MÓTMÆLI vegna samræmds stúdentsprófs í íslensku verða á Austurvelli kl. 13.30 á mánudag, strax að prófinu loknu, að frumkvæði Málfundafélags Kvennaskólans.

MÓTMÆLI vegna samræmds stúdentsprófs í íslensku verða á Austurvelli kl. 13.30 á mánudag, strax að prófinu loknu, að frumkvæði Málfundafélags Kvennaskólans. Kristín Svava Tómasdóttir, fulltrúi félagsins, segir að mikil umræða hafi farið fram í Kvennó um stúdentsprófið og 20% þeirra sem taka það í ár komi úr Kvennó. Ástæðuna segir hún vera þá að Kvennaskólanemendur klára íslensku á þriðja ári og hafa því verið hvattir til að taka prófið í ár, þótt það sé val, frekar en að ári þegar það verður skylda, en námsefnið ekki jafnferskt í minni.

Kristín segir að óánægja nemendana snúist í fyrsta lagi um framkvæmd prófsins. Það hafi ekki verið fyrr en á síðasta ári sem nemendum var tilkynnt um prófið, þegar flestir voru búnir að henda glósum í íslensku og selja bækur sem hefðu getað komið að gagni við undirbúning prófsins. Í öðru lagi finnst nemendum að hugmyndin að baki samræmdu stúdentsprófi í aðeins þremur greinum sé gölluð. Til að samræmdu prófin þjóni þeim tilgangi sem þeim sé ætlaður, þ.e. að gefa nemendum og skólum góða hugmynd um hvar þeir standi í námi miðað við aðra nemendur og skóla, þyrfti að leggja samræmd próf fyrir í mun fleiri greinum.

Telja fjölbreytni minnka

"En það myndi gera skólana einsleita og útrýma þeirri fjölbreytni sem fyrir er í þeim," segir Kristín. Í fréttatilkynningu frá Málfundafélagi Kvennaskólans kemur ennfremur fram að ofuráhersla á samræmdar greinar, eins og hefur sýnt sig í grunnskólanum að mikil hætta er á, geri það að verkum að aðrar greinar verða út undan og námið einsleitara. Nefnir Kristín sem dæmi að skipt hafi verið út félagsfræðiáfanga í Kvennó til að koma að enskuáfanga vegna samræmda prófsins á næsta ári.

Kristín segir að með samræmdum prófum í ákveðnum greinum sé verið að gera lítið úr skólum sem leggja áherslu á aðrar greinar, t.d. félagsfræði og málabrautir, eins og gert sé í Kvennó.

Málfundafélagið hvetur alla sem vilja mótmæla samræmdum stúdentsprófum að mæta á Austurvöll á mánudaginn kl. 13.30 en þar verður stjórnvöldum afhentur undirskriftalisti með mótmælum vegna prófanna.