GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti og Dick Cheney varaforseti svöruðu í gær saman spurningum um hvernig þeir hefðu beitt sér gegn hryðjuverkastarfsemi áður en hryðjuverkin 11.

GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti og Dick Cheney varaforseti svöruðu í gær saman spurningum um hvernig þeir hefðu beitt sér gegn hryðjuverkastarfsemi áður en hryðjuverkin 11. september 2001 voru unnin í Bandaríkjunum, og hvað þeir hefðu verið að gera daginn sem árásirnar voru gerðar.

Nefnd sem rannsakar orsakir þess, að al-Qaeda-samtök Osama bin Ladens gátu gert árásirnar, átti fund með Bush og Cheney á bak við luktar dyr á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu. Eftir fundinn kvaðst Bush hafa svarað öllum spurningunum sem bornar voru fram. Fyrir fundinn vakti athygli að forsetinn neitaði að sverja að segja sannleikann og vildi ekki svara spurningum nefndarmanna einn síns liðs. Þá krafðist hann þess að fundurinn með nefndinni yrði lokaður og ekkert yrði formlega skráð af því sem fram færi.

Þess í stað skyldi einn nefndarmanna og aðstoðarmenn lagasérfræðings forsetans "skrá ítarlega fundargerð", að sögn talsmanns forsetans. Sagði hann þetta gert til að tryggja að engar leynilegar upplýsingar lækju út.

The New York Times sagði í leiðara í gær, að þessar kröfur Bush væru "ýmist mjög vafasamar eða alveg fáránlegar", og að þetta væri "furðulegasta" yfirheyrslan af öllum þeim sem nefndin hefði haldið. "Í ljósi þess hve umhugað Hvíta húsinu er að sýna Bush sem sterkan leiðtoga er merkilegt að þessi mikilvægi fundur skuli skipulagður með þeim hætti, að hann verði örugglega mikið fóður fyrir sjónvarpsgrínista, sem hafa sérstaka ánægju af því að sýna forsetann sem hlýðna strengjabrúðu varaforsetans," sagði blaðið ennfremur.

Washington. AFP.