Verk eftir Danzi, Thuille, Brahms og Françaix. Blásarakvintett Reykjavíkur: Bernharður Wilkinson flauta, Daði Kolbeinsson óbó, Einar Jóhannesson klarínett, Jósef Ognibene horn & Hafsteinn Guðmundsson fagott. Vovka Ashkenazy, píanó. Sunnudaginn 25. apríl kl. 16.

BLÁSARAKVINTETTINN fyrir flautu, óbó, klarínett, horn og fagott kom undir sem tóngrein á síðustu áratugum 18. aldar, aðallega fyrir tilstilli þeirra félaga Antons Reicha og Franz Danzi (1763-1826) er sömdu ekki aðeins mikið af tónlist fyrir tréblásara almennt, heldur nutu líka virðingar stærri starfsbræðra eins og Webers og Schubert. Og þó að Danzi teljist varla meðal stærstu tónskálda tímans, samdi hann ávallt spilvæna tónlist og virtist aldrei hafa orðið uppiskroppa með skemmtilegar laglínur, þó að hann héldi sig innan vébanda vínarklassíkur til dauðadags.

Blásarahópar seinni tíma hafa jafnan kunnað að meta þetta ljúfa tónskáld, sem iðulega er komið fyrir í upphafi dagskrár, eins og gerðist í Ými á sunnudaginn var þegar Blásarakvintett Reykjavíkur hóf leik sinn með Kvintett Danzis í g-moll Op. 56. Eins og oft vill verða með upphitunarsstykki virtist ekki allt sitja jafn vel í samleik, enda hraðavalið að auki nokkuð í efra kanti, sérstaklega Menúettinn (III) og loka-Allegróið er geystist fram á fjörugu stakkatói.

Píanósextett Ludwigs Thuille (1861-1907) var síðrómantískur fram í fingurgóma og minnti oft sláandi á þroskaárastíl Brahms. Fyrstu tveir þættir voru þétt skrifaðir og fremur þungir, en létti markvert yfir í III. þætti (Gavotte quasi allegretto) með nærri prokofjevskum skrúðgöngublæ; ekki seinna vænna að manni fannst. Lokaþátturinn var hnausþykkur en líka á köflum ferskur og frumlegur.

Þeir sexmenningar léku af mikilli tilfinningu, en kannski oft ívið of sterkt, því að í þessu verki kom fram svo ekki varð um villzt, að áttstrendur salur Ýmis hentar mun betur fyrir kórsöng en kraftmikla kammertónlist. Glymjandin varð víða yfirgengileg og gilti það um öll hljóðfæri, þó að píanó og horn kæmu sennilega verst út. Komist slíkur samspilshópur ekki að í Salnum, gæti því reynzt illskást að setja mjúkar plötur aftan á gataskermana, og jafnvel klæða innveggi hússins stillanlegum teppum líkt og í Hásölum í Hafnarfirði. Aftur á móti gæti ómvistin trúlega hentað mjög vel fyrir strengjakvartett.

Nokkru minna bar á þessu í hinni meistaralegu þríþættu sónötu Brahms í Es-dúr fyrir klarínett og píanó Op. 120 nr. 2, sem Vovka Ashkenazy og Einar Jóhannesson léku bráðfallega með sveigjanlegri dýnamískri mótun, sérstaklega lokaþáttinn, svo varla varð betur gert. Loks var Píanósextett franska grallarans Jean Françaix frá 1947; þrjár stuttar en drepfyndnar smámyndir í tónum af góðglöðum stertimönnum, léttklæddum drósum og "smeykum strákum", er hópurinn lék með hæfilega útlifuðum tilþrifum og miklum húmor.

Ríkarður Ö. Pálsson