KJARTAN Antonsson, varnarmaður úr Fylki, gekk í gær til liðs við 1. deildarlið Breiðabliks í knattspyrnu. Kjartan var samningsbundinn Árbæjarliðinu til ársloka 2005 en félögin komust að samkomulagi um félagaskiptin.

KJARTAN Antonsson, varnarmaður úr Fylki, gekk í gær til liðs við 1. deildarlið Breiðabliks í knattspyrnu. Kjartan var samningsbundinn Árbæjarliðinu til ársloka 2005 en félögin komust að samkomulagi um félagaskiptin.

Kjartan, sem er 27 ára, er þar með kominn á heimaslóðir því hann lék með Breiðabliki til ársins 1998, þegar hann gekk til liðs við ÍBV. Hann lék 23 leiki með Blikum í efstu deild, og síðan 61 leik með Eyjamönnum, frá 1998 til 2002. Í fyrra fór hann yfir í raðir Fylkismanna og spilaði þá með þeim 11 leiki í úrvalsdeildinni. Kjartan á að baki einn A-landsleik, gegn Úrúgvæ á alþjóðlegu móti á Indlandi fyrir þremur árum, og hann spilaði 33 leiki með yngri landsliðum Íslands.

"Það er mikill styrkur að fá Kjartan í okkar raðir og skemmtilegt fyrir mig að endurheimta hann til Breiðabliks eftir að hafa fengið hann héðan til Eyja á sínum tíma," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Breiðabliks, við Morgunblaðið í gær.

Blikar ætluðu að fá til liðs við sig tvo tékkneska leikmenn, sem voru hjá félaginu á dögunum, en Bjarni sagði að með tilkomu Kjartans væri það mál líklega úr sögunni.