þeim sem stjórnvöld í Noregi hafa kynnt um breytingar á lögum um eignarhald á fjölmiðlum er gert ráð fyrir að markaðshlutdeild verði ákvörðuð með tilliti til eintakafjölda þegar dagblöð eiga í hlut. Hvað sjónvarp og útvarp varðar verður fjöldi áhorfenda/hlustenda mældur.

Þetta kom í gær fram í samtali Morgunblaðsins við Gudbrand Guthus, sem starfar hjá Eierskapstilsynet, eftirlitsstofnun með eignarhaldi á fjölmiðlum í Noregi.

Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær leggur norska ríkisstjórnin til að settar verði reglur um leyfilega hámarkshlutdeild á markaði á sviði dagblaðaútgáfu og útvarps- og sjónvarpsreksturs. Í ráði er að hækka þetta þak í 40% á landsvísu á hverju sviði fjölmiðlunar fyrir sig.

Í samtali Morgunblaðsins við Gudbrand Guthus í gær kom fram að ákvæði þetta væri ekki hugsað til að hefta vöxt tiltekins dagblaðs eða fjölmiðils. Ákvæðið um leyfilega hámarkshlutdeild tengdist eignarhaldi. Næði tiltekið dagblað t.d. þessu marki, þ.e. 40% markaðshlutdeild, væri tillagan sú að það fyrirtæki mætti ekki eignast hlut í öðrum dagblöðum. Viðkomandi dagblað mætti hins vegar auka hlutdeild sína umfram 40% reyndist markaðurinn svo jákvæður gagnvart því en sá vöxtur myndi þá hafa hamlandi áhrif hvað eignarhald í öðrum blöðum varðaði.

Hið sama myndi gilda um útvarp og sjónvarp.

Fylgst yrði með markaðshlutdeildinni með upplagseftirliti hvað dagblöð varðaði en fjöldi notenda yrði mældur þegar sjónvarp og útvarp ættu í hlut.

Gert er ráð fyrir að nái tiltekið fyrirtæki 40% markaðshlutdeild á einu sviði fjölmiðlunar megi hlutdeild þess á öðrum sviðum ekki vera meiri en 20% á landsvísu. Þetta þýðir, að sögn Guthus, að nái tiltekið dagblað t.d. 40% stöðu megi hlutdeild þess í útvarpsrekstri ekki fara yfir 20%. Fari markaðshlutdeild í útvarpsrekstri yfir 20% megi viðkomandi fyrirtæki ekki eignast hlut í öðrum fyrirtækjum á því sviði. Grundvallarhugsunin í tillögum stjórnvalda sé sú að tengja saman eignarhald og markaðsstöðu.