FORSVARSMENN Bandalags háskólamanna og Landspítala - háskólasjúkrahúss gengu í gærmorgun á fund Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra til að kynna fyrir honum sameiginleg áhersluatriði BHM og LSH.

FORSVARSMENN Bandalags háskólamanna og Landspítala - háskólasjúkrahúss gengu í gærmorgun á fund Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra til að kynna fyrir honum sameiginleg áhersluatriði BHM og LSH. Þar er bent á fjórar leiðir til betri árangurs við rekstur spítalans en með uppsögnum starfsfólks, skv. upplýsingum BHM.

KPMG-Ráðgjöf skilaði BHM fyrr á árinu matsgerð á hagræðingaraðgerðum LSH. BHM ákvað nýlega að í stað þess að láta reyna á lögmæti hópuppsagnanna á LSH sem áttu sér stað í janúar, væri rétt að leita samstarfs við spítalann um leiðir til að forðast frekari aðgerðir á þessu svði. BHM og spítalinn hafa nú komist að samkomulagi um fjögur meginatriði úr skýrslu KPMG Ráðgjafar, sem að mati þeirra gætu skilað meiri árangri. Voru ráðherra kynntar þessar áherslur á fundinum í gær.

Ákváðum að ganga í lið með stjórnendum spítalans

"Í staðinn fyrir að fara í mál ákváðum við að ganga í lið með stjórnendum spítalans í þeirri von að geta ýtt við stjórnmálamönnum," segir Halldóra Friðjónsdóttir, formaður BHM, en hún óttast að til frekari sparnaðarákvarðana komi við fjárlagagerðina næsta haust að óbreyttu.

Að sögn hennar felst í samkomulagi BHM og LSH í fyrsta lagi að lögð er höfuðáhersla á að greiðslur til spítalans verði tengd við unnin verk. Bent er á að verkefnafjármögnun hafi gefist vel víða annars staðar í almannaþjónustu. Mælingar á hjúkrunarþyngd hafi t.a.m. verið grundvöllur greiðslna í vistunarkerfi öldrunar- og hjúkrunarmála um langt árabil og gefist vel.

Hægja á útgjaldavexti vegna lyfja

Í öðru lagi eru settar fram hugmyndir um leiðir til að hægja á útgjaldavexti í lyfjamálum. Halldóra bendir m.a. á að sömu reglur gilda um lyfjainnkaup fyrir sjúkrahúsin og fyrir almenna notendur, sem þýðir m.a. að spítalinn má ekki kaupa inn lyf nema leiðbeiningar á fylgiseðli hvers lyfs séu þýddar á íslensku.

Bent er á að stjórnvöld þurfi að beita sér fyrir endurskoðun á viðskiptaumhverfi lyfjamála á Íslandi sem hamli því að LSH geti notið bestu kjara við lyfjainnkaup, m.a. í samræmi við sjónarmið um samkeppni og jafnræði á EES-svæðinu.

Talið er að sameiginlegar hugmyndir sem lagðar eru fram í lyfjamálum gætu falið í sér sparnað upp á 4-500 milljónir kr. á ári.

Í þriðja lagi er í þessum sameiginlegu áhersluatriðum sett fram áskorun á stjórnvöld um að finna mannúðlegri og hagkvæmari vistunarúrræði fyrir sjúklinga á spítalanum, sem lokið hafa meðferð og bíða eftir meðferðarúrræðum annars staðar, að sögn Halldóru.

Bent er á að meira en 100 sjúklingar bíða nú eftir slíkri vist á deildum spítalans. Spítalinn getur því ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi, m.a. ekki kallað inn sjúklinga af biðlistum í þau rúm sem teppt eru vegna útskiftarvandans. Sjúklingarnir sem bíða fá ekki þá þjónustu sem er markvissust fyrir þá á meðan þeir bíða, þ.e. þeir bíða í umhverfi hátæknisjúkrahússins en þurfa oft á tíðum á heimilislegu umhverfi hjúkrunarheimila að halda.

Fasteignafélag sjái um eignir spítalans

Þá er í fjórða lagi hvatt til þess að fundin verði hagkvæmari lausn í húsnæðismálum spítalans.

"Það eru 14 milljarðar bókfærðir sem eign spítalans í ársskýrslu á hverju ári. Það fer líka mikill peningur í viðhald og bendum við á að hægt væri að finna hagkvæmari mögulegar leiðir, með því að búa til einhvers konar fasteignafélag, sem sæi um reksturinn," segir Halldóra.

Hún segir að af þessum fjórum atriðum sé megináherslan lögð á sameiginlegar hugmyndir BHM og LSH um verkefnafjármögnun og að heilbrigðisráðherra kynni þessa aðferð fyrir ríkisstjórn og fjárlaganefnd.