SAMHERJI hefur gert samning við Marel um kaup á beinatínslukerfi og röntgentækni sem er stærsta breyting sem orðið hefur í vinnsluháttum á bolfiski í áraraðir að því er fram kom í máli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra fyrirtækisins, á aðalfundi...

SAMHERJI hefur gert samning við Marel um kaup á beinatínslukerfi og röntgentækni sem er stærsta breyting sem orðið hefur í vinnsluháttum á bolfiski í áraraðir að því er fram kom í máli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra fyrirtækisins, á aðalfundi þess sem haldinn var í gær. Hann sagði að í raun væri um að ræða byltingarkennda nýjung sem hvergi hefði verið reynd áður. Ef vel tækist til myndi breytingin auka vörugæði, bæta nýtingu hráefnis og hækka verð afurða. Röntgentæknin sem kostaði um 30 milljónir króna gerði að verkum að tryggt væri að viðskiptavinir fyrirtækisins fengju beinlausan fisk.

"Samherji hefur haft bolmagn og fjármuni til að leyfa sér að þróa og fjárfesta í nýjum tækjum og búnaði og þannig hjálpað íslenskum iðn- og hugbúnaðarfyrirtækjum við að gera framleiðslu sína að alþjóðlegri markaðsvöru. Samningurinn við Marel um kaup á beinatínslukerfinu er enn eitt dæmið um slíkt þróunarstarf Samherja sem ég held að verði ekki unnið hér á landi nema til séu öflug og stór sjávarútvegsfyrirtæki," sagði Þorsteinn.